Húsnæðisöryggi skiptir höfuðmáli


VR leggur til í kröfugerð fyrir kjarasamninga 2019 að stofnað verði óhagnaðardrifið húsnæðisfélag með áherslu á húsnæðisöryggi á leigumarkaði og leiguverði sem ráðist af stofnkostnaði og rekstri en ekki af markaðsaðstæðum á hverjum tíma. Slíkt félag gæti verið fyrsta skrefið í átt að þjóðarsátt um húsnæðismál sem allir kalla eftir á Íslandi.

Staða leigjenda óásættanleg

Mikið hefur verið rætt um erfiða stöðu leigjenda og fjölmargar sögur birst um óásættanlega framkomu í garð leigjenda sem hafa engra annarra kosta völ en taka afarkostum leigusala. Lítið sem ekkert húsnæðisöryggi er á leigumarkaði og mörg dæmi um leigusamninga til skemmri tíma þar sem leiga er hækkuð við hverja endurnýjun leigusamningsins. VR leggur áherslu á að tryggja þurfi betur réttarstöðu leigjenda gagnvart leigusölum sem og rekstrargrundvöll hagsmunasamtaka leigjenda með framlögum úr ríkissjóði.

Leiga hækkar langt umfram verðlag

Á tveggja ára tímabili frá október 2016 til sama mánaðar 2018 hækkaði vísítala leiguverðs á Íslandi um 21%. Á sama tíma hækkaði verðlag um tæplega 5% og launavísitalan um 14%.

Hafa verður í huga að vísitala leiguverðs mælir eingöngu breytingar á leiguverði þinglýstra leigusamninga og má því gera ráð fyrir að leiguverð sé í mörgum tilfellum hærra en þar er skráð. 

Hækkun leigu kallar á hækkun launa

Hækkun leigu kallar á hækkun launa umfram því sem nemur hækkuninni á leigunni, ef ekki á að skerða ráðstöfunartekjur leigjandans. Það skýrist af frádrætti frá launum. Tökum dæmi um 20 þúsund króna hækkun leigu á mánuði. Til að geta greitt hærri leigu, án þess að rýra ráðstöfunartekjur sínar, þarf viðkomandi leigjandi að fá launahækkun sem nemur rúmlega 33 þúsund krónum. Þetta samsvarar ríflega 10% hækkun lágmarkslauna.

 

Launahækkun 33.424
Skattur -11.853
Lífeyrissjóður -1.337
Félagsgjald -234
Eftirstöðvar 20.000

Hver er staðan erlendis?

Víðast hvar erlendis er réttarstaða leigjenda mun betri en hér á landi og húsnæðisöryggi meira, þó það sé ekki algilt. Á Íslandi var um 21% fólks á leigumarkaði árið 2016, samkvæmt tölum frá evrópsku hagstofunni, sem er umtalsvert lægra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum, nema í Noregi en þar var hlutfallið um 17%. Í Danmörku var þetta hlutfall um 38% og 35% í Svíþjóð. Í þessum tveimur löndum fellur stærstur hluti leiguíbúða undir verðstýringu af einhverjum toga, t.d. getur ákvörðun leiguverðs verið byggð á kostnaði við rekstur eigna. Þá fylgja hækkanir á leiguverði víða hækkun verðlags en ef leigusali vill hækka umfram það þarf samþykki fyrir því t.d. frá samtökum leigjenda.

Víðast hvar er einnig mun meira öryggi á leigumarkaði en hér á landi. Iðulega er leigusala ekki heimilt að gera samning til skemmri tíma en þriggja ára, þó heimilt sé að segja samningnum upp innan þess tíma með samþykki beggja aðila. Vernd leigjenda er svipuð á hinum Norðurlöndunum þegar kemur að uppsögn leigusamnings og þarf „gildar ástæður“ (e. just cause) fyrir uppsögn, jafnvel þó um tímabundinn samning sé að ræða.

 

Fræðslumyndbönd

Fréttir og greinaskrif

Kjarasamningar 2019