Niðurstöður könnunar

Fleiri félagsmenn finna fyrir streitu

Í árlegri launakönnun félagsins árið 2013 og árið 2018 voru spurningar lagðar fyrir svarendur um álag og streitu. Niðurstöðurnar benda til þess að fleiri félagsmenn finni nú fyrir einkennum streitu en fyrir fimm árum. Nokkur munur er á kynjunum þegar kemur að álagi og streitu.

11% félagsmanna finna oft fyrir streitu

Í könnun VR voru fjölmargar spurningar um líðan, álag og streitu lagðar fyrir svarendur (sjá spurningarnar hér) Samantekt á þeim spurningum sem snúa að streitu sýna að fleiri finna nú fyrir streitueinkennum en árið 2013, 11% svarenda segjast finna mjög oft fyrir streitueinkennum (a.m.k. þremur af þeim fjórum sem koma fram hér að neðan) samanborið við 8% svarenda árið 2013. Spurningarnar sem liggja að baki mælingunni eru fjórar talsins og byggja á því hversu oft félagsmaðurinn upplifir áhyggjur eða þreytu og eru niðurstöðurnar teknar saman í eina heild. Spurningarnar eru:

Kemur það oft eða sjaldan fyrir eftir að vinnudegi lýkur að ...

  • ... þú eigir erfitt með að hætta að hugsa um vinnuna þannig að það hafi neikvæð áhrif á frítíma þinn eða einkalíf?
  • ... þú hafir áhyggur af því að upp komi vandamál í vinnunni sem þú getur ekki leyst?
  • ... þig langi ekki í vinnuna næsta dag?
  • ... þú sért svo þreytt/ur að þú eigir erfitt með að gera nokkurn skapaðan hlut?

Einn af hverjum fjórum er of þreyttur

Ein af spurningum um streitu snýr að þreytu eftir vinnudag og var spurt hvort viðkomandi væri oft eða sjaldan of þreyttur eftir að vinnudegi lyki til að gera eitthvað. Niðurstöðurnar eru sláandi, eins og sjá má á myndinni sem sýnir einnig samanburð milli áranna 2013 og 2018.

Fjórir af hverjum tíu með álagseinkenni

Í könnun VR voru einnig spurningar sem varða álag og álagseinkenni. Færri svarendur segja nú en árið 2013 að álag í vinnu hafi aukist milli ára – 54% í ár á móti 57% fyrir fimm árum. En það vekur athygli að nær fjórir af hverjum tíu svarendum í könnuninni segjast hafa fundið fyrir álagseinkennum síðustu mánuði – að minnsta kosti einu af þeim einkennum sem spurt var um. Um 13% sögðust hafa fundið fyrir að minnsta kosti þremur af þeim einkennum sem spurt var um og 7% höfðu fundið fyrir að minnsta kosti sex af þeim átta einkennum sem tiltekin voru.

Eins og með streitueinkenni hér að framan liggja margar spurningar að baki niðurstöðu um álagseinkenni og snúa að því hversu oft félagsmaðurinn hafi upplifað tiltekin einkenni. Niðurstöðurnar eru svo teknar saman í eina heild. Spurningarnar eru:

Hve oft á síðastliðnum sex mánuðum hefur þú upplifað eftirfarandi:

  • Mikla þreytu, án sýnilegrar ástæðu
  • Svefnleysi
  • Einbeitingarskort
  • Erfiðleika með að koma þér að verki
  • Minnisleysi
  • Pirring
  • Verið taugaóstyrk/ur
  • Þungar áhyggjur

Konur finna oftar fyrir streitu og álagi

Þegar staðan er skoðuð eftir kyni sést að heilt yfir finna marktækt fleiri konur en karlar fyrir streitu og álagi þó það eigi ekki við um öll atriði sem spurt var um. Alls sögðust 12% kvenna meðal svarenda finna oft (mjög oft og frekar oft) fyrir streitueinkennum en 10% karla.

Eins og með streitu finna konur frekar fyrir álagseinkennum en karlar og er munurinn sláandi í nokkrum tilfellum. Ein af hverjum tíu konum sem svara könnuninni finnur nær daglega fyrir mikilli þreytu án sýnilegrar ástæðu en 6% karla. Þá finna 23% kvenna sem svara fyrir mikilli þreytu a.m.k. tvisvar í viku en 15% karla í svarendahópnum. 

Um könnun VR

Könnun VR á líðan, streitu og álagi árið 2018 var gerð í febrúar og mars og var liður í árlegri launakönnun VR. Allir fullgildir félagsmenn VR fengu senda könnun. Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu niðurstaðna. Að baki niðurstöðum í spurningum um streitu og álag voru um átta þúsund svör.