Framkvæmdin

Markmið launakönnunar VR er tvíþætt. Í fyrsta lagi að kanna kjör félagsmanna og í öðru lagi að meta hvort kynbundinn launamunur sé fyrir hendi og hversu mikill hann er.

Launakönnun VR fyrir árið 2017 var gerð meðal félagsmanna í febrúar til apríl það ár. Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Könnunin náði til félagsmanna sem höfðu greitt lágmarksfélagsgjald á 12 mánaða tímabili, frá og með október 2015 til og með september 2016, og sem voru á síðustu skilagrein síns fyrirtækis þegar könnunin var gerð, eða í upphafi árs 2017. Niðurstöðurnar í könnuninni miða við laun greidd fyrir janúar 2017. Athugið að samanburður niðurstaðna 2016 og 2017 miðar við launatölur fyrir janúar hvort ár, en árið 2016 voru gerðar tvær launakannanir.

Mikilvægt er að hafa í huga að svörun í árlegri launakönnun VR er úr heildarhópi eða þýði, því allir félagsmenn VR, að uppfylltum þeim skilyrðum fyrir þátttöku sem tíunduð eru hér að ofan, hafa möguleika á að taka þátt. Í almennri úrvinnslu voru notuð öll svör sem bárust. Í úrvinnslu á launaupplýsingum voru í flestum tilfellum notuð svör starfsmanna sem voru í 70% starfhlutfalli eða hærra. Í úrvinnslu á vinnutíma og aðhvarfsgreiningu á kynbundnum launamun voru einungis notuð svör starfsmanna í fullu starfi.

Bakgrunnur svarenda

Endanlegur fjöldi þýðis var 27.474 sem er meira en árið 2016 þegar þýðið taldi rúmlega 25 þúsund félagsmenn. Alls bárust 11.612 svör sem er svipað og árið 2016. I úrvinnslu almennra niðurstaðna voru notuð 10.122 svör og rúmlega 6.800 svör í launatöflum sem er meira en árið 2016. Svarhlutfall var hins vegar svipað og í fyrra, eða 42%. Konur voru 58% svarenda í könnuninni og karlar 42%. Um 15% svarenda voru undir 25 ára aldri, 21% voru á aldrinum 25 til 34 ára, 26% svarenda voru á aldrinum 35-44 ára, 21% voru á aldrinum 45-54 ára og 17% voru 55 ára eða eldri. Í launatöflum eru svör yngstu félagsmannanna hins vegar umtalsvert færri en sem nemur hlutfalli þeirra í þýði eða 5% en svör félagsmanna á aldrinum 35 - 54 ára eru fleiri en hlutfall þeirra í þýði.

Spurt var um laun janúarmánaðar 2017: Grunnlaun, heildarlaun og samsetning heildarlauna. Þá er spurt um aukagreiðslur og hlunnindi. Þessar upplýsingar eru greindar eftir kyni, aldri, menntun, starfsaldri, starfsstétt, atvinnugrein, fjölda starfsmanna í fyrirtæki, starfshlutfalli, fyrirkomulagi launagreiðslna og ánægju með launakjör.

Hringt var í þá félagsmenn VR sem voru ekki með skráð tölvupóstfang og þeim boðið að taka þátt í könnuninni á netinu. Þeir sem voru með skráð tölvupóstfang fengu sendan tölvupóst með boði um að taka þátt. Hringt var svo sérstaklega í þá sem höfðu ekki svarað þegar nokkuð var liðið á framkvæmdatímann og þeim boðið að svara styttri útgáfu af spurningalistanum í síma. Um 5% svarenda svaraði spurningalistanum í síma.

Áhersla á yngri félagsmenn

VR hefur undanfarin þrjú ár lagt mikla áherslu á að ná til yngri félagsmanna í launakönnuninni og hefur það átak skilað sér í fjölgun svara frá þeim hópi. Eftir að búið var að fullreyna að ná í félagsmenn með tölvupósti var hringt í yngri félagsmenn og lögð fyrir þá styttri launakönnun símleiðis.

Kynbundinn launamunur

Til að reikna leiðréttan kynbundinn launamun er notuð línuleg aðhvarfsgreining (linear regression analysis) þar sem leiðrétt er fyrir áhrif átta þátta á laun (aldur, starfsaldur, starfsstétt, menntun, vinnutíma, atvinnugreinar, hvort fólk vinnur vaktavinnu og mannaforráð).

Þar sem aðhvarfsgreiningu er beitt til þess að skýra launamun er tekinn lógariþmi af launabreytum áður en aðhvarfsgreining er reiknuð (byggt á aðferð Mincer, 1958; sjá einnig Heckman, 20031 ). Nokkrar ástæður eru fyrir því að þetta er gert og eru tvær þeirra mikilvægastar. Í fyrsta lagi er dreifingin jákvætt skekkt og er því ekki normaldreifing eins og gert er ráð fyrir í forsendum aðhvarfsgreiningar. Í öðru lagi er líklegt að munur á launum karla og kvenna sé hlutfallslegur fremur en að um fasta krónutölu sé að ræða. Það má gera ráð fyrir því að eftir því sem laun hækka, þess meiri sé munur á launum karla og kvenna í krónum talið en að hann sé hins vegar sá sami í prósentum. Auðvelt er að reikna aðhvarfsstuðul (hallatölu) sem byggir á lógariþma yfir í hlutfallsbreytingu. Til að reikna út hversu mikla hlutfallsbreytingu lógariþmastuðullinn felur í sér er grunntala lógariþmans sett í veldið b (eb), þar sem b er hallatalan, og síðan er 1 dreginn frá. Ef stuðullinn fyrir kyn (karlar fá gildið 0 og konur gildið 1 á breytunni kyn) er -0,171 þá getum við reiknað út að konur eru með e-0,171 – 1= -0,157 eða 15,7% lægri laun en karlar.

Þannig er hægt að segja hve mikill munur er á launum kynja eftir að tekið hefur verið tillit til þátta sem almennt er talið eðlilegt að hafi áhrif á laun, þ.e. aldur, starfsaldur, starfsstétt, menntun og vinnutími. Sá munur sem eftir stendur þegar tekið hefur verið tillit til framangreindra þátta er sá munur sem er á launum karla og kvenna sem gegna sambærilegum störfum.

  • Aldur. Í aðhvarfsgreiningu var raunaldur svarenda í árum notaður en í launatöflum var hann flokkaður í þrjá flokka. Í aðhvarfsgreiningu var jafnframt leiðrétt fyrir aldri í öðru veldi, til þess að jafna sveiglínuáhrif aldurs þar sem áhrif aldurs á laun fara minnkandi eftir að ákveðnum aldri er náð.
  • Starfsaldur. Í aðhvarfsgreiningu var starfsaldur svarenda í árum notaður. Jafnframt var leiðrétt fyrir starfsaldri í öðru veldi, til þess að jafna sveiglínuáhrif starfsaldurs vegna þess að áhrif starfsaldurs á laun fara minnkandi eftir að ákveðnum starfsaldri hefur verið náð.
  • Starfsstétt. Búnar voru til vísibreytur (dummy variables)2 þar sem skrifstofufólk við afgreiðslu var notað sem viðmiðunarhópur við gæslu-, lager- og framleiðslustörf, skrifstofufólk, sölu- og afgreiðslufólk, sérhæft starfsfólk og tækna og stjórnendur og sérfræðinga, þ.e. laun þessara hópa voru borin saman við laun skrifstofufólks við afgreiðslu.
  • Vinnutími. Áhrif vinnutíma á laun voru greind út frá meðallengd vinnuviku að jafnaði.
  • Menntun. Menntun var flokkuð í grunnskólapróf eða minna nám, grunnskóli auk viðbótar, framhaldsskólapróf, framhaldsskólapróf auk viðbótar og háskólapróf. Fyrir aðhvarfsgreininguna voru búnar til vísibreytur þar sem grunnskólapróf eða minna var notað sem viðmiðunarhópur, þ.e. laun annarra hópa voru borin saman við laun þeirra sem eru með grunnskólapróf eða minna.
  • Mannaforráð. Áhrif mannaforráða voru greind út frá því hvort svarendur hefðu mannaforráð eða ekki.
  • Vaktavinna. Áhrif vaktavinnu voru greind út frá því hvort svarendur ynnu vaktavinnu eða ekki.
  • Atvinnugrein. Búnar voru til vísibreytur þar sem verslun og þjónusta var notað sem viðmiðunarhópur við heildsala og bílasala, samgöngur, flutninga og ferðaþjónustu, fjármál, tölvuþjónustu og aðra sérhæfða þjónustu, ýmsa þjónustu og starfsemi samtaka og félaga og iðnað, þ.e. laun þessara hópa voru borin saman við laun þeirra sem vinna við verslun og þjónustu.

Launaupplýsingar

Launatölur í töflum og í reiknivél á vef VR með heildar- og grunnmánaðarlaunum byggjast á svörum starfsfólks í 70-100% starfshlutfalli. Laun starfsfólks í 70-99% starfshlutfalli eru uppreiknuð miðað við 100% starf. Auk meðaltals eru einnig birt miðgildi.

Í töflunum í bæklingnum og í reiknivél á vef VR eru gefin upp meðallaun. Meðaltal er ekki birt nema að baki því standi sex eða fleiri svarendur, annars birtist strik í viðkomandi reit. Athugið þegar svör eru fá ber að taka niðurstöðunum sem vísbendingu.2 Í töflum er að auki birt miðgildi launa, 25% mörk og 75% mörk. Þær tölur gefa til kynna launadreifingu.

Miðgildi

Miðgildi skiptir svarendahópnum í tvennt, helmingur svarenda er með lægri laun en miðgildið segir til um og helmingur þeirra með hærri laun.

Fjórðungamörk

Talan í dálkinum 25% mörk gefur til kynna að fjórðungur svarenda er með sömu eða lægri laun en þau laun sem birtast í dálkinum og eru þá 75% svarenda með hærri laun. Talan í dálkinum 75% mörk gefur hins vegar til kynna að fjórðungur svarenda er með hærri laun en tilgreind eru í dálkinum á meðan 75% svarenda eru með sömu eða lægri laun.

Á grundvelli þessara talna, meðaltals, miðgildis, 25% marka og 75% marka má meta launadreifingu með eftirfarandi hætti:

Því breiðara sem bilið er á milli 25% marka, miðgildis og 75% marka, því meiri dreifing er á launum viðkomandi hóps. Því breiðara sem bilið er því erfiðara er að gera sér grein fyrir hvaða laun eru algengust í viðkomandi hópi. Aftur á móti eru launin einsleitari í hópum þar sem bilið milli þessara talna er þrengra og er þá auðveldara að gera sér grein fyrir á hvaða bili algengast er að laun séu í viðkomandi hópi.

Að auki er hægt að athuga mismun á meðaltali og miðgildi. Ef meðaltal er hærra en miðgildi eru að öllum líkindum nokkrir svarendur í hópnum sem eru með töluvert hærri laun en meginþorri hópsins og hífa þannig meðaltalið upp. Ef meðaltalið er lægra en miðgildið eru að öllum líkindum nokkrir svarendur sem eru með töluvert lægri laun en meginþorri hópsins og draga þannig meðaltalið niður. Ef miðgildi og meðaltal eru á svipuðum slóðum má gera ráð fyrir að um normaldreifingu sé að ræða.

Meðaltal getur verið villandi þegar fáir einstaklingar innan hópsins eru með miklu hærri eða miklu lægri laun en meginþorri hópsins. Miðgildi er þá oft betri mælikvarði á laun í hópnum. Því er mikilvægt að skoða launatölur bæði fyrir meðaltal og miðgildi. Ef svarendur eru fáir er mikilvægt að skoða meðallaunin með gát þar sem einstök svör hafa mikil áhrif á meðaltalið og því ekki víst að þau séu lýsandi fyrir hópinn.

Tölur um vinnutíma á viku eru einungis gefnar upp í meðaltölum.

__________________________________________________

1 Heckman, J. J., L. J. Lochner, et al. (2003). Fifty Years of Mincer Earnings Regressions. NBER Working Paper Series. Cambridge, MA, National Bureau of Economic Research: 52. Mincer, J. (1958). "Investment in Human Capital and Personal Income Distribution." Journal of Political Economy 66(4): 281-302.

2 Vísibreytur eru notaðar þegar um er að ræða nafnbreytur, þ.e. breytur sem eru í flokkum og samræmast því ekki forsendum aðhvarfsgreiningar ef flokkarnir eru fleiri en tveir. Niðurstöður aðhvarfsgreiningar sýna hver er hlutfallslegur munur á viðmiðunarhópnum og hópnum sem er í viðkomandi vísibreytu.