Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir

Fæðingardagur og -ár
19. maí 1974.

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni.

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
Hef starfað hjá A4 í rúm 15 ár. Er með sveinspróf í hárskurði, hef lokið Skrifstofubraut 1 og 2 frá MK ásamt námskeiðum af ýmsu tagi. Hef lokið Vinnsla og greining gagna í Opna háskólanum í HR.

Netfang: kristjana74@gmail.com
Facebook: Kristjönu í stjórn VR


Reynsla af félagsstörfum

Ég hef komið víða við á vinnumarkaðnum í gegnum tíðina. Byrjaði 13 ára að vinna í sjoppu og bensínstöð úti á landsbyggðinni. Hef unnið í frystihúsi, saltfisk og loðnu. Fór sem au-pair til Bandaríkjanna. Var rekstrarstjóri á skemmtistað í nokkur ár, vann í grunnskóla og við ýmis sölustörf.
Ég var trúnaðarmaður á mínum vinnustað frá 2006-2016 og aftur 2019 og er enn. Sat í trúnaðarráði VR frá 2007-2009 og 2010-2011. Sat í stjórn VR sem aðalmaður og varamaður frá 2011-2018. Ég hef setið í starfsmenntanefnd og laganefnd VR í stjórnartíð minni og verið formaður laganefndar. Einnig sat ég í umhverfisnefnd ASÍ og var varamaður í miðstjórn ASÍ.


Helstu áherslur

Mér finnst ótrúlega gaman að fá að taka þátt í starfi VR. Það eru komin 3 ár síðan ég sat í stjórn VR. Ég finn að ég sakna þess að taka þátt og finnst ég ennþá hafa margt til málanna að leggja. Margt hefur breyst á þessum tíma. Sumt gott og annað ekki. Áhuginn er ennþá mikill og þess vegna langar mig að fá tækifæri til að starfa aftur fyrir félagsmenn. Jafnréttismál eru alltaf efst á lista yfir þau mál sem mér finnst skipta miklu máli og vil ég halda áfram að vinna að því að ná fram jafnrétti á vinnumarkaði. Bæði þegar kemur að launum og tækifærum til starfa. Stytting vinnuvikunnar er mál sem við þurfum að halda áfram að berjast fyrir. Við erum komin af stað, en þurfum að ná svo miklu lengra. Aukið jafnvægi á milli kynja og á milli vinnu og fjölskyldu bætir og eflir samfélagið okkar í heild. Aukið álag og stress er farið að segja allt of mikið til sín á vinnumarkaðnum.


Ég hef farið niður þá leið að keyra mig í kaf í vinnu. Það var margt sem spilaði þar inn í. Nýtt starf, aukin verkefni og stuðningur ekki til staðar. Á þeim tíma gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað var að gerast. Ég var orðin ólík sjálfri mér, náði varla andanum almennilega og grét bara á kvöldin. Ég var alltaf að vinna og náði ekki að leggja vinnuna frá mér. Sem betur fer fóru aðrir að taka eftir breytingunni og ég fékk önnur og betri verkefni og náði mér aftur á strik. Þegar þetta var að gerast var ekki komið í umræðuna þetta nýja orð okkar „kulnun“. En þangað var ég komin. Ég finn samt eftir þetta að viðnámið hjá mér og þröskuldurinn hefur lækkað og er ekki það sama og það var. Ég hef samt náð styrk mínum aftur sem er æðisleg tilfinning. Ég er vel vakandi fyrir þessu í dagi og passa mig. Þess vegna er stytting vinnuvikunnar mál sem mér finnst við verða að setja í fremstu sæti þegar við ræðum um kjör okkar. Við náðum miklum sigri að koma því inn í seinustu samninga. Það voru samt bara 45 mín á viku.

Núna um áramótin var stytting vinnuvikunnar hjá ríki og borg allt að 4 tímum á viku. Hvar er sanngirnin í því? Af hverju eigum við á almenna markaðinum að sætta okkur við 45 mínútur þegar aðrir geta valið um allt að 4 tímum. Þegar vinnudagurinn er styttri vinna flestir betur. Þú ert einbeittari og skilar meira af þér. Þetta skilar sé á svo margan hátt. Það er minna af því að skutlast á vinnutíma. Þú hefur aukinn tíma í útréttingar sem þú þurftir að fá leyfi til að sinna.

Þú getur ræktað þig og fjölskyldu þína betur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að minna sé af veikindum og framlegð sé betri þegar vinnuvikan er styttri. Þetta er ávinningur fyrir alla. Við verðum að berjast áfram fyrir þessu. Álag virðist vera meira en oft áður. Við heyrum mikið talað um kulnun og er hún orðin allt of algeng. Það er eitthvað mikið að þegar svo margir eru að keyra sig út í vinnu og við að ná að halda utan um daglegt líf. Þetta er mál sem varðar okkur öll á öllum aldri í öllum störfum. Við þurfum að standa saman að betra samfélagi.


Söknuður kemur hjá mér þegar ég hugsa til þess að vera hluti af stjórn þessa stóra og flotta félags sem við tilheyrum. Það eru komin 3 ár og ég hef fylgst með á kantinum. Á þessum tíma hef ég oft fyllst stolti af ákvörðunum sem teknar hafa verið en ég hef líka verið mjög ósammála og jafnvel reið.

Ég finn hvað ég sakna þess að fá að taka meiri þátt og hafa eitthvað um málin að segja. Það er skemmtilegt, lærdómsríkt og þroskandi að takast á og skiptast á skoðunum. Maður stækkar og lærir mikið þegar maður þarf að vinna með allskonar fólki með mismundi skoðanir. Við erum svo ólík og það er svo gaman. Þannig náum við líka fram því besta, þegar margir ólíkir koma saman og ræða málin, skiptast á skoðunum og komast að niðurstöðu. Við erum alltaf að vinna að því að komast lengra og vera betri.

Ég vona heitt og innilega að þú kæri félagsmaður gefi mér tækifæri að vinna að bættara samfélagi og öflugra félagi.

Ekki gleyma að kjósa. Hvert atkvæði skiptir máli.