Ragnar Þór Ingólfsson

Fæðingardagur og -ár
17. maí 1973.

Félagssvæði:
Reykjavík og nágrenni.

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
VR, formaður VR, Fjölbrautaskólinn Breiðholti. Ég hef eytt síðastliðnum 14 árum í að stúdera lífeyrissjóðakerfið og samspil þess við almannatryggingar ásamt því að kortleggja völd og spillingu í íslensku samfélagi með áherslu á tengslanet verkalýðshreyfingarinnar, stjórnmála, atvinnulífs og sérhagsmuna. Hef sótt fjölda námskeiða hér heima og erlendis á sviði sölu og innkaupastýringar með áherslu á tæknibreytingar í verslun og þjónustu. Sótt fjölda námskeiða og fyrirlestra á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar bæði hér heima og erlendis.

Netfang: ragnar@vr.is

Smelltu hér til að horfa á kynningarmyndband Ragnars Þórs


Reynsla af félagsstörfum

Starfaði í Erninum 1992–2016, fyrst með skóla en síðstu árin sem sölustjóri, var í stjórn VR frá 2009 til 2017 og Formaður VR frá 2017 til dagsins í dag. Er formaður Landssambands Verslunarmanna frá 2019, er stjórnarmaður í VIRK, á sæti í miðstjórn ASÍ og er þriðji varaforseti. Ég kom að stofnun Hagsmunasamtaka heimilanna árið 2009 og sat þar í stjórn. Hef setið í stjórnum sprotafyrirtækja og var í stjórn Rannsóknarseturs verslunarinnar. Ég sat í stjórn Borgarahreyfingarinnar þegar hún bauð fram til Alþingis, bauð mig fram með Dögun árið 2016, er einn af stofnendum í góðgerðarfélagsins Reykjavík Bacon festival, kom að stofnun Bjargs íbúðafélags og er varaformaður stjórnar. Ég hef gegnt fjölda trúnaðarstarfa fyrir VR og ASÍ síðustu 12 ár. Ég var í siðanefnd VR 2009 og tók virkan þátt í að koma kosningaréttinum til allra félagsmanna VR á sínum tíma. Sat í nemendaráðum Hólabrekkuskóla og Fjölbrautaskólans í Breiðholti og hef verið þáttakandi í fjölmörgum verkefnum sem tengjast góðgerðarmálum.


Helstu áherslur

Að víkka út kjarabaráttu VR enn frekar og halda áfram baráttunni fyrir öllu því sem styrkir stöðu okkar og eykur lífsgæði. Valdefling félagsmanna og aukinn kraftur í starfsmenntamál er svarið við fjórðu iðnbyltingunni með atvinnulýðræði og meiri áhrifum launafólks á vinnustaðnum og að sjóðfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóða og takmarka aðkomu atvinnurekenda að öllu leyti. Ég mun berjast fyrir öllu því sem áhrif hefur á lífskjör okkar frá degi til dags. Ég mun beita mér fyrir enn styttri vinnuviku, lækkun vaxta og beita mér sérstaklega í húsnæðismálum, mannsæmandi lánakjörum og samfélagslegum verkefnum sem bæta lífsgæði okkar og komandi kynslóða. Ég mun halda áfram að beita mér sérstaklega í málefnum þeirra sem misst hafa vinnu og þrýsta á aðgerðir sem tryggja afkomuöryggi þeirra. Ég mun berjast gegn öllum tilraunum til að veikja stöðu launafólks og samningsrétt okkar sem er ein stærsta áskorun verkalýðshreyfingarinnar framundan. Ég mun fyrst og síðast vera til staðar fyrir ykkur öll.


Stöndum saman

Ánægja félagsmanna VR mælist í hæstu hæðum. Okkur hefur tekist að auka tiltrú almennings á verkalýðshreyfinguna, sem skrapaði botninn í trausti í íslensku samfélagi. Það var ekki sjálfgefið að það tækist.

Kosningarnar munu lita stéttabaráttuna næstu árin. Viljum við áframhaldandi öfluga forystu og öfluga réttindabaráttu, sameinuð og sterk? Eða viljum við reka fleig á milli stétta og tekjuhópa og draga þannig úr samtakamætti heildarinnar? Samtakamætti sem hefur skilað okkur svo miklu í gegnum tíðina.

Viljum við feta aftur í spor Salek samkomulagsins sem byggir á norrænu módeli? Módeli sem hefur orsakað að félagsaðild á norðurlöndunum hefur verið í frjálsu falli síðustu ár? Módeli sem byggir á trausti sem er ekki til staðar í íslensku samfélagi?

VR er stærsta félagið. Okkur hefur tekist að sameina ólíka hagsmuni ólíkra hópa innan okkar raða. Við gerum það þannig að lýðræðið ræður för.

Í aðdraganda síðustu kjarasamninga tóku 3.600 félagsmenn þátt í að móta kröfugerðina, fleiri en nokkru sinni fyrr. Kröfugerð sem tók til ólíkra þátta og ólíkra hópa. Er ekki betri leið að kalla eftir umboði og skoðunum heildarinnar en að lofa tilteknum hópum einhverju sem tæplega er hægt að standa við?

Stefna félagsins er ekki einkamál formanns heldur vilji fjöldans. Niðurstaða sem samninganefndin fylgir svo eftir gagnvart viðsemjendum okkar. Allir geta tekið þátt sem vilja.

Félagsmenn VR eiga alltaf síðasta orðið.

Lækkun vaxta hefur skilað stórum hópum okkar félagsmanna gríðarlegum kjarabótum. Sem dæmi má nefna að lækkuð greiðslubyrði lána sem nemur um 70 til 80 þúsund krónum á mánuði jafngildir um 120 þúsund króna launahækkun. Til viðbótar við þær hækkanir sem kjarasamningurinn þó skilar. Þetta sannar mikilvægi þess að ráðast gegn auknum kostnaði við að lifa samhliða því að hækka laun eða bæta lífskjör með öðrum hætti.

Hvernig verður reikningnum fyrir Covid úrræði stjórnvalda skipt?

Á hvaða forsendum verður viðsnúningurinn og þær breytingar sem eru framundan vegna fjórðu iðnbyltingarinnar?

Raunveruleg valdefling félagsmanna okkar er lykilinn í þeirri vegferð.

Atvinnulýðræði: Við ætlum okkur að vera þáttakendur, en ekki áhorfendur, í þeim miklu breytingum sem nú eiga sér stað á vinnumarkaðnum.

Starfsmenntamálin: Við höfum nú þegar tekið forystu í starfsmenntamálum og komið á fót námi á framhaldsskóla- og háskólastigi fyrir verslunarfólk ásamt því að vinna að raunfærnimati svo eitthvað sé nefnt.


 

 

Lífeyrissjóðirnir: Sjóðfélagar eiga að kjósa stjórnir lífeyrissjóða og koma þannig ákvörðunarvaldinu til þeirra sem eiga sjóðina og taka markviss skref í að koma atvinnurekendum úr stjórnum þeirra.
Eftir breytingar á stjórn LIVE árið 2019 er niðurstaðan sú að tvö síðustu uppgjörsár hafa verið þau bestu í sögu sjóðsins. Það er staðreynd.

Húsnæðismálin: Það er ekki nóg að lækka vexti hjá þeim sem eiga húsnæði því við verðum líka að tryggja fólki á leigumarkaði sambærilegt framfærslu- og búsetuöryggi. VR hefur tekið forystu í þeim efnum og mun halda því áfram.

Jafnréttismálin og umhverfið: Ég mun tryggja að félagið verði áfram leiðandi í baráttunni fyrir jafnrétti og vinna gegn launamun kynjanna ásamt því að vera leiðandi stéttarfélag í umhverfismálum.

Eldri félagsmenn: Við höfum tekið slaginn víða og eitt af því sem ég er stoltastur af er að VR tók af skarið með Gráa hernum og tekur þátt í og kostar málsókn gegn ríkinu vegna skerðinga á ellilífeyri. Við munum halda áfram baráttunni fyrir bættum kjörum þeirra sem ruddu brautina.

Unga fólkið: Okkur tókst að vinna til baka fórnir, þegar unga fólkinu okkar 18 til 20 ára var fórnað á sínum tíma og fékk aðeins hlutfall af launum þeirra sem eldri voru. Þetta var leiðrétt í síðustu samningum. Ég tók einnig virkan þátt í að búa til hlutdeildarlánakerfið sem hjálpar ungu fólki og tekjulágum að komast inn á húsnæðismarkað.

Ég get lofað og lofað öllu fögru.

En ég lofa fyrst og fremst að gæta hagsmuna félagsmanna VR. Allra félagsmanna VR.

Ég lofa því að félagsmenn okkar fái áfram að móta stefnu félagsins og kröfur gagnvart stjórnvöldum og samtökum atvinnulífsins. Ég lofa að láta ekki undan þrýstingi sérhagsmuna eða pólitískra afla. Og ég lofa að standa í lappirnar og fórna mér fyrir félagsmenn VR í einu og öllu.

Stöndum saman fyrir hvort annað og stöndum saman fyrir komandi kynslóðir og látum ekki sundra okkur eða reka fleig í okkar raðir. Alveg sama í hvaða tekjuhópum við erum eða hvaða menntun við höfum þá erum við ekkert án hvors annars.

Skilum samfélaginu á betri stað en við tókum við því og sínum samtakamáttinn í verki.

Stöndum saman.