Launamunur kynjanna óbreyttur milli ára

Kynbundinn launamunur innan VR er 10% og hefur ekki breyst marktækt á síðustu árum, þrátt fyrir harða baráttu. Sé litið lengra aftur í tímann hefur þó dregið saman með kynjunum - 2001 var kynbundinn launamunur innan VR 13,8% sem er marktækt hærri við sjáum í dag. Vísbendingar eru um að launamunurinn haldist í hendur við hagsveiflur, hann aukist í uppsveiflu en minnki í samdrætti.

 

Munur á heildarlaunum 14,2%

Í launakönnun VR er munur á launum kynjanna skoðaður miðað við laun í janúar ár hvert. Skoðaður er munur á heildarlaunum kynjanna í fullu starfi sem hlutfall af launum karla en það sýnir hversu lægri laun kvenna eru. Í janúar á þessu ári voru laun karla innan VR að meðaltali tæplega 648 þúsund á mánuði en kvenna tæplega 556 þúsund. Munurinn var 14,2% sem óbreytt frá 2015. Mestur var munurinn á heildarlaunum árið 2000, 20,4%. Lækkunin á tímabilinu 2000 til 2016 er marktæk.

Kynbundinn launamunur 10%

Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á launum karla og kvenna að teknu tilliti til áhrifaþátta á laun ((sjá umfjöllun til hliðar) Þegar búið er að taka tillit til þeirra stendur í ár eftir 10% munur – kynbundinn launamunur. Í fyrra var þessi munur 9,9%. Breytingin á milli ára er ekki marktæk, það þarf að leita nokkur ár aftur í tímann til að sjá marktækan mun m.v. stöðuna í dag.

Árið 2014 var kynbundinn launamunur innan VR 8,5% og hefur ekki mælst lægri. Strax árið eftir jókst munurinn á nýjan leik og var 9,9% eins og áður sagði. Sú breyting var hins vegar innan skekkjumarka.

Þróun í fimmtán ár

Á línuritinu hér að neðan má sjá þróun á launamun kynjanna frá aldamótum en mæling á tímabilinu er samanburðarhæf (athugið að y-ásinn sýnir hæst 25%). Eins og sjá má var kynbundinn launamunur almennt meiri á árunum fyrir hrun, frá 11,6% þegar hann var lægstur og upp í 15,3% þar sem hann var hæstur. Árið 2009, strax í kjölfar hrunsins, dró úr launamuninum en sú breyting var rétt innan skekkjumarka. Vonir stóðu til að munurinn héldi áfram að minnka, en þróunin síðustu tvö árin bendir til hins gagnstæða, launamunur kynjanna virðist aftur vera að aukast.

Kynbundinn launamunur

Í útreikningi VR á kynbundnum launamun er tekið tillit til þátta sem snúa að vinnumarkaðastöðu einstaklinga og geta haft áhrif á laun kynjanna. VR tekur þannig ekki inn í útreikninginn lýðfræðilegar breytur eins og hjúskaparstöðu eða fjölda barna. Þeir þættir sem teknir eru inn í útreikning á kynbundnum launamun innan VR eru: Aldur, starfsaldur, starfsstétt, atvinnugrein, menntun, mannaforráð, vaktavinna og vinnutími sem er stærsti áhrifaþátturinn. Eingöngu eru borin saman laun einstaklinga í fullu starfi.

Kynbundinn launamunur er þannig sá munur sem er á launum karla og kvenna eftir að tekið hefur verið tillit til ofangreindra þátta.

Uppsveifla í hagkerfinu = aukinn launamunur ?

Þegar þróunin á þessu tímabili er skoðuð má sjá vísbendingar um að launamunurinn hreyfist í takt við sveiflur í hagkerfinu. Í uppsveiflu, t.d. á árunum fyrir hrun og svo á síðustu tveimur árum, eykst launamunurinn. Þegar hagkerfið dregst saman, minnkar launamunurinn, eins og sjá má glögglega á fyrstu árum aldarinnar sem og árunum eftir hrun. Hafa verður í huga að hér er verið að skoða mjög stutt tímabil og að ekki er marktækur munur milli einstakra ára. Engu að síður er þetta áhugaverð þróun sem mikilvægt er að fylgjast með.

Hlunnindi og aukagreiðslur til karla

Þegar launastaða kynjanna á vinnumarkaði er skoðuð, eins og hún birtist í niðurstöðum launakönnunar VR, kemur ýmislegt áhugavert í ljós. Karlar fá til að mynda frekar aðrar greiðslur sem hluta heildarlauna sinna en konur, 73% karla fá einhverjar aukagreiðslur með launum en 61% kvenna. Til dæmis eru 35% karla með bílastyrk en 26% kvenna. Bílastyrkur karla er einnig umtalsvert hærri en kvenna, um 54 þúsund að meðaltali á mánuði á móti 38 þúsund hjá konum. Þá er einnig umtalsverður munur á milli kynjanna þegar kemur að hlunnindum, 87% karla fá hlunnindi á móti 74% kvenna. Mikill munur er t.d. hvað varðar farsíma og símakostnað, 59% karla fá greiddan símakostnað og 57% fá farsíma frá vinnunni. Hjá konum er þetta hlutfall lægra, 42% kvenna fá greiddan símakostnað og 42% fá farsíma frá vinnunni.

Karlar ánægðari með launin

Þetta skilar sér í ólíku viðhorfi kynjanna til launanna sinna, karlar eru ánægðari með launin sín en konur. Almennt segjast 54% svarenda í launakönnuninni vera ánægð með launin, 57% karla en 51% kvenna. Hins vegar er hlutfallslegur munur á þeim launum sem viðkomandi fær og þeim sem hann telur sanngjörn meiri hjá körlum en konum, 15,8% á móti 14,6% og er sá munur marktækur.

Lengri vinnuvika karla

Karlar vinna fleiri stundir á viku hverri en konur, jafnvel þó verið sé að bera saman einstaklinga í fullu starfi. Vinnuvika karla var 45,1 stund að meðaltali í janúar í ár en kvenna 42,3 stundir. Karlar eru líka mun líklegri til að vinna fjarvinnu en konur – 43,2% karla vinna fjarvinnu en 34,4% kvenna. Ekki er hins vegar munur á því hversu marga tíma kynin vinna í fjarvinnu, tæplega 6 klst. í viku.

Launamunur starfsstétta

Eins og fram kemur er kynbundinn launamunur innan VR að meðaltali 10% í dag. Þetta er miðað við alla svarendur í könnuninni. En hver er staðan þegar stök starfsheiti eru skoðuð ofan í grunninn? Við skoðuðum nokkur starfsheiti ítarlega. Hér að neðan er birt dæmi af sölufulltrúum. Í launakönnun VR merkja 299 svarendur við það starfsheiti, 197 karlar og 102 konur. Eins og sjá má hér að neðan eru karlar og konur sem gegna þessu starfi um margt lík. Munurinn á heildarlaunum kynjanna hér er 11,1% en þegar tekið hefur verið tillit til allra þessara þátta er kynbundinn launamunur hjá sölufulltrúum 7,5%, körlum í vil.

Sölufulltrúar

Karlar

Konur

Hefur mannaforráð

4%

2%

Fjöldi undirmanna

2,3

2,5

Lokið framhaldsskóla

44%

43%

Lokið háskólanámi (þ.m.t. diplomanám)

18%

21%

Vinnur hjá fyrirtæki með 100+ starfsmenn

31%

42%

Vinnur hjá fyrirtæki með 20 – 99 starfsmenn

46%

45%

Fær greitt skv. fastlaunasamningi

36%

33%

Fjöldi vinnustunda á viku, meðaltal í janúar

43,9

41,7

Starfsaldur, meðaltal í árum

11,5

6,9

Lífaldur, meðaltal í árum

42,7

39,4

Laun:

 

 

Grunnlaun, meðaltal á mánuði

Kr. 477.225

Kr. 424.853

Aðrar greiðslur, t.d. yfirvinna, meðaltal á mánuði

Kr. 60.937

Kr. 53.811

Heildarlaun, meðaltal á mánuði

Kr. 538.162

Kr. 478.664

Allar niðurstöður