Kjarasamningur VR og SA 2008

VR skrifaði undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins sunnudaginn 17. febrúar 2008, og gildir hann til 30. nóvember 2010.

Þann 25. júní 2009 var skrifað undir samkomulag um breytingar á kjarasamningnum og fela þær í sér breytingar á launatöxtum, sjá hér upplýsingar um launataxta.

Helstu atriði samnings VR og SA 2008

Helstu atriði kjarasamnings VR og SA frá árinu 2008 eru sem hér segir, a.t.t. samkomulags um breytingar á samningnum frá 2009:

  • Launaþróunartrygging, eða svokallaður baksýnisspegill, er 5,5% 2008 fyrir þá sem voru í starfi hjá sama atvinnurekanda frá 1. janúar 2007. Þetta þýðir að þeir sem hafa fengið launahækkun frá þeim tíma sem er minni en 5,5% fá það sem uppá vantar. Þeir starfsmenn sem hafa fengið meira fá hins vegar ekki hækkun. Starfsmenn sem hófu á störf á bilinu 2. janúar 2007 til 30. september 2007 fá samsvarandi launaþróunartryggingu en þó að hámarki 4,5%.
  • Þann 1. nóvember 2009 verður launaþróunartryggingin 3,5%, viðmiðunartímabil hennar er frá 1. janúar til 1. nóvember.
  • Þann 1. júní 2010 verður almenn 2,5% launahækkun.
  • Launataxtar hækka um 18 þúsund krónur við undirskrift, um 13.500 krónur þann 1. mars 2009 og 6.500 krónur þann 1. janúar 2010. Athugið að samkvæmt samkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá því í júní 2009 er breyting á launatöxtum, sjá hér.
  • Orlofsdögum fjölgar í 30 daga hjá þeim sem hafa unnið í sama fyrirtæki í 10 ár. Þetta ákvæði kom til framkvæmda frá og með árinu 2009. Þeir sem hafa unnið í 5 ár hjá sama fyrirtæki fá 27 orlofsdaga frá og með árinu 2010.
  • Slysatrygging er víðtækari í þessum samningi en þeim fyrri, vátryggingin nær m.a. til 18 ára barna í stað 17 ára áður, hún gildir í ferðum á vegum atvinnurekenda innanlands og utan og nær til slysa sem verða við íþróttaiðkun. Örorku- og dánarbætur hækka mikið.
  • Veikindadagar vegna veikinda barna verða 12 í staðinn fyrir 7 og 10 daga eins og nú er.
  • Framlag vinnuveitenda í starfsmenntasjóð hækkar úr 0,15% í 0,20%.
  • Nýr endurhæfingarsjóður verður settur á laggirnar og munu atvinnurekendur greiða til hans 0,13% af launum.