Sigmundur Halldórsson

Fæðingardagur og -ár
17. desember 1966.

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni.

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
Ég hef starfað við stafræna verkefnastjórnun, markaðssetningu, útgáfu og þróun m.a. hjá Icelandair, CCP, 365, Símanum og A4. Ég hef lokið MA námi í alþjóðasamskiptum frá Nottingham University í Bretlandi og BS í fjölmiðlun frá Virginia Commonwealth University í Bandaríkjunum, auk margvíslegra styttri námskeiða tengdum störfum mínum.

Netfang: simmix1@yahoo.com

Facebook: Sigmund í stjórn VR


Reynsla af félagsstörfum

Ég hef verið félagsmaður í VR nánast alla mína starfsævi og hef brennandi áhuga á málefnum launafólks. Ég kom inn í trúnaðarráð VR 2012 og frá árinu 2015 hef ég setið í stjórn VR og tekið beinan þátt í störfum stjórnar í nefndum og á stjórnarfundum. Ég hef setið í framtíðar-, jafnréttis-, orlofs- og styrkjanefnd VR, og er nú formaður bæði mennta- og laganefndar VR. Ég er sérstaklega stoltur af starfi okkar í framtíðar- og menntanefndum VR. Jafnframt tek ég þátt í starfi ASÍ fyrir hönd VR þar sem ég er í miðstjórn og fjölmiðlanefnd ASÍ og hef setið bæði ASÍ og LÍV þing fyrir hönd VR. Jafnframt hef ég setið í stjórn Samfylkingarfélagsins í Hafnarfirði, verið í vefhóp SKÝ, stjórnarmaður í SVEF og er stoltur af því að styðja við bakið á starfi Amnesty International á Íslandi.


Áherslur

Ég vil tryggja réttindi launafólks í þeim miklu breytingum sem nú eru að verða á vinnumarkaði og launafólk móti sína framtíð. Aukið atvinnulýðræði og áhersla á tækifæri til endurmenntunar eru hluti af mínum áherslum. Að allir félagar í VR geti tekist á við þessar breytingar í gegnum öflugt styrkjakerfi og valkosti til endurmenntunar þar sem ég hef lagt á það áherslu í menntanefnd að auk formlegrar menntunar sé horft til færni og reynslu. Í starfi mínu hef ég alltaf lagt á það áherslu að VR sé félag sem gæti hagsmuna allra félagsmanna og leggi ríka áherslu á jafnrétti í víðum skilningi þess orðs. Að við séum félag sem sé víðsýnt, lýðræðislegt og sterkt breytingaafl. Að við stöndum vörð um lífeyrisréttindi okkar og berjumst fyrir afnámi þeirra skerðinga sem stjórnvöld hafa staðið fyrir árum saman. Ég óska eftir þínum stuðningi til þess að tryggja framgang þessara verkefna.


Líklega eru ófáir okkar félaga sem hafa orðið fyrir breytingum undanfarið ári á meðan við höfum tekist á við Covid 19 og sumar þeirra hafa verið afar neikvæðar. Ég tel að þarna séum við að upplifa breytingar sem við sáum fyrir, en þær eru að gerasts mun hraðar en við höfðum gert ráð fyrir. Stór hópur okkar félagsmanna hefur undanfarið ár þurft að ganga í gegnum atvinnumissi og þar hef ég beitt mér af krafti til þess að tryggja að þetta áfall, sem sannarlega kom til vegna aðstæðana sem við réðum ekki við, verði sem minnst og VR hefur sannarlega aukið sína þjónustu til þeirra sem lent hafa í áföllum vegna þess. Auk þess sem við þurfum alltaf og ævinlega að standa vörð um bæði réttindi og heilsu okkar félaga, sérstaklega við þær aðstæður sem fylgja heimsfaraldri.

Ég vil jafnframt minna á mikilvægi þess að VR sé öflugur talsmaður allra sinna félaga. Af því tilefni hef ég vakið á því athygli að íslenskur vinnumarkaður er vettvangur fólks sem ekki á uppruna sinn á Íslandi en hefur fært okkur þá gjöf að flytja hingað færni sína og þekkingu. Við verðum að tryggja að þessi hópur njóti alltaf og ævinlega allra þeirra réttinda sem við höfum barist fyrir og að grunn stefinu í baráttu okkar – virðing og réttlæti – sé haldið á lofti. Ég hef því í starfi mínu í stjórn og nefndum gætt sérstaklega að réttindum þess fólks sem hingað flytur nú þekkingu og reynslu erlendis frá og tel að það sé hlutverk VR að gæta stöðugt að því hvort hér þrífist kerfislæg mismunun viðkvæmra hópa og beita sér fyrir því að hún sé upprætt.

Við hér á landi eigum því láni að fagna að samtök launafólks eru bæði fjölmenn og öflug. Það er ekki sjálfgefið og dæmin frá þeim löndum þar sem samtök launafólks hafa mun minna vægi og áhrif eru víti til varnaðar. Umræðu hér er oft stýrt með þeim hætti að sjónarmið samtaka launafólks eru gerð tortryggileg og því jafnvel haldið fram að þau stangist á við einhver lögmál hagfræðivísinda sem teljist jafn óumdeild og þyngdaraflið. Því fer þó raunar fjarri að þær hugmyndir sem atvinnurekendur leggja áherslu á séu einhver náttúrulögmál og því legg ég á það áherslu að samtök launafólks taki virkan þátt í að móta samfélagsumræðuna í gegnum allar þær leiðir sem færar eru. Því sannarlega hafa atvinnurekendur komið sér upp margvíslegum aðferðum til þess að stýra umræðunni sér í hag.


Einkaneysla íslensks launafólks bjargaði málunum þegar Covid gekk í garð og það kom berlega í ljós að með því að auka tekjur þeirra lægst launuðu, þá óx og dafnaði hagkerfið. Það eru líka skattar þessa sama launafólks sem standa undir þeim gríðarlegu styrkjum sem farið hafa til fyrirtækja í heimsfaraldrinum. Raunar má segja að heimsfaraldurinn hafi endanlega jarðað þá hugmynd að best væri að treyst á hinn frjálsa markað, því inngrip hins opinbera hafa verið margvísleg, en þó virðist mun minna eiga að fara til launafólks en fyrirtækja sem ég tel vera kolranga áherslu og mun áfram leggja áherslu að verði breytt. Við verðum að standa vörð um þá sem lent hafa í atvinnumissi vegna heimsfaraldurs og VR þarf að vera þar í fararbroddi.

Markmið okkar hlýtur að vera að tryggja að sú kaupmáttaraukning sem unnist hefur haldi sér. En á sama tíma er það skýr krafa okkar að ríki og sveitarfélög komi með myndarlegum hætti að því verkefni að bæta kaupmátt þeirra sem minnst hafa milli handa. Það gerist með breytingum á sköttum (hækkun skattleysismarka og afnámi skerðinga á lífeyrissjóðsgreiðslur), sameiginlegu átaki í húsnæðismálum þar sem ráðist verði í mikla uppbyggingu á húsnæði sem henti þeim sem eru með lágar og milli tekjur og að öllum þeim félögum okkar sem búa við skertar atvinnutekjur vegna heimsfaraldursins og afleiðinga hans séu tryggð mannsæmandi framfærsla og tækifæri til starfa. Þarna á VR mikil tækifæri og að þeim vil ég vinna fyrir þína hönd.