Kjarasamningur VR og FA 2011

VR / LÍV og Félag atvinnurekenda (áður FÍS) skrifuðu undir nýjan kjarasamning föstudaginn 13. maí. Samningurinn er sambærilegur við nýgerðan kjarasamning VR og SA og gerir ráð fyrir sambærilegum hækkunum launa á sama tíma.

Lágmarkstaxti verður þó 202 þúsund frá 1. júní nk. Samningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna eins fljótt og auðið er. Þessi samningur tekur til innan við 10% félagsmanna VR, langflestir vinna samkvæmt samningi við Samtök atvinnulífsins.

Helstu atriði samnings VR og FA 2011

Launabreytingar þeirra sem ekki fá greitt skv. lágmarkstaxta:

  • 1. júní 2011 4,25%
  • 1. febrúar 2012 3,50%
  • 1. febrúar 2013 3,25%

Lágmarkstaxtar hækka sem hér segir:

  • 1. júní 2011 kr. 12.000
  • 1. febrúar 2012 kr. 11.000
  • 1. febrúar 2013 kr. 11.000

Lágmarkstaxti fyrir fullt starf verður:

  • 1. júní 2011 kr. 202.000
  • 1. febrúar 2012 kr. 213.000
  • 1. febrúar 2013 kr. 224.000

Eingreiðslur

Eingreiðsla 1. júní kr. 50.000 fyrir starfsmann í fullu starfi sem er við störf í maí og miðast greiðslan við fullt starf í mánuðunum mars - maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl 2011. Starfsmenn sem hófu störf í apríl eða í maí og eru í starfi í maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í apríl og maí 2011. Starfsmenn í hlutastarfi fá hlutfallslegar greiðslur m.v. starfshlutfall hvers og eins.

Álag á orlofsuppbót 2011 kr. 10.000

Álag á desemberuppbót 2011 kr. 15.000, nema að VR / LÍV hafi ákveðið að samningarnir gildi til loka 2012.

Annað

VR og FA eru sammála um að aðrir þættir sem samið hefur verið um á milli ASÍ og SA og ekki eru í samningi VR og FA komi inn í samninginn, eftir því sem við á.

Forsendur og gildistími

Samningurinn byggir á sömu forsendum og samið hefur verið um í kjarasamningi VR / LÍV við SA og skoðast sem hluti samnings þessa. Komi til þess að samningsforsendur standist ekki skulu aðilar leitast við að ná samkomulagi um breytingar á samningi þessum til að markmið samninga náist. Að öðrum kosti gilda ákvæði samningsforsendna um gildistíma samningsins. Samningurinn gildir til 1. febrúar 2014 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samningnum eru.

Atkvæðagreiðsla um samninginn

Samningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna eins fljótt og auðið er. Félagsmenn sem starfa samkvæmt samningi VR og Félags atvinnurekenda fá sent bréf með nánari upplýsingum um atkvæðagreiðsluna.