6,1% hækkun milli 2017 og 2018

Heildarlaun félagsmanna VR voru í janúar 2018 um 668 þúsund krónur á mánuði að meðaltali sem er 6,1% hærra en í janúar ári fyrr, samkvæmt niðurstöðum árlegrar launakönnunar félagsins.
Launamunur kynjanna breytist ekki marktækt á milli ára og mælist kynbundinn munur nú 10%. Vinnutíminn hefur hins vegar styst jafnt og þétt undanfarin ár og er vinnuvikan nú rétt tæplega 43 stundir. Niðurstöður launakönnunarinnar voru birtar í byrjun maí.

Hækkun milli ára

Heildarlaun innan VR voru rúmlega 668 þúsund í janúar 2018 og hækkuðu úr 630 þúsund árið 2017 sem er 6,1% hækkun. Grunnlaun námu 622 þúsund að meðaltali í janúar 2018 en 588 þúsund í sama mánuði ári fyrr og er breytingin 5,9%. Launavísitala VR, sem mælir breytingar á launum um 70% félagsmanna, hækkaði um 6,25% á sama tímabili en kjarasamningsbundnar hækkanir voru 4,5% (frá 1. maí 2017). Sjá nánari umfjöllun.

Hvar liggur hækkunin?

Hækkun launa milli ára er mismunandi eftir störfum og atvinnugreinum. Mesta heildarhækkun er meðal sölu- og afgreiðslufólks þegar litið er til yfirflokka starfa, 10,5% að meðaltali en innan hópsins er hækkunin mismikil. Stjórnendur sem hópur hækkar minnst þegar kemur að heildarlaunum, 4,9% en þar er hækkunin einnig misjöfn eftir störfum. Mestu hækkun milli ára er í iðnaði þegar litið er til atvinnugreina, 8,7% heildarlauna. Sjá nánari umfjöllun.

Launamunurinn óbreyttur enn á ný

Munur á heildarlaunum karla og kvenna innan VR er 13,4% samanborið við 15% árið 2017. Breytingin á milli ára er ekki marktæk. Kynbundinn munur, þegar búið er að taka tillit til helstu áhrifaþátta á launin, er 10% og hefur heldur ekki breyst marktækt frá síðasta ári þegar hann var 11,3%. Munurinn er fyrst marktækur þegar litið er næstum tvo áratugi aftur í tímann, til ársins 2001 en þá mældist kynbundinn launamunur innan VR 13,8%.
Sjá nánari umfjöllun.