VR telur ljóst að stjórnvöld þurfi að koma að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, m.a. með því að endurskoða persónuafslátt og tekjutengingar með hagsmuni lág- og millitekjufólks í huga. VR geri kröfu um skattleysi lægstu launa, þjóðarátak í húsnæðismálum, lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á neytendalán.

VR telur mikilvægt að gera kjarasamning til þriggja ára. Friður á vinnumarkaði skapar svigrúm til leiðréttingar á kjörum hinna lægst launuðu og tækifæri fyrir launafólk, atvinnurekendur og stjórnvöld til að endurskoða þá grundvallarþætti sem félagsmenn VR líta til sem forsendu mannsæmandi lífs – húsnæðiskerfið, skattakerfið og velferðarmálin.

Skattar, vextir og verðtrygging

VR krefst þess að persónuafsláttur verði hækkaður þannig að lágmarkslaun verði skattfrjáls og að tryggt verði að persónuafsláttur fylgi launaþróun í landinu. Fjármagnstekjuskattur verði svo hækkaður þannig að ekki verði mismunur á skattlagningu eftir tekjum.
Afnema þarf verðtryggingu á neytendalánum og taka húsnæðisliðinn út úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Húsnæðismál

Gera þarf þjóðarátak í húsnæðismálum. Ljóst er að mikið af ungu fólki situr fast í
foreldrahúsum og sér ekki fram á að komast í eigið húsnæði og leggur VR áherslu á að stofnað verði húsnæðisfélag sem ekki er rekið í hagnaðarskyni og sem tryggir húsnæðisöryggi.
Krafa okkar er að ríki og sveitarfélög tryggi byggingarland inn í slíkt félag og að stjórnvöld vinni að því að bæta réttarstöðu leigjenda gagnvart leigusölum með breytingum á húsaleigulögum.

Almannatryggingar, fæðingarorlof og bætur

Barnabætur verði hækkaðar verulega og dregið verði úr skerðingum og viðmiðunarmörk
skerðinga verði ekki undir lágmarkslaunum. Draga skal verulega úr tekjuskerðingum í
almannatryggingakerfinu. Lengja þarf fæðingarorlof í 24 mánuði þannig að bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað.

Eftirlit og aðhald á vinnumarkaði

Styrkja þarf lagaumhverfi til að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði þannig að tryggt verði
að fyrirtæki geti aldrei hagnast á brotastarfsemi heldur beri af henni fjárhagslegan skaða.
Kjarasamningsbrot verði gerð refsiverð og sektir lögfestar við slíkum brotum. Litið verði á
launaþjófnað eins og annan þjófnað. Samhliða því þarf að setja lög til að stöðva kennitöluflakk.

Velferðar- og fræðslumál

Heilbrigðisþjónusta skal ekki vera markaðsdrifin og jafnt aðgengi tryggt öllum, óháð efnahag
og búsetu. Þá þarf að efla menntakerfið samfara þeim breytingum sem orðið hafa á vinnumarkaði t.d. með þróun hæfnistefnu svo einstaklingar á vinnumarkaði
hafi möguleika á því að velja úrræði til hæfniaukningar sem fjölgar tækifærum þeirra til að
takast á við þróun og breytingar sem framundan eru á vinnumarkaði.

Kröfur á stjórnvöld

Hér má sjá kröfur sem VR gerir á stjórnvöld á PDF formi.

Kröfugerð gagnvart SA

Hér má sjá kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA á PDF formi.

Kröfugerð gagnvart FA

Hér má sjá kröfugerð VR og LÍV gagnvart FA á PDF formi.

Verkföll - spurt og svarað

Launakröfur VR