Launamunur kynjanna enn óbreyttur

Kynbundinn launamunur innan VR er 10% samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2018. Eftir hrunið 2008 dró jafnt og þétt úr þessum mun en hann jókst svo að nýju og náði hámarki í fyrra, 11,3%, sem var það hæsta sem mælst hefur frá hruni. Þrátt fyrir að lækkunin milli ára nú sé ekki marktæk standa vonir til þess að hún sé til marks um jákvæðar breytingar. 

 

Munur á heildarlaunum 13,8%

Karlar í VR hafa að meðaltali rúmar 723 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði fyrir fullt starf en konur rúmar 626 þúsund. Munurinn er 13,4%, körlum í vil. Í fyrra var þessi munur 15%, en breytingin milli ára er ekki marktæk. Í þessum samanburði er miðað við laun kynjanna, óháð starfi, vinnutíma eða öðrum þáttum sem hafa áhrif á launin.

Kynbundinn launamunur 10%

Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á launum karla og kvenna þegar búið er að taka tillit til helstu áhrifaþátta á laun, þ.e. vinnutíma, aldurs, starfsaldur, starfs og atvinnugreinar, menntunar, mannaforráða og vaktavinnu. Einungis eru borin saman laun einstaklinga í fullu starfi.

Sá munur á launum karla og kvenna, sem eftir stendur að teknu tilliti til ofangreindra þátta, er kynbundinn launamunur. Hann er nú 10% og hefur verið svipaður nánast alla öldina. Árið 2001 mældist kynbundinn launamunur 13,8% sem er marktækt hærra en hann mælist núna.

Launamunurinn 2000 – 2018

Á línuritinu að neðan má sjá þróun á launamun kynjanna frá aldamótum skv. niðurstöðum launakannanna en mæling á tímabilinu er samanburðarhæf. Eins og sjá má var kynbundinn launamunur almennt meiri á árunum fyrir hrun, hæstur 15,3% aldamótaárið 2000. Strax í kjölfar hrunsins dró hins vegar úr launamuninum en sú lækkun var ekki marktæk. Sé litið til lengri tíma, allt aftur til ársins 2001, hefur hins vegar dregið úr kynbundnum launamun.

 

Launamunur kynjanna innan VR

 

Meira um kynin

Vinnuvika karla og kvenna er mislöng, jafnvel meðal þeirra sem eru í 100% starfshlutfalli. Karlar í fullu starfi vinna að meðaltali 44,2 stundir á viku en konur 41,7 stundir. Þegar litið er til allra svarenda, ekki bara starfsfólks í fullu starfi, sést að fleiri konur eru í hlutastarfi en karlar en 91% karla eru í fullu starfi en 77% kvenna.

Karlar fá frekar bílastyrk en konur – 34% karla eru með fastan bílastyrk innifalinn í sínum heildarlaunum en 27% kvenna - og að auki er sá styrkur hærri, 55 þúsund að meðaltali á móti 38 þúsund hjá konum. Karlar fá frekar hlunnindin en konur eins og sjá má hér að neðan, nema þegar kemur að styrk til líkamsræktar:

 

Karlar Konur
Fær greiddan símakostnað 60% 44%
Fær farsíma frá vinnunni 54% 34%
Fær fartölvu/spjaldtölvu frá vinnunni 42% 32%
Fær styrk frá vinnunni til líkamsræktar 44% 48%