Afþreyingar- og ferðaþjónustufyrirtæki

Um störf starfsfólks hjá afþreyingar- og ferðaþjónustufyrirtækjum gildir sérkjarasamningur. Á þessi samningur við um þau störf í ferðaþjónustu sem eru samsett þ.e. afgreiðslu- og þjónustustörf þar sem starfsfólk sinnir jafnt afgreiðslu, bókunum, símaþjónustu og sambærilegum verkefnum.

Störf sem falla undir samning þennan eru meðal annars afgreiðsla í hvalskoðunarfyrirtækjum, ferjum, bílaleigum, söfnum, leikhúsum, hópferðabifreiðum og sala á ferðum inni á hótelum.

  • Eftirfarandi launatafla sýnir m.a. lágmarkslaun starfsfólks hjá afþreyingar- og ferðaþjónustufyrirtækjum. Sjá hér.

  • Fullt starfshlutfall er 7 klst. og 10 mín. á dag (7,16), sem gerir 35 klst. og 50. mín. á viku (35,83), eða 155 klst. og 18 mín. á mánuði (155,3) í virkum vinnutíma þ.e. unninn tími án neysluhléa.

    Ef samningsbundnir kaffitímar eru teknir lengist vinnutíminn sem þeim nemur. Daglegur vinnutími er þá 7 klst. og 45 mín. á dag (7,75), sem gerir 38 klst. og 45 mín. í vikulegum vinnutíma (38,75), eða 167 klst. og 56 mín. á mánuði (167,94).

    • Dagvinnutímabil er frá kl. 7:00 til kl. 17:00 á virkum dögum.
    • Eftirvinnutaxta skal greiða fyrir vinnu sem unnin er utan dagvinnutímabilsins og fyrir vinnu á laugar- eða sunnudögum upp að fullri vinnuskyldu.
    • Næturvinnutaxta skal greiða fyrir alla vinnu sem unnin er frá miðnætti til kl. 07:00 upp að fullri vinnuskyldu í mánuði.
    • Yfirvinnutaxti er greiddur fyrir alla tíma sem unnir eru umfram fulla vinnuskyldu.
    • Stórhátíðartaxta skal greiða fyrir unna vinnu á stórhátíðardögum til viðbótar við föst og reglubundnum laun, ef ekki eru veitt vetrarfrí.

    Á öðrum frídögum en stórhátíðardögum er greidd eftirvinnu-, næturvinnu- eða yfirvinnulaun eftir því sem við á til viðbótar við föst og reglubundnum laun, ef ekki eru veitt vetrarfrí.

    Heimil frávik vegna vinnuskyldu á frídögum og stórhátíðardögum - Heimilt er að semja um í ráðningarsamningi að greiða starfskrafti 45% álag á dagvinnulaun á almennum frídögum og 90% álag á stórhátíðardögum. Starfskraftur skal þá ávinna sér vetrarfrí.

  • Starfsfólk í vaktavinnu með vinnuskyldu á skilgreindum frídögum og stórhátíðardögum sem falla á mánudag til föstudags vinna sér inn 12 vetrarfrídaga á ári (94,2 vinnuskyldustundir m.v. fullt starf). Upptalning á skilgreindum frídögum og stórhátíðardögum er hér að neðan. Það skiptir ekki máli hvort starfsfólk í vaktavinnu sé að störfum eða í vaktafríi á frí- og stórhátíðardögum, þau safna vetrarfrídögum.
    Rétturinn byggist á því að verið er að jafna vinnuár vaktavinnufólks við dagvinnufólk sem skilar vinnuviku sinni á dagvinnutímabili frá mánudegi til föstudags.

    Starfskraftur í hefðbundinni dagvinnu fær frí á skilgreindum frídögum og stórhátíðardögum en fær samt greidda dagvinnu fyrir þá daga, þó þeir séu ekki unnir. Starfskraftur sem vinnur vaktavinnu er með vinnuskyldu á þessum frídögum og fær því ekki frí, en á móti safnar hann vetrarfríi sem frídag til töku síðar, sem hann hefði annars fengið, ef hann hefði ekki verið í vaktavinnu.

    Ávinnsla vetrarfrídaga miðast við vinnu október til október hvert ár en þeir skulu teknir út á tímabilinu frá 1. október til 1. maí ár hvert. Rétt er að benda á að ávinnsla vetrarfrídaga er ekki einn dagur fyrir hvern unninn mánuð. En það er algengur misskilningur vegna þess að frídagarnir eru 12 og fjöldi mánaða í ári einnig. Hið rétta er að vetrarfrídagar ávinnast miðað við fjölda helgidaga í hverjum vinnumánuði, sem gerir 12 daga alls á ári. Þannig getur starfskraftur sem einungis vinnur þrjá mánuði t.d. apríl, maí og júní áunnið sér 7 vetrarfrídaga miðað við árið 2021 en annar starfskraftur sem vinnur í þrjá mánuði t.d. í september, október og nóvember ávinnur sér enga frídaga.

    Sé vinnustaðnum lokað á fyrrgreindum dögum eða frí veitt dregst samsvarandi dagafjöldi frá vetrarfrídögunum nema hjá starfskrafti sem á inni áunnið vaktafrí.

    Ef vetrarfrídagarnir hafa ekki verið nýttir við starfslok skal gera þá upp með hefðbundnum launum ásamt orlofi.

    Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar, þ.e. skírdagur, annar í páskum, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu og annar í jólum, auk sumardagsins fyrsta og 1. maí.

    Stórhátíðardagar eru nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, frídagur verslunarmanna, jóladagur og eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag.

  • Orlof starfsfólks hjá afþreytingar- og ferðaþjónustufyrirtækjum er það sama og í almenna kjarasamningnum þ.e. að lágmarki 24 orlofsdagar miðað við heilt orlofsár. Sjá allar nánari upplýsingar hér.

    Þar sem mikill fjöldi starfsfólks í afþreyingar – og ferðaþjónustufyrirtækjum starfar í vaktavinnu með vinnufyrirkomulag á borð við; 2-2-3 er hægt að auðvelda útreikning á utanumhaldi á nýttum orlofsdögum með því að telja einungis „sína“ vinnudaga. Þannig jafngildir 16,8 vaktir 24 daga orlof. Því þegar talað er um 24 daga orlof er verið að tala um virka daga.

    • 24 daga orlofsréttur er sambærilegur og 16,8 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
    • 25 daga orlofsréttur er sambærilegur og 17,5 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
    • 27 daga orlofsréttur er sambærilegur og 18,9 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
    • 28 daga orlofsréttur er sambærilegur og 19,6 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
    • 30 daga orlofsréttur er sambærilegur og 21 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.