Helstu niðurstöður

Frá janúar 2016 til janúar 2017 hækkuðu grunn- og heildarlaun félagsmanna VR um 5,5%. Laun á klukkustund hækkuðu meira eða um 6,9%. Launavísitala VR hækkaði um 6% á sama tímabili en launavísitala Hagstofunnar hækkaði umtalsvert meira eða um 8,7%.

 

Hver er hækkunin?

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu úr kr. 597 þúsund á mánuði að meðaltali árið 2016 í kr. 630 þúsund að meðaltali árið 2017 samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR, eða um 5,5%. Grunnlaun voru kr. 557 þúsund árið 2016 en voru kr. 588 árið 2017 og hækkuðu því einnig um 5,5%. Laun á klukkustund hækkuðu meira en sem þessu nemur, eða um 6,9%. Launavísitala VR hækkaði um 6% á sama tímabili en launavísitala Hagstofunnar um 8,7% (sjá allar launatöflur í bæklingi).

Helstu ástæður þess að laun samkvæmt launakönnun hækka minna en sem nemur kjarasamningabundinni hækkun á tímabilinu janúar 2016 til janúar 2017 má rekja til breytinga á svarendahópnum milli ára. Umtalsverð fjölgun svarenda er í lægri launuðum atvinnugreinum og starfsstéttum. Svipaða þróun má sjá í félagatali VR en þar hefur orðið mikil fjölgun í atvinnugreinum eins og ferðaþjónustu, samgöngum og leigustarfsemi. Þá má sjá í niðurstöðum launakönnunar að vinnuvikan styttist marktækt milli ára eða um hálfa klst. og starfsaldur lækkar einnig marktækt á milli ára (sjá nánari umfjöllun að neðan). Þetta kann að hafa áhrif til lækkunar meðallaun og leiða til þess að hækkun milli ára er minni en ella. Af þeim sökum eru laun nokkurra starfsheita lægri en laun í bæklingi félagsins frá því í apríl í fyrra (sjá nánar umfjöllun um framkvæmd launakönnunar 2016 en það ár voru gerðar tvær kannanir.)

Mismunandi hækkun meðallauna starfsstétta

Mikill munur er á launum eftir starfsstéttum en innan VR er mikil breidd starfa. Sérhæft starfsfólk og tæknar hækka mest á milli ára, bæði í grunn- og heildarlaunum. Hér að neðan má sjá meðallaun starfsstétta í janúar 2017 og hækkun að meðaltali frá janúar 2016. Miðað er við yfirflokka starfa. Ítarlegar upplýsingar um laun starfsheita innan yfirflokka og hækkun á milli ára má sjá í bæklingi þar sem allar launatöflur eru birtar. Einnig er á vef VR reiknivél sem sýnir allar launatölur.

LAUN YFIRFLOKKA STARFA - MEÐALLAUN ÞÚS. PR. MÁNUÐ

 

Grunnlaun

Heildarlaun

   Allir, meðaltal

588

630

   Stjórnendur

706

759

   Sérfræðingar

673

719

   Sérhæft starfsfólk og tæknar

533

564

   Skrifstofufólk

455

478

   Sölu- og afgreiðslufólk

443

490

   Gæslu-, lager- og framl.störf

398

448

HÆKKUN MILLI JANÚAR 2016 OG 2017 - MEÐALTAL LAUNA

 

Grunnlaun

Heildarlaun

   Allir, meðaltal

5,5%

5,5%

   Stjórnendur

4,7%

4,7%

   Sérfræðingar

5,5%

6,3%

   Sérhæft starfsfólk og tæknar

7,3%

7,1%

   Skrifstofufólk

6,0%

5,4%

   Sölu- og afgreiðslufólk

4,9%

3,6%

   Gæslu-, lager- og framl.störf

6,1%

3,9%

Vinnuvikan styttist marktækt milli ára

Vinnutíminn styttist milli ára, vinnuvikan er 43,2 klst. skv. launakönnun 2017 en var 43,7 klst. í fyrra. Breyting á milli ára er marktæk. Breytingin er meiri hjá körlum en konum eða um 0,6 klst, (úr 45,1 árið 2016 í 44,5 árið 2017) og er það marktæk breyting. Breyting hjá konum er ekki marktæk.

Mikill munur er á vinnuvikunni hjá þeim sem hafa stuttan starfsaldur, vikan styttist um 0,8 klst. hjá þeim sem hafa 2ja ára eða styttri starfsaldur. Þá styttist vinnuvikan hjá starfsfólki fyrirtækja í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu um 0,9 klst og um 0,4 klst. hjá fyrirtækjum í fjármálum og sérhæfðri þjónustu.

Vinnuvikan styttist hjá þeim sem eru með fastlaunasamning og er það í samræmi við styttingu hjá stjórnendum en þar styttist vinnuvikan um 0,7 klst. sem er marktækur munur. Fastlaunasamningum hefur fækkað og hafa ekki verið færri frá árunum 2007/8. Tímakaupsfólki hefur fjölgað á móti.

Starfsaldur lækkar milli ára

Starfsaldur félagsmanna VR í sama eða sambærilegu starfi er 9 ár samkvæmt launakönnuninni. Það er hálfri klukkustund skemmri starfsaldur en á síðasta ári og er þessi breyting á milli ára marktæk. Nokkrar sveiflur eru á starfsaldri á síðustu árum, hann hækkaði mikið á milli áranna 2008 og 2010 eða úr 8,2 árum í 9,7 ár og náði 10 árum árið 2013 en rekja má það til óvissu á vinnumarkaði á árunum eftir hrun.

Breyting á milli áranna 2016 og 2017 kann að skýrast af aukinni hreyfingu á vinnumarkaði og er það stutt öðrum niðurstöðum könnunarinnar. Tæplega 69% svarenda fóru í viðtal hjá atvinnurekanda á síðasta ári og af þeim fóru um 16% í ráðningarviðtal. Það er umtalsvert hærra hlutfall en árin á undan og það hæsta sem mælst hefur frá árinu 2009 þegar ráðningarviðtal var fyrst aðgreint frá öðrum starfsmanna- og launaviðtölum í niðurstöðum könnunarinnar. Þá var einnig spurt í könnuninni í ár hvort viðkomandi hefði skipt um aðalstarf á síðustu tveimur árum og sagðist tæpur þriðjungur svarenda hafa gert það (sjá nánari umfjöllun um hreyfingu á vinnumarkaði)

Fleiri fara í ráðningarviðtal

Fleiri fóru í starfsmanna- eða launaviðtal hjá atvinnurekanda á árinu 2016 en gerðu á árinu 2015 og er hlutfallið nú það hæsta frá mælingum á þessum þætti og svipað og árið 2008. Aldrei hafa fleiri konur farið í viðtal og fleiri konur en karlar telja að það hafi skilað launahækkun.

Rétt um 16% af þeim sem fóru í einhvers konar viðtal á árinu fóru í ráðningarviðtal sem er marktækt hærra hlutfall en í fyrra og það hæsta frá árinu 2009 þegar ráðningarviðtal var fyrst aðgreint frá öðrum viðtölum á vinnumarkaði. Þetta rennir stoðum undir að það sé aukin hreyfing á vinnumarkaði. Fleiri konur fóru í ráðningarviðtal en karlar. Þá voru ráðningarviðtöl algengari í verslun og þjónustu sem og í samgöngum og ferðaþjónustu en í öðrum atvinnugreinum.

Launaviðtalið skilar árangri

Um 87% þeirra sem fóru í launaviðtal eða ráðningarviðtal á árinu 2016 fengu hækkun á sínum launum í kjölfarið. Það vekur athygli að fleiri konur en karlar segja að viðtalið hafi skilað launahækkun. Þá er einnig munur eftir stærð fyrirtækja, fleiri í smærri fyrirtækjum segja að viðtalið hafi skila þeim ávinningi en í stærri fyrirtækjum. Þeir sem fóru í viðtal á árinu eru með 2% hærri laun en þeir sem ekki fóru í viðtal og er munurinn marktækur.