Átt þú erindi í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna?

VR auglýsir eftir stjórnarmönnum í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna kjörtímabilið 2019 - 2023. 

Áhugasamir geta gefið kost á sér með því að senda inn kynningarbréf með rökstuðningi, starfsferilsskrá og drengskaparyfirlýsingu sem finna má hér neðar á síðunni, á skrifstofu VR fyrir kl. 12:00 á hádegi mánudaginn 2. september 2019, merkt „Umsókn LIVE“, eða á umsokn@vr.is.

Val á stjórnarmönnum VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna

VR auglýsir eftir fjórum stjórnarmönnum í Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Uppstillinganefnd gerir tillögu til fulltrúaráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna um einstaklinga til setu í stjórn sjóðsins. Nú er leitað eftir fjórum aðalmönnum og einum varamanni.

Umsóknarferli

VR auglýsir eftir umsóknum um sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Auglýsa skal á vef félagsins og helstu auglýsingamiðlum. Umsóknarfrestur skal vera tvær vikur. Skrifstofa VR tekur við umsóknum fyrir hönd uppstillinganefndar VR. 

Hæfniskröfur og tilnefningar

Um hæfi fer samkvæmt. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Eins þurfa stjórnarmenn að vera fjárhagslega sjálfstæðir sbr. 9. gr. reglna FME nr. 180/2013. Stjórnarmenn þurfa að búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu skv. 6. gr. reglna FME nr. 180/2013. Auk þess þurfa stjórnarmenn að gangast undir munnlegt hæfismat hjá FME sbr. 16. gr. reglna FME nr. 180/2013.

Umsækjendur skulu vera launamenn og mega ekki vera sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga VR. Gerð er krafa um að þeir greiði skyldubundið iðgjald til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og er æskilegt að umsækjendur séu félagsmenn í VR.

Með umsókn skal fylgja starfsferilsskrá og kynningarbréf þar sem umsókn er rökstudd sem og önnur gögn sem uppstillinganefnd ákveður hverju sinni.

Við mat á hæfi umsækjenda skal líta til reynslu og þekkingar, m.a. á lífeyrismálum, kjarasamningum, stjórnun, áætlanagerð, reikningshaldi, lögfræði og fjármálamörkuðum.

Uppstillinganefnd skal hafa það að markmiði að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á hverjum tíma sé þannig samsett að hún búi yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu sem nýtist sjóðnum við stefnumótun og eftirlit í því umhverfi sem hann starfar.

Val á stjórnarmönnum

Fulltrúaráð VR skipar fjóra stjórnarmenn í Lífeyrissjóð verzlunarmanna og einn til vara. Kjörtímabil stjórnarmanna er fjögur ár. Annað hvert ár skal kjósa tvo stjórnarmenn til fjögurra ára. Varamaður er kosinn til tveggja ára í senn. 

Kynjaskipting innan stjórnar lífeyrissjóða skal vera þannig að hvort kyn skal eiga að lágmarki 40% fulltrúa í stjórn skv. 4. mgr. 29. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Tillaga uppstillinganefndar skal vera þannig að kynjaskipting sé jöfn meðal aðalmanna.

Uppstillinganefnd leggur fram tillögu til fulltrúaráðs VR um fjóra aðalmenn og einn til vara. Kosning skal fara þannig fram að kosið skal um hvern og einn, sem gerð er tillaga um, í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Ef einhverri af tillögum uppstillinganefndar er hafnað af fulltrúaráði skal uppstillinganefnd vera tilbúin með nöfn umsækjenda sem hægt er að kjósa um á sama fundi. Tillögur þessar þurfa að fela í sér að kynjaskipting verði jöfn meðal aðalmanna.

Hámarkstími stjórnarsetu

Stjórnarmaður skal sitja að hámarki í átta ár samfellt sem aðalmaður í stjórn lífeyrissjóðs á samningssviði SA og ASÍ. Stjórnarmaður má ekki taka sæti í stjórn sem aðalmaður lífeyrissjóðs á samningssviði ASÍ og SA á ný fyrr en að þremur árum liðnum.

Vakin er athygli umsækjenda á persónuverndaryfirlýsingu VR. 
Innsendum gögnum umsækjenda verður eytt að 6 mánuðum liðnum.

Eyðublað og reglur