Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
IMG_0668.JPG

Almennar fréttir - 02.07.2018

Styðja kjarabaráttu ljósmæðra heilshugar

Formenn VR og Eflingar, Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir, áttu góðan fund með ljósmæðrum í morgun, þann 2. júlí 2018. Nú um mánaðarmótin tóku í gildi uppsagnir tólf ljósmæðra og yfirvinnubann tekur gildi um miðjan júlí ef ekki hefur verið samið fyrir þann tíma.

Ljósmæður gerðu formönnunum grein fyrir þeirri grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjarabaráttu þeirra og lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðu mála. Á fundinum voru einnig ræddar mögulegar leiðir ólíkra stétta til þess að vinna saman og mikilvægi þess að standa saman.

Ragnar Þór sagði eftir fundinn að það væri dapurlegt að heyra hversu miklum hroka og yfirlæti ljósmæður mæta af hálfu stjórnvalda. Þær fái skammir frá stjórnvöldum fyrir að krefjast mannsæmandi launa.

Formenn VR og Eflingar lýsa yfir fullum stuðningi við mikilvæga kjarabaráttu ljósmæðra og þakka þeim fyrir fundinn og þann innblástur sem þær veita með sínum baráttuanda og viljastyrk. Það er ljóst að veturinn framundan verður kaldur í garð launafólks af hálfu stjórnvalda. Þau virðast enn eina ferðina ætla launafólki á almennum og opinberum vinnumarkaði að bera meintan stöðugleika á herðum sér, með tilheyrandi hófsemi í kröfum. Á sama tíma standa ákvarðanir kjararáðs óhaggaðar, nokkuð sem sýnir fram á þá ótrúlegu hræsni sem mætir fólki á vinnumarkaði.

Lögð verður rík áhersla á að næstu kjarasamningar verði samstöðusamningar launafólks úr öllum stéttum.

Baráttukveðjur til ljósmæðra!

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.