Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir

Fæðingadagur og -ár
8. október 1969

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
Ég starfa hjá fjölmiðlafyrirtækinu Sýn hf. sem deildarstjóri auglýsingardeildar. Ég hef unnið við fjölmiðla í 31 ár eða allt frá árinu 1990 við dagskrárgerð í útvarpi, sölu auglýsinga og nú sem deildarstjóri á auglýsingardeild. Ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands með B.ed gráðu árið 1999, árið 2009 lauk ég diplomagráðu í Mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og vorið 2016 útskrifaðist ég frá Promennt úr sölu- og markaðsfræði.

Netfang: svansi1969@gmail.com
Facebook: Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir (Svansí)
Instagram: Svanhth


Reynsla af félagsstörfum

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á félagsmálum og setið í mörgum nefndum í gegnum tíðina. Ég var t.d. forseti starfsmannafélags 365 miðla í um áratug auk þess sem ég gegndi starfi trúnaðarmanns á sama vinnustað til margra ára. Í gegnum starf mitt sem forseti starfsmannafélagsins vann ég náið með starfsfólki og stjórnendum félagsins og var sá tími mér bæði reynslumikill og dýrmætur. Ég hef setið í stjórn VR nokkur tímabil eða frá árunum 2014-2018 og 2019-2021, síðasta tímabil sem ritari stjórnar. Í stjórnartíð minni hef ég starfað í ýmsum nefndum en í dag sit ég m.a. í jafnréttisnefnd, launanefnd og sem formaður í framkvæmdastjórn sjúkrasjóðs VR. Frá árinu 2017 hef ég setið í stjórn Landssambands íslenskra verslunarmanna fyrir VR.


Helstu áherslur

Þau ár sem ég hef setið í stjórn VR hafa verið mér lærdómsrík og ánægjuleg. Það er áríðandi að upplýsa VR félaga um réttindi sín og efla þannig þátttöku þeirra í félaginu. Jafnréttis og mannréttindamál eru mér einkar hugfangin. Við þurfum m.a. að vinna markvisst að því að útrýma launamun kynjanna, þar má ekki láta deigan síga. Það þarf að standa vörð um að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kyns, kynþáttar eða þjóðernis, kynhneigðar, aldurs, trúar eða annarra þátta.

Við þurfum að efla samfélagslega ábyrgð atvinnulífsins hvað varðar umhverfismál, en ég tel brýnt að fyrirtæki hafi skýra stefnu þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif frá þeirri starfsemi sem við er höfð. Ég styð jafnframt 10 grundvallarviðmið Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð sem snýr að velferð samfélags- og umhverfis, mannréttindum, vinnumarkaðsmálum og baráttu gegn spillingu. Brýnt er að fyrirtæki þrói með sér heildræna stefnu hvað samfélagslega ábyrgð varðar, með hin 10 grundvallarmarkmið Global Compact sáttmálans að leiðarljósi.

Ég tel mikilvægt að hvetja félagsmenn að nýta starfsmenntunarsjóðinn sinn og þau fjölmörgu námskeið og fyrirlestra sem VR býður upp á. Menntun er máttur, eykur þróun og nýsköpun og býr til tækifæri og starfsmöguleika. Brýnt er að atvinnurekendur stuðli að því að efla stafsmenntun í landinu og starfsmenn sjái það í formi hærri launa og stöðuhækkunar.

Samið var um styttingu vinnuvikunnar í síðustu kjarasamningum og er þýðingarmikið að halda þeirri vinnu áfram svo félagsmenn geti náð betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Þegar aldurinn færist yfir sitja ekki allir við sama borð er varðar heilsu og þrek og þarfir okkar eru misjafnar. Með hækkandi lífaldri þarf að huga að sveigjanlegri starfslokum fyrir þá sem vilja og geta haldið áfram að sinna vinnu. Einnig er mikilvægt að starfsfólk eigi kost á að minnka starfshlutfall hægt og bítandi til að venja sig við nýja tilveru og hlutverk því það er erfitt fyrir marga að segja skilið við vinnustaðinn sinn.

Til að gera gott félag enn betra þarf að hlusta á rödd félagsmannsins, virða skoðanir hans og óskir. Það er mikilvægt að í stjórn stærsta stéttarfélags landsins sitji heiðarlegur og sanngjarn talsmaður félagsmanna. Þitt atkvæði skiptir máli.