Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
eva_ruza-3.jpg

VR blaðið - 11.06.2018

Góðar sögur á elliheimilinu

Evu Ruzu þekkja flestir en hún er vinsæll skemmtikraftur og fylgjast um 10 þúsund manns með ævintýrum hennar á Snapchat. Eva hélt uppi stuðinu þann 1. maí sl. þegar VR stóð fyrir fjölskylduhlaupi og upphitun fyrir kröfugönguna.

„Þetta var svo ótrúlega vel heppnaður dagur og virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu með VR og þeim sem komu fram. Friðrik Dór og Páll Óskar eru náttúrulega ótrúlega góð blanda og það elska þá auðvitað allir, bæði börn og fullorðnir. Mér finnst alveg sérstaklega gaman að fá að skemmta krökkum, þau eru alltaf svo einlæg og til í allt. Ég vissi ekki alveg við hverju ég átti að búast, ég hef ekki tekið virkan þátt í hátíðarhöldum á þessum degi í gegnum tíðina og hef ekki farið í kröfugöngu, þó að ég vilji að sjálfsögðu að allir hafi jafnan rétt. En þetta var alveg ógeðslega gaman! Við vorum líka heppin með veður og ég var í raun hissa hvað það komu margir því það hafði verið haglél tíu mínútum áður en dagskráin átti að byrja en sem betur fer rættist úr veðrinu. Sjálf er ég búin að vera með stjörnur í augunum yfir Páli Óskari síðan ég var 13 ára og þegar ég fermdist var mamma alvarlega að spá í að fá hann til að koma og stökkva upp úr köku en þá var hann akkúrat á leiðinni að keppa í Eurovision og komst sem sagt ekki í ferminguna mína! Ég hef komið nokkrum sinnum fram þar sem hann er að skemmta og mér finnst alltaf jafn óraunverulegt að fá að kynna hann inn á svið, uppáhaldið mitt!

Það eru um þrjú ár síðan ég opnaði Snapchat reikninginn minn. Ég prófaði bara af því allir voru allt í einu komnir með þetta, alveg týpísk íslensk hjarðhegðun. Ég vissi ekki að það væri hægt að vera með læstan Snapchat reikning og ég kunni ekki einu sinni að eyða út úr Story eða neitt. Fólki hefur greinilega líkað vitleysan í mér því að ég er yfirleitt með svona 10 þúsund manns sem fylgjast með mér þarna inn á. Ég var kynnir í Color Run hlaupinu fyrstu tvö árin sem það var haldið hér á landi og fyrsta árið stóð ég á sviði fyrir framan 12.000 manns alveg í essinu mínu og brjálæðislega sátt við 60 fylgjendurna sem ég var komin með. Ég er á öllum þessum samfélagsmiðlum en persónulega finnst mér Snapchat skemmtilegasti miðillinn þó ég noti líka Instagram, en þangað set ég aðallega fréttir af fræga fólkinu frá Hollywood. Ég er líka að skrifa um Hollywood inn á krom.is og hef gert síðastliðinn tvö ár. Þegar ég gerðist pistlahöfundur hjá krom.is tók ég þá ákvörðun að skrifa bara um fræga fólkið og eingöngu þau þar sem áhugasvið mitt í bloggskrifum liggur þar og tóku eigendur krom.is þeim skrifum fagnandi.“

„Þú hringir aldrei í mig!“

„Mamma hringir stundum í mig og kvartar yfir því að ég nenni aldrei að tala við hana í símann á kvöldin. Ég bara: „Mamma, við vinnum saman allan liðlangan daginn og ég hringi í þig sirka 150 sinnum á dag!“ Mamma, Laufey K. Miljevic, á og rekur blómabúðina Ísblóm á Háaleitisbrautinni og hefur gert síðastliðinn 20 ár. Ég hef unnið hjá henni síðan ég var 16 ára, byrjaði að koma kannski tvisvar í viku eftir skóla en eftir að ég útskrifaðist úr Menntaskólanum í Kópavogi hef ég unnið þar í fullri vinnu. Ég hef aldrei hætt í blómabúðinni þó ég hafi gert ýmislegt með. Ég hef unnið sem flugfreyja og ég lærði líka einkaþjálfarann og vann við það í stuttan tíma og þó mér hafi fundist hvort tveggja mjög skemmtilegt þá kölluðu blómin samt alltaf á mig. Það eru líka algjör forréttindi að fá að vinna með mömmu og það er henni að þakka að ég get elt draumana því að skemmta fólki er það skemmtilegasta sem ég geri. Ef ég fæ spennandi verkefni kveður mamma mig bara með bros á vör og veit að ég kem aftur þegar því er lokið, alveg topp yfirmaður myndi ég segja! Þegar ég átti tvíburana mína árið 2009 þurfti ég reyndar að vera frá vinnu í blómabúðinni í tvö ár en það var vegna þess að þau fengu ekki systkinaafslátt hjá dagmömmunni, sem er reyndar efni í allt annað viðtal! Til að gera langa sögu stutta þá áttu tvíburarnir ekki að fá systkinaafslátt vegna þess að þetta var aðeins ein meðganga, svona eins og tíðkast yfirleitt með tvíbura! Að mínu mati geta systkini ekki orðið mikið skyldari en tvíburar en þarna voru einhverjar illa skrifaðar reglugerðir að verki og lítið virtist vera hægt að gera í málinu en systkinaafslátturinn vegur auðvitað ansi þungt þegar upphæðirnar eru orðnar þetta háar. Ég fékk þó þarna ómetanlegan tíma með börnunum og þegar ég lít til baka hefði ég auðvitað ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi.

Tvíburana, þau Marinu Mist og Stanko Blæ á ég með eiginmanni mínum, Sigurði Þór Þórssyni, en við Siggi erum búin að vera kærustupar í 18 ár og gift í 11. Ég er mjög vel gift þó ég segi sjálf frá en hann Siggi minn hvetur mig áfram í því sem ég er að gera og er alltaf tilbúinn þegar ég þarf að hendast út á land að skemmta. Ég var að skemmta á Siglufirði um daginn og ég hugsaði með mér: „Vá, veit fólk á Siglufirði hver ég er?“ Ég á það til að gleyma því að fólk geti þekkt mig út á götu. Mér finnst það alltaf mjög skrítin pæling. Ég tek því aldrei sem sjálfsögðum hlut að fá að koma fram og að fólk vilji fá mig til að skemmta og gef mig alltaf 150% í þá viðburði og skemmtanir sem ég tek að mér. Ég verð allavega með góðar sögur á elliheimilinu eftir allt þetta!“

Ítölsk stemmning í Kópavogi

„Pabbi minn, Stanko Miljevic, er frá Króatíu og flytur til Íslands þegar hann er 19 ára og kynnist mömmu nokkrum árum seinna. Pabbi hefur átt og rekið Svarta kaffið á Laugaveginum síðan árið 2003 en Tinna, yngri systir mín, og Siggi minn aðstoða hann í daglegum rekstri. Tinna sér um starfsmannamálin en Siggi sér um innkaup og pantanir. Ég er viss um að þegar pabbi sest í helgan stein þá á hann eftir að vera eins og grár köttur þarna hjá þeim, sitjandi út í horni að tékka hvort þau séu ekki örugglega að gera þetta allt rétt!

Við erum alveg ótrúlega samheldin fjölskylda og búum öll nánast á sama blettinum í vesturbæ Kópavogs. Við Tinna systir búum í sama húsi, ég er á neðri hæðinni og hún á efri. Elsta systir okkar, Debbý, er í næstu götu við hliðina á og mamma og pabbi eru neðar í götunni og búa ennþá á æskuheimili okkar systra en afi okkar byggði einmitt það hús. Það er svona ítalskur fílingur í þessu hjá okkur, það vantar bara veðrið til að sitja öll saman út á verönd! Það væru örugglega margir orðnir geðveikir en ég myndi aldrei vilja breyta þessu, við þekkjum ekkert annað.“

Viðtal birtist í 2. tölublaði VR blaðsins 2018