Kjarasamningur VR og SA 2004

Skrifað var undir kjarasamning milli VR og Samtaka atvinnulífsins 21. apríl 2004. Samningurinn er hér birtur á pdf-formi sem hægt er að prenta út.
Samningurinn er uppfærður m.v. endurskoðun í nóvember 2005 og júní 2006.

Niðurstaða endurskoðunar kjarasamninga 2006 - samkomulag forsendunefndar ASÍ og SA frá 22. júní.

a) Sérstök hækkun kauptaxta kjarasamninga.

Frá 1. júlí 2006 bætist við sérstakur taxtaviðauki, kr. 15.000 á launataxta kjarasamnings. Taxtaviðaukinn myndar grunn fyrir allar álagsgreiðslur, sbr. eftirvinnu, yfirvinnu og vaktaálög.

b) Launaþróunartrygging

Starfsmaður sem er í starfi í byrjun júlí 2006 og starfað hefur samfellt hjá sama vinnuveitanda frá júní 2005 skal tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmanns verið minni á framangreindu tímabili, skulu laun hans hækka frá 1. júlí 2006 að lágmarki um þann mismun sem upp á vantar. Sjá samkomulag forsendunefndar ASÍ og SA og reiknivél til að reikna út hækkun launa milli áranna 2005 og 2006.

Niðurstaða endurskoðunar samnings VR og SA 15. nóvember 2005 - samkomulag í forsendunefnd

Þann 15. nóvember 2005 var undirritað samkomulag milli ASÍ og SA í forsendunefnd kjarasaminga frá árinu 2004 (sjá samkomulagið á pdf skjali hér að neðan). Samkomulagið byggir á samráði ASÍ, SA og ríkisstjórnarinnar og fylgir því yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til þess að treysta stöðuna á vinnumarkaði.

Kjarasamningar aðila munu því halda, að teknu tilliti til þeirra atriða sem nú hefur verið samið um. Þetta samkomulag nær til um 90% félagsmanna VR, þ.e. þeirra sem starfa samkvæmt kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins.

Í samkomulagi atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar felst eftirfarandi:

1. Eigi síðar en 15. desember nk. greiðist 26 þúsund króna eingreiðsla til starfsmanna sem hafa verið í fullu starfi allt árið í sama fyrirtæki og eru í starfi síðustu viku nóvember eða fyrstu viku í desember. Þeir sem eru í hlutastarfi og uppfylla sömu skilyrði fá greitt í samræmi við starfshlutfall. Starfsfólk sem ekki hefur starfað allt árið hjá fyrirtækinu skal fá greitt hlutfallslega miðað við starfstíma sinn. Eingreiðsla þessi verður þó eigi lægri en kr. 4500 miðað við fullt starf. Sjá nánar í samkomulagi ASÍ og SA hér að ofan.

2. Laun hækka um 0,65% umfram umsamdar launahækkanir þann 1. janúar 2007. Samkvæmt samningi VR og SA eiga laun að hækka um 2,25% í upphafi árs 2007 og verður hækkunin því 2,9% samkvæmt þessu.

3. Lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu hækkar í 108.000 kr. um næstu áramót og í 110.000 kr. 1. janúar 2007.

4. Atvinnuleysisbætur verða tekjutengdar.

Aðkoma ríkisvaldsins felur í sér fjóra liði:

1. Ríkisstjórnin beitir sér fyrir lagasetningu um breytingu á greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt samkomulagi ASÍ og SA. Bætur verði tekjutengdar, þ.e. 70% launa í þrjá mánuði en að hámarki 180 þúsund krónur á mánuði.

2. Ríkið mun leggja fram fjármuni til að létta undir með skuldbindingum lífeyrissjóða vegna örorkubóta.

3. Lagt verður fram lagafrumvarp um starfsmannaleigur.

4. 100 milljónir króna verða lagðar í að efla starfs- og endurmenntun.

Einnig er hægt að sjá nánari umfjöllun um niðurstöðurnar á vef ASÍ.