Kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA var kynnt og samþykkt á fundi trúnaðarráðs félagsins þann 15. október sl. Hún byggir meðal annars á víðtækri könnun sem lögð var fyrir félagsmenn síðastliðið haust um helstu áherslur í kjarasamningagerðinni og fjölmennum vinnufundi trúnaðarmanna og trúnaðarráðs félagsins.

Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) hafa sammælst um áherslur og leggja fram sameiginlega kröfugerð. Hún var lögð fram á fundi með Samtökum atvinnulífsins þann 19. október. Sambærileg kröfugerð var lögð fram á fundi með Félagi atvinnurekenda skömmu síðar. 

Nánar er farið yfir kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA hér fyrir neðan, en hana má einnig finna á PDF formi og kröfugerð VR og LÍV gagnvart FA sem er nánast samhljóma.

Aðkoma stjórnvalda

VR og LÍV telja mikilvægt að gera kjarasamning til þriggja ára. Friður á vinnumarkaði skapar svigrúm til leiðréttinga á kjörum hinna lægst launuðu og tækifæri fyrir launafólk, atvinnurekendur og stjórnvöld til að endurskoða þá grundvallarþætti sem félagsmenn VR og LÍV líta til sem forsendu mannsæmandi lífs – húsnæðiskerfið, skattakerfið og velferðarmálin.
Ljóst er að stjórnvöld þurfa að koma að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, m.a. með því að endurskoða persónuafslátt og tekjutengingar með hagsmuni hinna lægst launuðu í huga. Félagsmenn VR og aðildarfélaga LÍV gera kröfu um skattleysi lægstu launa, lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á neytendalán.

Launaliður kjarasamninga

VR og LÍV gera þá kröfu að lágmarkslaun fyrir dagvinnu dugi fyrir mannsæmandi lífi en lægstu laun eru ekki í neinum takti við það sem þarf til lágmarksframfærslu. VR og LÍV telja mikilvægt að taka sérstakt tillit til stöðu þeirra sem hafa lægstu launin og leggja því til að samið verði um krónutöluhækkun.

  • VR og LÍV gera kröfu um kr. 42.000 hækkun frá og með 1. janúar 2019 þannig að lágmarkslaun verði kr. 342.000. Öll laun hækki um kr. 42.000.
  • VR og LÍV gera kröfu um kr. 42.000 hækkun frá og með 1. janúar 2020 þannig að lágmarkslaun verði kr. 384.000. Öll laun hækki um kr. 42.000.
  • VR og LÍV gera kröfu um kr. 41.000 hækkun frá og með 1. janúar 2021 þannig að lágmarkslaun verði kr. 425.000. Öll laun hækki um kr. 41.000. VR og LÍV gera kröfu um að orlofs- og desemberuppbætur taki sérstökum hækkunum.

Endurskoðun taxta kjarasamninga

Mikilvægt er að taka taxtakerfi kjarasamninga VR og LÍV og atvinnurekenda til gagngerrar endurskoðunar en nánast allir grunntaxtar í samningum eru undir lágmarkstekjutryggingu. VR og LÍV gera þá kröfu að launataxtar endurspegli laun á vinnumarkaði og að enginn taxti verði undir lágmarkslaunum. Þá gera VR og aðildarfélög LÍV kröfu um að starfsaldursþrepum í launatöflum afgreiðslufólks verði fjölgað þannig að inn komi 7 ára og 10 ára þrep. Þessi krafa gildir um allar launatöflur aðrar en launatöflu skrifstofufólks.

Laun starfsfólks undir 20 ára aldri

VR og LÍV krefjast þess að breytingar á launatöxtum byrjunarlauna í kjarasamningum 2015 verði afturkallaðar og að launataxtar byrjunarlauna verði færðir til sama horfs og áður, þ.e. að byrjunarlaun miði við 18 ára aldur en ekki 20 ára, í samræmi við lög nr. 86 frá 2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Stytting vinnuvikunnar

Vinnutími á Íslandi er mun lengri en í nágrannalöndum okkar og mun lengri en kveðið er á um í kjarasamningum. Afleiðingar langs vinnutíma og meira álags á vinnumarkaði má m.a. sjá í fjölgun veikindatilfella.
VR og LÍV gera þá kröfu að vinnuvika félagsmanna verði stytt, án launaskerðingar í 35 stundir. Til að slík stytting skili sér í styttri viðveru starfsfólks á vinnustað eða við vinnu er mikilvægt að tryggja sveigjanleika í útfærslu styttingar á hverjum vinnustað fyrir sig.

Lífeyrisréttindi

Í kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 21. janúar 2016 var samið um að hækka mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði úr 8% í 11,5%. VR og LÍV gera þá kröfu að launafólk hafi fullt val um ráðstöfun þessarar hækkunar í séreignarsparnað, samtryggingu eða til niðurgreiðslu húsnæðislána.

Veikindaréttur

VR og LÍV gera þá kröfu að launagreiðslur vegna veikinda og slysa verði samræmdar og launagreiðslur vegna vinnuslysa verði þær sömu og vegna veikinda, þ.e. að launafólk fái greidd föst og reglubundin laun. Jafnframt gera félögin þá kröfu að skerðingar vegna aldurs á bótum fyrir varanlega örorku verði felldar niður enda ganga þær gegn ákvæðum laga nr. 86 frá 2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
VR og LÍV leggja áherslu á að veikindaréttur vegna barna nái til barna og ungmenna allt að 18 ára aldri. Þá leggja VR og LÍV til að veikindaréttur vegna barna verði útvíkkaður til að mæta veikindum maka og foreldra félagsmanna. Þessi krafa hefur lengi verið uppi á borðum samtaka launafólks en verður æ brýnni m.a. í ljósi þess að lífaldur hefur lengst.
Þá ítreka VR og LÍV þá kröfu félaganna að allur kostnaður vegna komugjalda og læknisvottorða verði greiddur af atvinnurekanda, ef hann óskar eftir vottorði vegna veikinda.

Réttindi eldra starfsfólks á vinnumarkaði

Fara þarf sérstaklega yfir stöðu starfsfólks 70 ára og eldri á vinnumarkaði sem ekki greiðir lengur iðgjald í lífeyrissjóð og fær heldur ekki mótframlag atvinnurekenda. VR og LÍV gera þá kröfu að atvinnurekendur tryggi að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð skili sér í hækkun launa til eldra starfsfólks eða verði ráðstafað á annan þann hátt sem er í samræmi við vilja þess.

Húsnæðismál

VR og LÍV leggja áherslu á að brugðist verði við þeim bráða húsnæðisvanda sem margt launafólk býr við. Samkvæmt tölum Íbúðalánasjóðs frá því í september sl. hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 99% frá því í janúar árið 2011 og vísitala leiguverðs um 91%. Framboð nýrra íbúða á viðráðanlegu verði er ekki í takt við eftirspurnina og framboð leiguíbúða er nánast ekkert. Fáir geta staðið undir þeim miklu hækkunum sem einkennt hafa húsnæðismarkaðinn á Íslandi á síðustu árum. Við þessu verður að sporna og auka húsnæðisöryggi. VR og LÍV leggja til að stofnað verði óhagnaðardrifið húsnæðisfélag og fjámögnun þess verði tryggð. Slíkt félag gæti verið fyrsta skrefið að þjóðarsátt á húsnæðismarkaði þar sem stjórnvöld og sveitarfélög sem og fyrirtæki og fólkið í landinu taki höndum saman.

Starfsmenntamál

Síðustu ár hefur verið unnið að fagnámi á framhaldsskólastigi fyrir starfandi verslunarfólk og er það í samræmi við kröfur VR og LÍV fyrir síðustu kjarasamninga. Námið mun byggja á einstaklingsbundnu raunfærnimati þar sem kunnátta og hæfni er metin til framhaldsskólaeininga á móti kenndum áföngum en auk þess verður hluti námsins á vinnustað í verklegum brautaráföngum.
Haustið 2019 er fyrirhugað að bjóða námið sem tilraunaverkefni í samstarfi við fyrirtæki í smásöluverslun sem verði síðan grundvöllur að innleiðingu þess fyrir verslunarfólk sem uppfyllir skilyrði námsins. VR og LÍV gera þá kröfu að nám þetta verði metið til launa.

Kröfugerð gagnvart SA

Hér má sjá kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA á PDF formi.

Kröfugerð gagnvart FA

Hér má sjá kröfugerð VR og LÍV gagnvart FA á PDF formi.

Kröfur á stjórnvöld

Hér má sjá kröfur sem VR gerir á stjórnvöld á PDF formi.

Verkföll - spurt og svarað

Launakröfur VR