Sigríður (Sirrý) Hallgrímsdóttir

Fæðingardagur og -ár
15. janúar 1971

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
Ég hef oftast kosið að vinna í nýsköpunarumhverfi og hjá tæknifyrirtækjum sem eru að ryðja nýjar brautir. Í dag starfa ég sem verkefnastjóri hjá Netgíró hf. fyrirtæki sem er leiðandi í fjártækni með það að markmiði að bæta fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga. Ég lærði viðskiptafræði og MBA við Háskólann í Reykjavík. Ég hef víðtæka reynslu á alþjóðlegum vinnumarkaði í hugbúnaðarþróun, stjórnun, rekstri og starfsmannahaldi og hef tekist á við mörg krefjandi verkefni við ólíkar aðstæður.

Netfang: sirryhal@gmail.com


Reynsla af félagsstörfum

Ég hef nánast alla mína starfstíð verið félagsmaður í VR. Einnig hef ég tekið virkan þátt í ýmsum félagsstörfum. Ég sat í stjórn félags viðskipta- og hagfræðinga, var stjórnarformaður Íslenska dansflokksins, sat í fagráði lista og skapandi greina, JA – junior achivement, háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Hef einnig gengt ýmsum trúnaðarstörfum á pólitískum vettvangi.

Ég starfaði sem aðstoðamaður mennta- og menningarmálaráðherra og í þeim störfum öðlaðist ég innsýn og þekkingu á menntakerfi þjóðarinnar.


Helstu áherslur 

Örar tæknibreytingar hafa átt sér stað á vinnumarkaðnum á síðustu árum og líklegt er að það leiði af sér talsverðar breytingar á starfsumhverfi og störfum framtíðarinnar. Þessar breytingar fela ekki bara í sér áskoranir heldur einnig fjölmörg tækifæri ef vel er stutt við bakið á þeim hópi sem verður fyrir mestum áhrifum af þessum breytingum. Samkvæmt spám um möguleg áhrif sjálfvirknivæðingar er talið líklegt að tæplega 60% starfa taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tæknibreytinga.

Það er því mikilvægt að vinnumarkaðurinn undirbúi og styðji við starfsfólk í að sækja sér viðeigandi endurmenntun sem nýtist fólki til að aðlagast þessum miklu breytingum. Stéttarfélagið okkar getur gegnt lykilhlutverki við þessa umbreytingu. Aukin þjónusta við félagsmenn með áherslu á fræðslu og endurmenntun, aukinn sveigjanleiki í starfsumhverfi og aðstoð við atvinnurekendur til að styðja við bakið á starfsfólki getur skipt sköpum. Yfirfærsla á þekkingu er mikilvægur þáttur í því að nálgast tæknibreytingar og við þurfum að tryggja sem best að ólíkir hópar eigi góða möguleika á því að aðlaga sig þessum breytingum. Með því stuðlum við að því að tæknin nýtist okkur öllum ekki bara fáum.

Aukin framleiðni vegna tækniframfara getur skilað miklum ábata og nauðsynlegt að við tryggjum að okkar félagsmenn standi sterkt að vígi þegar kemur að því að skipta þeim efnahagslega ávinningi sem tækniþróunin hefur í för með sér .