6,1% hækkun heildarlauna 2017 til 2018

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu um 6,1% milli janúar 2017 og janúar 2018, samkvæmt launakönnun VR fyrir árið 2018. Grunnlaun hækkuðu um 5,9%. Kynbundinn launamunur mælist nú 10% og hefur ekki breyst marktækt frá árinu 2001. Vinnutíminn hefur hins vegar styst og er kominn undir 43 stundir á viku að meðaltali í fyrsta skipti frá því launakönnun VR var gerð fyrst.

 

Hverjir hækkuðu?

Meðallaun félagsmanna VR voru um 668 þúsund krónur á mánuði og hækkuðu um 6,1% frá janúar 2017 en þá voru þau um 630 þúsund. Launavísitala VR, sem mælir breytingar á launum félagsmanna yfir lágmarkslaunum, hækkaði um 6,25% á sama tímabili en kjarasamningsbundnar launahækkanir voru 4,5%.

Hafa verður í huga að launakönnun VR 2018 miðar við laun fyrir janúar en frá og með 1. maí 2018 hækkuðu laun um 3%. Sú hækkun er því ekki inni í þeim tölum sem sjá má í launatöflum 2018 og í launareiknivél á vefnum.

Starfsstéttir hækkuðu mismikið, sölu- og afgreiðslufólk sýnu mest. Hér má sjá hækkanir nokkurra starfsstétta milli 2017 og 2018 (sjá heildartöflu skv. starfsheitum).

Starfsheiti Hækkun grunnlauna Hækkun heildarlauna    
Stjórnendur 5,6%  4,9%     
   - hærri stjórnendur 8,3%  8,0%     
   - markaðsstjórar  14,8%  12,2%    
 Háskólamenntaðir sérfræðingar  6,1%   6,3%    
   - tölvunarfræðingar  4,8%   4,7%    
   - verkefnastjórar  8,3%   10,6%    
 Sérhæft starfsfólk  5,5%   5,6%    
   - aðalbókarar 10,2%   9,8%    
   - þjónustufulltrúar  6,0%   7,4%    
Skrifstofufólk  7,6%  7,9%    
  - móttökuritarar / símavarsla 2,5%  4,3%    
  - gestamóttaka 2,3%  13,8%    
Sölu- og afgreiðslufólk   7,9%   10,5%    
   - afgreiðsla sérvara/matvara  8,3%  11,3%     
   - sérhæfð sölustörf  8,2%   12,3%    
 Gæslu-, lager- og framleiðslustörf  6,5%   8,7%    
   - framleiðsla og pökkun  9,6%   13,9%    
   - lagerstörf  5,8%   7,3%    

Vinnuvikan komin undir 43 stundir

Félagsmenn VR vinna að meðaltali 42,9 stundir á viku hverri og er þetta í fyrsta skipti sem vikan er styttri en 43 stundir í launakönnun félagsins. Lengst var hún um 45 stundir á árunum fyrir hrun en lækkaði í kjölfarið í milli 43 og 44 stundir.

Karlar vinna lengri vinnuviku en konur, 44,2 stundir að meðaltali en vinnuvika kvenna er 41,7 stundir. Starfsfólk í verslun og þjónustu vinnur lengstu vinnuvikuna, 44,2 stundir að meðaltali.

Þeim fækkar einnig sem vinna fjarvinnu, 35,8% svarenda unnu fjarvinnu í janúar 2018, 6,1 klukkustund á viku að meðaltali. Þetta er mikil breyting frá árinu 2011, þá unnu 41,8% svarenda fjarvinnu að meðaltali 10,4 klukkustundir á viku. Fjarvinna er talin með í heildarvinnutímafjölda svarenda. Fjarvinna er mjög misjöfn eftir störfum, yfir helmingur stjórnenda og háskólamenntaðra sérfræðinga vinna fjarvinnu en til dæmis fjórðungur sérhæfðs starfsfólks.

Ókeypis ávextir og brauð

Helmingi svarenda í launakönnun VR 2018 stendur til boða ávextir og brauð á vinnustaðnum, starfsmönnum að kostnaðarlausu. Rétt rúmlega helmingur eða 55% hefur að auki aðgang að niðurgreiddum mat (mötuneyti eða aðkeyptum mat). Í a.m.k. helmingi fyrirtækja þar sem starfsmenn eru 20 eða fleiri, niðurgreiðir fyrirtækið mat starfsmanna.

Hlunnindi algengari í stærri fyrirtækjum

Helmingur svarenda í launakönnun VR fær símakostnað sinn greiddan af fyrirtækinu (gsm eða annað) og fjórir af hverjum tíu fá farsíma frá vinnunni. Tæplega helmingur fær styrk til líkamsræktar, rúmur þriðjungur fær internettengingu á heimilið og rúmlega fjórðungur spjaldtölvu eða fartölvu til eigin nota. Það hefur færst í aukana að starfsmenn fái hlunnindi af þessu tagi – þó deila megi um hvort farsímar og tölvur frá atvinnurekenda séu hlunnindi eður ei.

Hlunnindi

 

Hlunnindi eru algengari í stærri fyrirtækjum en þeim minni, yfir 90% starfsmanna í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri eru með hlunnindi af einhverju tagi en 83% starfsmanna þar sem vinna 10 til 19. Háskólamenntaðir sérfræðingar er sú starfsstétt þar sem flestir fá hlunnindi (97%) en starfsfólk við sölu- og afgreiðslu síst (76%).