Standast þín laun samanburð?

Veist þú hver meðallaunin eru í þinni starfsstétt? Skráðu upplýsingar um starfsheiti og vinnutíma á Mínum síðum og þú getur skoðað þína stöðu. 

Skráðu inn þínar upplýsingar

VR hefur í rúma tvo áratugi gert árlega launakönnun meðal félagsmanna sinna til að gefa þeim upplýsingar um launakjör í hinum ýmsu störfum á vinnumarkaði og þróun á milli ára. Á Mínum síðum á vefsvæði VR hafa félagsmenn einnig getað skoðað eigin stöðu og borið saman heildarlaun sín og annarra. Nú hefur VR eflt allan launasamanburð á Mínum síðum og verður launakönnun héðan í frá gerð á þriggja ára fresti.

Með því að skrá starfsheiti sitt og vinnutíma á Mínum síðum geta félagsmenn skoðað samanburð sinna heildarlauna við heildarlaun annarra í sömu starfsgrein. Allar launaupplýsingar miða við greidd iðgjöld til VR, laun sem eru fyrir starf undir 100% starfshlutfalli eru reiknuð upp. Síðar á árinu verður sömu upplýsingum fyrir grunnlaun bætt við.

Að minnsta kosti fimmtán félagsmenn þurfa að skrá tiltekið starfsheiti til að launasamanburður þess verði birtur. Þá er einnig miðað við að lágmarki 60% starfshlutfall en laun fyrir minni vinnu en 100% starf eru uppreiknuð. Ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt, eru launin í samanburðarhópnum ekki birt.

Eru þínar upplýsingar réttar?

Skráning á starfsheiti og vinnutíma liggur til grundvallar áreiðanleika gagnanna á Mínum síðum og því er mjög mikilvægt að allar skráningar séu réttar. Við hvetjum félagsmenn til að uppfæra skráningu á starfsheiti og vinnutíma, verði breyting þar á. Allur launasamanburður á Mínum síðum er lifandi, þ.e. tölur taka breytingum eftir því sem gerðar eru breytingar á skráningum eða iðgjöld berast félaginu.

Samanburðurinn sem birtur er á Mínum síðum tekur ekki tillit til atvinnugreinar eða bakgrunnsþátta, s.s. menntunar eða aldurs. Eingöngu er miðað við vinnustundir á viku og starfsheiti. Því er mikilvægt að skoða allar upplýsingarnar, þ.e. meðaltal, miðgildi og efri og neðri mörk. Ítarlegar skýringar eru á Mínum síðum.

 

Glæsilegir vinningar í boði

12 félagsmenn VR unnu glæsilega vinninga fyrir það eitt að skrá upplýsingar sínar á Mínar síður.

Mánaðarlega frá september fram til nóvember 2018 voru fjórir félagsmenn dregnir út og hlutu tveir gjafabréf með Icelandair að upphæð 50 þúsund kr. og tveir hlutu gjafabréf út að borða. Á tímabilinu fengu því sex vinningshafar gjafabréf með Icelandair og sex gjafabréf út að borða.

VR óskar þeim öllum innilega til hamingju!

Taktu þátt!

Við hvetjum félagsmenn til að kynna sér þá möguleika sem í boði eru á Mínum síðum og uppfæra skráningar sínar, þegar þörf krefur.