Til hverra nær verkfall?

Það stendur ekki til að fara í allsherjarverkfall hjá VR, þess í stað verður um staðbundin verkföll að ræða í ákveðnum fyrirtækjum innan Samtaka atvinnulífsins. 

Verkfall mun taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað sem taka laun skv. kjarasamningum félagsins, sjá hér umfjöllun á vef Alþýðusambandsins.

Verkfall tekur til allra sem í hlut eiga, óháð því hvort þeir greiddu atkvæði með eða á móti verkfalli í atkvæðagreiðslu.

Eru þeir sem semja um laun sín sjálfir beint við atvinnurekanda undanþegnir verkfalli?

Verkfallsboðun tekur til allra sem starfa samkvæmt þeim kjarasamningi sem við á og á það bæði við um þá sem taka laun samkvæmt taxta og markaðslaunakerfi.

Hvernig verður greiðslum úr Vinnudeilusjóði háttað til félagsmanna í verkfalli?

Vegna verkfallsboðunar á hótelum og hópbifreiðafyrirtækjum um verkföll sem hefjast eiga seinnihluta marsmánaðar 2019, verður starfandi félagsmönnum VR hjá viðkomandi fyrirtækjum greiddur styrkur úr Vinnudeilusjóði VR vegna tapaðra launa þá daga sem verkföll standa yfir.

Laun verða fundin með því að taka 6 mánaða meðaltal launa samkvæmt skilum í kerfum VR.

Hver og einn félagsmaður sem um ræðir skal sjálfur sækja um greiðslur úr Vinnudeilusjóði VR í sérstöku kerfi sem sett verður á Mínar síður á vef félagsins. Um er að ræða styrk án launatengdra gjalda að frádreginni staðgreiðslu skatta, ekki hefðbundin laun.

Frestur til að sækja um styrkgreiðslu úr Vinnudeilusjóði VR verður 30 dagar frá því að útborgun launa hefði átt að eiga sér stað.

Þeir sem ekki hafa aðgang að Mínum síðum er bent á að hafa samband við VR í síma 510 1700 fyrir frekari upplýsingar um hvernig þeir sækja um greiðslur.

Hvernig er hægt að sækja um greiðslur í verkfalli úr Vinnudeilusjóði?

Hægt verður að sækja um greiðslur á Mínum síðum á vefnum þegar þar að kemur. Nánari upplýsingar verða vel kynntar.

Ef starfsmaður er í orlofi eða veikindum þegar verkfall hefst sem tekur til hans vinnustaðar, hvernig eru reglur um launagreiðslur?

Í þeim tilfellum þegar starfsmaður er í orlofi þegar verkfall hefst hættir viðkomandi starfsmaður að vera í orlofi og fær ekki orlofslaun frá sínum vinnuveitanda. Það orlof sem þannig fellur niður er síðan tekið út síðar í samráði við vinnuveitanda. Starfsmaðurinn fær greitt úr vinnudeilusjóði eins og aðrir félagsmenn skv. ákvörðun stjórnar sjóðsins.

Sama á við um starfsmann sem er í veikindum, þegar verkfall skellur á – hann hættir að fá greiðslu frá vinnuveitanda í veikindum og nýtur greiðslna úr vinnudeilusjóði skv. ákvörðun stjórnar sjóðsins.

Má einhver ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli?

Æðstu stjórnendur fyrirtækja mega ganga í öll störf í fyrirtækinu í verkfalli.
Sjá nánari umfjöllun um vinnu í verkfalli á vinnuréttarvef Alþýðusambandsins.

Mega eigendur fyrirtækja vinna í verkfalli?

Almennt mega eigendur fyrirtækja vinna í fyrirtækjum sínum í verkfalli.
Sjá nánari umfjöllun um vinnu í verkfalli á vinnuréttarvef Alþýðusambandsins.

Kröfugerð gagnvart SA

Hér má sjá kröfugerð VR og LÍV gagnvart SA á PDF formi.

Kröfugerð gagnvart FA

Hér má sjá kröfugerð VR og LÍV gagnvart FA á PDF formi.

Kröfur á stjórnvöld

Hér má sjá kröfur sem VR gerir á stjórnvöld á PDF formi.

Verkföll - spurt og svarað

Launakröfur VR