Þekkir þú kulnun?

Þegar fólk er undir miklu og langvarandi álagi, í vinnu eða einkalífi, getur orðið vart við svokallaða kulnun, eða "burnout" eins og það kallast á ensku. Einkenni kulnunar eru bæði líkamleg og sálræn, t.a.m. langvarandi þreyta, orkuleysi, verkir og depurð. Einkenni kulnunar eru oftast væg og viðráðanleg í fyrstu, en stigmagnast smátt og smátt þangað til viðkomandi finnst erfitt að hafa stjórn á aðstæðum og hættir að hafa gaman af starfi sínu og daglegu vafstri.

Hvíld er ekki bara svefn

Algeng orsök kulnunar er of mikil vinna. Viðkomandi hleður á sig verkefnum eða setur ekki nægilega skýr mörk, ofmetur jafnvel hvað hann eða hún ræður við. Jafnframt er hætt við að viðkomandi hvílist ekki nægilega, fái ónógan svefn og sé of önnum kafinn til að njóta gæðastunda eða gera það sem veitir honum lífsfyllingu. Það er ekki pláss fyrir neitt annað en að "sofa-vinna-borða."

Síðustu ár hefur vitund um kulnun farið vaxandi og úrræði eru fleiri en þau hafa verið. Í alvarlegum tilfellum er ráðlegt að leita til fagfólks, sálfræðinga, geðlækna eða annarra meðferðaraðila. En það er mikilvægt að hafa vaðið fyrir neðan sig og geðheilsan er okkur öllum mikilvæg. Sjálfsmeðvitund um álagsþætti og góð færni í streitvörnum er frábær forvörn og geðheilsuefling.

Fimm atriði sem allir geta tileinkað sér til að koma í veg fyrir kulnun:

1. Hvíldu þig

Mundu að þú átt rétt á 11 klukkustunda samfelldum hvíldartíma á hverjum sólarhring. Notaður hann til að hvílast, nærast og njóta lífsins. 

2. Gerðu vinnuna betri 

Skipuleggðu vinnuna eins vel og þú getur og ekki taka að þér verkefni sem þú ræður ekki við. Skiptu með þér verkum. Reyndu að finna tilgang í því sem þú tekur þér fyrir hendur. Hafðu vinnuaðstöðuna þægilega og vistlega. 

3. Hreyfðu þig daglega

Það er mikilvægt að kíkja eitthvað út og njóta dagsbirtunnar á hverjum degi, sérstaklega í skammdeginu. 

4. Sparaðu tækin

Tölvan og síminn geta truflað mann meira en maður tekur eftir. Það getur reynst vel að taka sér pásu frá tækninni á hverjum degi. 

5. Hlúðu að undirstöðunum

Mundu hvað skiptir þig mestu máli í lífinu og taktu frá tíma til að vera með vinum og ástvinum eða til að sinna áhugamálum.