Vr Fanar Kringlan 2

Almennar fréttir - 07.03.2024

Leiðrétting vegna ummæla forstjóra Icelandair

Forstjóri Icelandair gagnrýndi í viðtali við fjölmiðla í gær, 6. mars 2024, að samninganefnd VR hafi ákveðið að efna til atkvæðagreiðslu um verkföll meðal félagsfólks VR sem starfar í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Sagði hann að einungis einn fundur hefði verið haldinn og þar hefði verið afhent kröfugerð og síðan ekkert meir.

Hið rétta er að kröfugerð vegna sérkjarasamnings var birt Samtökum atvinnulífsins, sem fara með samningsumboðið fyrir Icelandair, þann 29. nóvember 2022. Tæpu hálfu ári síðar, eða 8. maí 2023, funduðu SA og Icelandair með VR og fengust þar engin viðbrögð við kröfugerðinni. Næsti fundur var haldinn 2. febrúar 2024 og þá var kröfugerð VR endurbirt. Niðurstaða þess fundar var að Icelandair tók á nokkrum atriðum sem vörðuðu aðbúnað starfsfólks, sem er vel, en SA veitti lítil viðbrögð við meginkröfum VR um sérkjarasamninginn og ekkert hefur þokast áfram í viðræðum um hann.

Viðræðunefnd VR áréttar að starfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli starfar á lágmarkskjörum og nýtur ekki réttar til samfellds vinnutíma. Yfir vetrartímann eru þau þvinguð í skert starfshlutfall og gert að mæta til vinnu milli 5 og 9 að morgni og síðan aftur milli 13 og 17. Starfsfólkið og VR fyrir þeirra hönd hefur árum saman reynt að knýja á um leiðréttingu á þessu en ekki hefur verið orðið við sjálfsögðum kröfum þeirra.

Sérkjarasamningurinn við SA vegna starfa í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli er eitt af þeim atriðum sem standa út af í yfirstandandi kjaraviðræðum. Það hefur ekki staðið á VR að mæta til funda en síðastliðna þrettán daga hefur SA boðið VR til eins stutts fundar þar sem samtökin veittu engar upplýsingar um afstöðu þeirra til sérkjarasamningsins eða annarra atriða sem út af standa í kjaraviðræðum SA og VR.

Viðræðunefnd VR er ávallt tilbúin til samningaviðræðna og mætir lausnamiðuð til fundar í dag um kjarasamning milli VR og SA og þau atriði sem honum tengjast.

Viðræðunefnd VR