Stytting vinnuvikunnar

VR gerir þá kröfu í kjarasamningaviðræðum að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir, án launaskerðingar. Rannsóknir benda til þess að vinnuvikan á Íslandi sé lengri en í helstu nágrannaþjóðum okkar og að starfsmenn vinni almennt lengur en samningsbundnir vinnutímar segja til um. 

Markmið með styttingu vinnuvikunnar í áranna rás hefur einkum verið að draga úr atvinnuleysi en helstu rök fyrir styttingu vinnutímans í dag snúa að áhrifum langs vinnutíma á heilsufar starfsmanna, stöðu þeirra á vinnumarkaði, jafnvægi vinnu og einkalífs og jafnrétti kynjanna.

Áhersla á heilsuna

Álag á vinnumarkaði hefur aukist mikið síðustu ár, eins og herferð VR, „Þekktu þín mörk“ ber vitni um. Langur vinnutími eykur veikindafjarvistir og þreyta og álag auka hættuna á slysum og draga úr framleiðni. Fyrirtæki eru í auknum mæli farin að huga að heilsufari starfsmanna sinna, m.a. til að auka starfsánægju og bæta líðan í starfi, og er stytting vinnuvikunnar mikilvægur liður í því.

Jafnvægi vinnu og einkalífs

Í skýrslu efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) fyrir Ísland árið 2017 kemur fram að Ísland er í hópi 20% lægstu landa þegar kemur að jafnvægi vinnu og einkalífs. Eftir því sem vinnutíminn er lengri, því erfiðara er að samræma vinnuna og einkalífið. Stytting vinnuvikunnar gæti stuðlað að auknu jafnvægi.

Þá gæti styttri vinnuvika stuðlað að auknu jafnrétti kynjanna. Um þriðjungur kvenna vinnur hlutastarf, m.a. vegna þess að ábyrgð þeirra er meiri á heimilum. Meðal fólks í fullu starfi vinna karlar um 5 klst. lengri vinnuviku en konur á íslenskum vinnumarkaði. Verkaskipting á heimilum virðist ekki hafa breyst í takt við aukna atvinnuþátttöku kvenna, samkvæmt niðurstöðum kannanna.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir á Íslandi hafa stytt vinnuvikuna eða eru að gera tilraunir með styttri vinnuviku. Hjá um 100 vinnustöðum Reykjavíkurborgar stendur nú yfir tilraunaverkefni þar sem vinnuvikan er stytt hjá meira en tvö þúsund starfsmönnum. Þessi tilraun er hluti af stærra verkefni sem hófst árið 2015 þegar vinnuvikan var fyrst stytt hjá tveimur stofnunum borgarinnar (sjá hér umfjöllun um verkefnið). Þá er Hugsmiðjan eitt þeirra fyrirtækja sem stytti vinnuvikuna í tilraunaskyni. Niðurstaðan var mjög góð og hefur fyrirtækið nú tekið upp styttri vinnudag svo munar tveimur klukkustundum.

Fjölmargir vinnustaðir erlendis hafa gert tilraunir með eða stytt vinnuviku starfsmanna sinna með góðum árangri, hvort sem það snýr að framleiðni fyrirtækisins eða líðan starfsmanna.

Styttum vinnuvikuna

Umræða um styttingu vinnutímans kemur reglulega upp á Íslandi. Á síðustu árum hefur frumvarp um styttri vinnuviku fjórum sinnum verið lagt fram á Alþingi, síðast í október 2018, en þar er lagt til að vinnuvikan verði 35 stundir. Kannanir hafa sýnt að starfsfólk vill vinna skemur og njóta meiri frítíma. Það er ljóst að stytting vinnuvikunnar verður eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir.

Fræðslumyndbönd

Fréttir og greinaskrif

Kjarasamningar 2019