Val á stjórnarmönnum VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna

Á fundi stjórnar VR í mars árið 2014 voru samþykktar reglur um val félagsins á stjórnarmönnum í Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Nú auglýsir félagið, á grundvelli þessara reglna, eftir áhugasömum í stjórn sjóðsins fyrir kjörtímabilið 2016 - 2019.

Í gr. 5.1. í samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að stjórn VR skipi fjóra stjórnarmenn og jafn marga varamenn í stjórn lífeyrissjóðsins. Samkvæmt gr. 5.2. er kjörtímabil stjórnar 3 ár og hefst það 1. mars á þriggja ára fresti, næst 1. mars 2016. Samkvæmt reglum stjórnar VR um tilnefningu VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er auglýst eftir stjórnarmönnum fyrir 1. desember á síðasta ári kjörtímabils og skal kjör liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar í aðdraganda nýs kjörtímabils.

Valið fer þannig fram að stjórn VR kýs tvo aðalmenn meðal umsækjenda og trúnaðarráð VR kýs tvo aðalmenn og fjóra varamenn. Kynjahlutfall skal vera jafnt bæði í vali stjórnar og í vali trúnaðarráðs. Bæði aðal- og varamenn eru kosnir til þriggja ára í senn en hámarkstími stjórnarsetu í sjóðnum er níu ár.

Gerðar eru kröfur um að umsækjendur séu fjárhagslega sjálfstæðir sbr. 9. gr. reglna FME nr. 180/2013 en þeir þurfa einnig að búa yfir nægilegru þekkingu og starfsreynslu skv. 6. gr. reglna FME nr. 180/2013. Auk þess þurfa þeir að gangast undir munnlegt hæfismat hjá FME sbr. 16. gr. reglna FME nr. 180/2013. Þá er nauðsynlegt að umsækjendur uppfylli skilyrði 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en þar segir:

Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða skulu vera lögráða, fjárhagslega sjálfstæðir, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota. Þeir mega ekki í tengslum við atvinnurekstur hafa hlotið dóm á síðustu tíu árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög,einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða ákvæðum laga er varða opinbergjöld, svo og sérlögum um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, í aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Fjármálaeftirlitið setur reglur um fjárhagslegt sjálfstæði stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

Skilyrði er að umsækjendur séu almennir launamenn og helst félagsmenn í VR. Þetta þýðir að þeir eru útilokaðir sem eru sjálfstætt starfandi atvinnurekendur/einyrkjar, jafnvel þótt þeir séu skráðir sem launamenn hjá eigin fyrirtæki. Þá er það einnig gert að skilyrði að þeir greiði reglulegt og skyldubundið iðgjald af launum sínum til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Kjör og kjörtímabil

Kjör fer þannig fram að stjórn VR tilnefnir úr hópi umsækjenda tvo aðalmenn, einn karl og eina konu. Val á umsækjendum innan stjórnar skal fara fram með leynilegri einstaklingskosningu. Merkja skal við tvö nöfn, einn karl og eina konu. Stjórn VR skal hafa lokið sínu vali á stjórnarmönnum áður trúnaðarráð kýs sína fulltrúa.

Við kosningu í trúnaðarráði hafa allir trúnaðarráðsmenn VR atkvæðisrétt. Halda skal fund í trúnaðarráði þar sem frambjóðendum gefst kostur á að kynna sig. Atkvæðagreiðsla skal fara fram á sama fundi og vera leynileg þannig að merkja skal við einn karl og eina konu á kjörseðli. Sú kona sem fær flest atkvæði hlýtur kosningu sem aðalmaður og sama á við um þann karl sem fær flest atkvæði. Sá aðili sem er næst því að ná kjöri sem aðalmaður skal vera fyrsti varamaður. Næsti varamaður af gagnstæðu kyni, við fyrsta varamann, sem er næstur því að komast inn sem aðalmaður er annar varamaður og þannig koll af kolli þannig að tveir varamenn eru konur og tveir karlar. Ef atkvæði tveggja aðila eru jöfn t.d. tveir karlar sem fá jafnmörg atkvæði sem aðalmenn skal kjósa á milli þeirra tveggja á sama fundi.

Ef stjórnamaður í lífeyrissjóðnum missir kjörgengi þannig að hann þurfi að víkja úr stjórn lífeyrissjóðsins eða segir af sér stjórnarmennsku tekur fyrsti varamaður af sama kyn við sæti hans í stjórninni.

Stjórnarlaun

Stjórnarlaun í Lífeyrissjóði verzlunarmanna eru ákveðin á ársfundi sjóðsins. Í dag eru laun stjórnarmanns 142.500 kr. á mánuði, stjórnarformaður fær tvöföld stjórnarlaun og varaformaður fær ein og hálfföld stjórnarlaun.

Umsóknir

Með því að auglýsa eftir umsóknum, eins og hér er gert, er jafnræðis gætt þannig að allir sem telja sig hafa hæfi til að sitja sem stjórnarmenn eiga kost á að lýsa yfir áhuga sínum með því að skila inn umsókn. Með umsókn þarf að fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem umsækjandi rökstyður umsóknina. Einnig þarf að fylla út sérstakt eyðublað drengskaparyfirlýsingar og láta fylgja með umsókn en þar kemur fram að umsækjandi þurfi að uppfylla kröfur um hæfi skv. lögum og einnig reglum FME.

Ef fjöldi umsókna eru fleiri en 16 mun óháður aðili leggja mat á umsóknirnar og velja úr 16 umsóknir sem lagðar eru fyrir stjórn og trúnaðarráð VR. Við mat á umsóknum er miðað við að 16 manna hópurinn endurspegli kynjadreifingu skv. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 og að aldursdreifing sé eins jöfn og hægt er. Auk þess er einnig miðað við reynslu og þekkingu umsækjenda.