Sigurður Sigfússon

Fæðingardagur og -ár
1. maí 1948

Félagssvæði
Kópavogur og nágrenni

Vinnustaður, starf og menntun
Stundaði nám við Samvinnuskólann í Bifröst og framhaldsnám við Norska Samvinnuskólann. Setið mikið af námskeiðum á löngum ferli, m.a. í stjórnun, ljósmyndun og myndvinnslu.

Gjaldkeri hjá Dalvíkurbæ 1969 en starfaði síðan fyrir Samvinnuhreyfinguna frá 1970 m.a. sem verslunarráðunautur og útibússtjóri KÁ á Laugarvatni, stofnandi og verslunarstjóri starfsmannaverslunar Sambandsins, kennari við Samvinnuskólann á Bifröst en ráðinn til Olíufélagsins hf. ESSO/N1 árið 1983. Hef starfað þar síðan sem rekstrarstjóri bensínstöðva, svæðisstjóri, þjónustustjóri og markaðssérfræðingur en síðustu árin í starfi fyrir Starfsmannafélag N1 og Festival starfsmannafélag. Einnig í vinnu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Netfang: siggi@n1.is 

Horfa á kynningarmyndband hér. 


Reynsla af félagsstörfum

Formaður Starfsmannafélags ESSO frá 2000 - 2004. Í stjórn og síðar formaður Deildar Samvinnustarfsmanna í VR. Tók ég sæti í stjórn VR þegar deildin var lögð niður 1996, fyrst sem varamaður, en aðalmaður í stjórn frá 2000. Í stjórn Samvinnulífeyrissjóðsins/Stafa lífeyrissjóðs um árabil. Hef verið formaður sjúkrasjóðs VR. Er í stjórn öldunagaráðs VR, í stjórn Samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem starfar á vegum Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, í stjórn Öldrunarráðs Íslands og í stjórn Eirar hjúkrunarheimilis. Einnig í stjórn Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks, laganefnd VR og styrkjanefnd VR.
Formaður stjórnar orlofssjóðs VR frá 2012 til 2021 og í störfum mínum fyrir VR hef ég helst beitt mér á þeim vettvangi undanfarin ár.


Helstu áherslur

Orlofssjóður VR. Orlofshúsum og íbúðum orlofssjóðs hefur fjölgað um rúmlega helming á undaförnum árum úr 40 í 85 eignir. Alls verða rúmlega 100 hús/íbúðir í útleigu til félagsmanna í sumar. Auk þess er komið frábært tjaldsvæði í Miðhúsaskógi, stórbætt aðstaða fyrir umsjónarmanninn þar og ný vélaskemma. Ein ástæða fyrir því að ég býð mig aftur fram til stjórnarsetu fyrir VR er að mig langar að bjóða mig aftur fram til formennsku í Orlofssjóði, til að halda þessari mögnuðu uppbyggingu áfram og svo til að ljúka við að koma bundnu slitlagi á veginn upp í orlofshúsasvæðið í Miðhúsaskógi, en það er búið að vera á stefnuskrá VR í mörg ár og eitt af mínum baráttumálum, þó hægt gangi!

Í kjaramálum mun ég áfram standa vörð um þá stefnu að koma á stöðugleika á Íslandi og um leið að tryggja kaupmátt þeirra launa sem við fáum greidd. Ég mun standa vörð um nýjan kjarasamning VR. Hafinn er undirbúningur að næsta kjarasamningi þar sem fjarvinna verður eitt af stóru málum. Hækkun á perónuafslættinum kemur okkur öllum til góða og launamun kynjanna verður að útrýma en umfram allt þarf að tryggja kaupmátt þeirra launa sem við fáum útborguð.
Jafnlaunavottunin er mikilvægt tæki í baráttunni fyrir launajöfnuði kynjanna og jafnrétti.
Afnám skerðinga elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris almannatrygginga vegna atvinnutekna er líka forgangsatriði.

Gera þarf breytingar á Varasjóði VR með það að markmiði að hann þjóni betur þeim félagsmönnum sem eru á lægstu laununum. Ég hef beitt mér fyrir úrbótum á þessu sviði og mun halda því áfram.

VR veitir félagsmönnum sínum mikla og góða þjónustu og er ég stoltur af störfum mínum fyrir félagið á undanfönum árum og óska eftir umboði til að halda því starfi áfram.