Drögum úr skerðingum bóta

VR telur mikilvægt að dregið verði úr skerðingum barna- og húsnæðisbóta svo þeir tekjulægri fái notið bóta sem þeir hafa rétt til. Launahækkun uppá 42 þúsund krónur, úr 480 þúsund krónum í 522 þúsund, skilar eingöngu um 17 þúsund króna hækkun ráðstöfunartekna.

Barnabætur eru til þess ætlaðar að létta undir með barnafólki og jafna stöðu þess. Ákveðin upphæð er greidd til foreldra með hverju barni fram að 18 ára aldri. Umtalsverður munur er á barnabótum á Íslandi og hinum Norðurlöndunum þar sem þær eru greiddar út óháð tekjum en eru hins vegar að fullu tekjutengdar á Íslandi.

Samkvæmt samantekt Alþýðusambandsins hafa fjárhæðir bóta hvorki haldið í við þróun launa né verðlags hér á landi og skerðingarhlutföll vegna tekna hafa aukist allra síðustu ár. Þeim hefur því fækkað verulega sem fá bætur. Skattbyrði barnafjölskyldna með lágar tekjur hefur því aukist umfram skattbyrði annarra.

Vegna skerðingamarka barna- og húsnæðisbóta skilar sér innan við helmingur launahækkunar í buddu þeirra efnaminni á leigumarkaði en mun hærra hlutfall hjá launahærri hjónum, eins og sjá má á dæmunum hér að neðan.

Kjarasamningar 2019

Fræðslumyndbönd

Einstæður faðir með tvö börn, 7 ára og 10 ára

Einstæði faðirinn fær 42 þúsund króna launahækkun, launin fara úr 480 þúsund krónum krónum á mánuði í 522 þúsund krónur. Vegna hærri skatta og iðgjalda og umtalsverðra skerðinga á barna- og húsnæðisbótum hækka ráðstöfunartekjur hans í kjölfar launahækkunarinnar einungis um rúmlega 17 þúsund krónur.

Launahækkun 42.000
Iðgjald í lífeyrissjóð -1.680
Félagsgjald til stéttarfélags -294
Skattur  -14.894
Skerðing barnabóta -4.095
Skerðing húsnæðisbóta -3.780
Eftir stendur 17.257 eða 41% af upprunalegu hækkuninni

 

Hjón með tvö börn, 7 ára og 10 ára

Samtals fá hjónin 84 þúsund krónur í launahækkun, þ.e. launin hækka úr 600 þúsund krónum á mánuði í 642 þúsund krónur hjá hvoru fyrir sig. Þau greiða hærri skatta og iðgjöld, en fá hvorki barnabætur né húsaleigubætur. Ráðstöfunartekjur þeirra hækka samtals um 50 þúsund krónur eftir þessa launahækkun, 25 þúsund hjá hvoru.

Launahækkun, samtals 84.000
Iðgjald í lífeyrissjóð -3.360
Félagsgjald til stéttarfélags -588
Skattur -29.788
Eftir stendur 50.264 eða 60% af upprunalegu hækkuninni