Vaxtastigið á Íslandi

Lengi hefur verið rætt um hátt vaxtastig á Íslandi. Samanburður á vöxtum á Íslandi og landanna í kringum okkur sýnir að íslensk heimili og fyrirtæki greiða margfalt hærri fjárhæð í vaxtakostnað. Fasteignakaupendur sem geta ekki staðið undir svo hárri vaxtabyrði eru neyddir til þess að taka verðtryggð lán með öllu þeim göllum sem þeim fylgja.

Staða efnahagslífsins á Íslandi alltaf betri?

Meiri hagvöxtur og hærri verðbólga hafa verið nefndar sem ástæður þess að hér séu hærri vextir en í öðrum löndum. Almennt er talið að kreppan sem hófst 2008 hafi verið djúp í samanburði við önnur lönd. Lágir vextir geta virkað sem innspýting í hagkerfi þegar illa gengur. Þrátt fyrir það hafa vextir á Íslandi allan tímann eftir hrun verið töluvert hærri en í öðrum löndum. Það er því ekki alltaf hægt að benda á gott efnahagsástand sem ástæðu hárra vaxta.

Sveiflukennt hagkerfi og íslenska krónan

Íslenska hagkerfið er almennt talið nokkuð sveiflukennt. Neysla og hagvöxtur sveiflast meira hér á landi en í löndum sem við berum okkur almennt saman við. Þá eru sveiflur í gengi krónunnar nokkuð meiri en í öðrum gjaldmiðlum. Stór hluti sveiflna í gengi krónunnar lekur inn í verðlag með tilheyrandi verðbólgu. Gengisveiking lekur þó frekar inn í verðlag en gengisstyrking. Seðlabankinn reynir að ná tökum á verðbólgu sem orsakast af gengisveikingu með hækkun stýrivaxta.

Þá hefur verið bent á að vegna útbreiðslu verðtryggðra neytendalána á Íslandi séu stýrivextir bitlausra tól en ella og þar af leiðandi hærri. Seðlabankinn reynir meðal annars að hafa áhrif á neyslu heimila þegar hann breytir stýrivöxtum. Vandinn er að vegna verðtryggðra lána heimila hefur Seðlabankinn lítil sem engin áhrif á útgjöld heimila og þar af leiðandi neyslu þeirra. Árin fyrir hrun reyndi Seðlabankinn að hægja á hækkun fasteignaverðs með því að hækka stýrivexti. Stýrivextir fóru hæst í 18% á meðan heimili gátu enn tekið verðtryggð fasteignalán með 5-6% vöxtum. Þetta er ein birtingarmynd bitleysis stýrivaxta á Íslandi. Sökum þessa bitleysis hefur Seðlabankinn hækkað vexti meira en ella.

 

Fræðslumyndbönd

Fréttir og greinaskrif

Kjarasamningar 2019