Launamunur kynjanna óbreyttur

Kynbundinn launamunur innan VR er 11,3% samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2017 og hefur ekki breyst marktækt á síðustu árum, þrátt fyrir harða baráttu. Sé litið lengra aftur í tímann hefur þó dregið saman með kynjunum - aldamótaárið 2000 var kynbundinn launamunur innan VR 15,3% sem er marktækt hærri við sjáum í dag.

 

Munur á heildarlaunum 15%

Í launakönnun VR er munur á launum kynjanna skoðaður miðað við laun í janúar ár hvert. Skoðaður er munur á heildarlaunum kynjanna í fullu starfi sem hlutfall af launum karla en það sýnir hversu lægri laun kvenna eru. Í janúar á þessu ári voru laun karla innan VR að meðaltali rúmar 688 þúsund á mánuði en kvenna rúmlega 585 þúsund. Munurinn var 15% og er svipaður og í fyrra. Lækkunin á tímabilinu 2000 til 2017 er marktæk.

Kynbundinn launamunur 11,3%

Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á launum karla og kvenna að teknu tilliti til áhrifaþátta á laun ((sjá umfjöllun til hliðar á síðunni). Þegar búið er að taka tillit til þeirra stendur eftir 11,3% munur samkvæmt könnuninni í ár – kynbundinn launamunur. Í fyrra mældist kynbundinn launamunur 10%. Breytingin á milli ára er ekki marktæk, það þarf að leita nokkur ár aftur í tímann til að sjá marktækan mun m.v. stöðuna í dag.

Árið 2014 var kynbundinn launamunur innan VR 8,5% og hefur ekki mælst lægri. Strax árið eftir jókst munurinn á nýjan leik og var 11,3% í janúar árið 2017 eins og áður sagði. Sú breyting var hins vegar innan skekkjumarka.

Kynbundinn launamunur

Í útreikningi VR á kynbundnum launamun er tekið tillit til þátta sem snúa að vinnumarkaðastöðu einstaklinga og geta haft áhrif á laun kynjanna. VR tekur þannig  ekki inn í útreikninginn lýðfræðilegar breytur eins og hjúskaparstöðu eða fjölda barna. Þeir þættir sem teknir eru inn í útreikning á kynbundnum launamun innan VR eru: Aldur, starfsaldur, starfsstétt, atvinnugrein, menntun, mannaforráð, vaktavinna og vinnutími sem er stærsti áhrifaþátturinn. Eingöngu eru borin saman laun einstaklinga í fullu starfi. 

Kynbundinn launamunur er þannig sá munur sem er á launum karla og kvenna eftir að tekið hefur verið tillit til ofangreindra þátta. Sjá nánar um framkvæmd launakönnunar VR 2017.

Þróunin 2000 - 2017

Á línuritinu hér að neðan má sjá þróun á launamun kynjanna frá aldamótum skv. niðurstöðum launakannanna en mæling á tímabilinu er samanburðarhæf (athugið að y-ásinn sýnir hæst 25%). Eins og sjá má var kynbundinn launamunur almennt meiri á árunum fyrir hrun, frá 11,6% þegar hann var lægstur og upp í 15,3% þar sem hann var hæstur. Árið 2009, strax í kjölfar hrunsins, dró úr launamuninum en sú breyting var innan skekkjumarka. Vonir stóðu til að munurinn héldi áfram að minnka, en þróunin síðustu ár virðist benda til þess að launamunur kynjanna sé að aukast.

Launamunur kynjanna innan VR 2000 - 2017

Starfsstéttirnar

Þegar launamunur kynjanna er skoðaður er allajafna miðað við meðaltal allra svarenda í könnuninni. Þegar starfsheiti eru greind nánar má sjá mun launa, menntunar, starfsaldurs o.m.fl. Hér að neðan eru tekin dæmi um stjórnendur, sölu- og afgreiðslufólk og sérfræðinga en hér má sjá ítarlega umfjöllun um kynin eftir starfi, þar sem m.a. er fjallað um launin, menntun, aldur, vinnutíma o.m.fl. (pdf skjal).

Stjórnendur

 

Laun kvenkyns stjórnenda sem hlutfall af launum karlkyns stjórnenda er nú 94,5%. Ef tímabilið 2013 til 2017 er skoðað má sjá að lægst var það árið 2015 eða 91,8%.

Konur í stjórnunarstöðum eru hins vegar meira menntaðar en karlar en vinna skemmri vinnuviku en karlar, 44,2 stundir á móti 46,3 stundum. 91% kvenna í stjórnunarstöðum fá hlunnindi á móti 95% karla

Heildarlaun á klst. - Laun kvenna sem hlutfall af launum karla
Stjórnendur

Sölu- og afgreiðslufólk

Ef við skoðum sölu- og afgreiðslufólk sést að laun kvenna sem hlutfall af launum karla er núna 85,4%.

Konur í stéttinni vinna einnig skemmri vinnutíma en karlar, 42,1 stund á viku á móti 44,4 stundum. Þær eru frekar með háskólmenntun en fá síður hlunnindi, 82% þeirra fá hlunnindi en 90% karla.

Heildarlaun á klst. - Laun kvenna sem hlutfall af launum karla
Sölu- og afgreiðslufólk

Sérhæft starfsfólk

Konur í hópi sérhæfðs starfsfólk eru með 86,4% af launum karla og hefur það hlutfall lækkað frá 2013.

Konur eru almennt aðeins eldri en karlar í þessum hópi og fleiri hafa háskólamenntun. Vinnuvika þeirra er tveimur klst. skemmri en karla eða 40,9 stundir en vinnuvika karla er 42,9 stundir

Heildarlaun á klst. - Laun kvenna sem hlutfall af launum karla
Sérhæft starfsfólk

Hlunnindi og aukagreiðslur til karla

Staða kynjanna er um margt ólík samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR. Til að mynda fá karlar mun frekar aukagreiðslur sem hluta sinna launa, 73% á móti 62% kvenna. Karlar fá einnig mun frekar hlunnindi en konur, 92% karla eru með hlunnindi á vinnustað á móti 84% kvenna. Fleiri karlar eru með svokallaða fastlaunasamninga, 35% en 27% kvenna. Bílastyrkur karlanna er umtalsvert hærri en kvenna, 55 þúsund krónur að meðaltali en hjá konum er hann 38 þúsund að meðaltali.

Karlar ánægðari með launin

Þetta skilar sér í ólíku viðhorfi kynjanna til launanna sinna, karlar eru sáttari við laun sín en konur. Almennt eru 55% svarenda í launakönnuninni ánægð með launin, 59% karla en 51% kvenna.

Lengri vinnuvika karla

Karlar vinna fleiri stundir á viku hverri en konur, jafnvel þó verið sé að bera saman einstaklinga í fullu starfi. Vinnuvika karla var 44,5 stundir að meðaltali í viku en kvenna 42,1 stund. Karlar vinna frekar fjarvinnu en konur, 40% á móti 32%.