Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Utsynismyndir 6

Almennar fréttir - 28.04.2023

Áhyggjum af stöðu efnahagsmála lýst á þingi ASÍ

Stjórn VR lagði fram á þingi ASÍ ályktun um efnahags- og kjaramál þar sem þungum áhyggjum var lýst af stöðunni og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Ályktunin var samþykkt og er birt í heild hér að neðan.

„45. þing Alþýðusambands Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu efnahagsmála á Íslandi og aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. Ítrekaðar stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa ekki borið árangur til að takast á við verðbólguna en hafa hins vegar gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir vinnandi fólk sem býr við dýrtíð og hækkandi húsnæðiskostnað. Ríkisstjórnin hefur látið Seðlabankann einan um verðbólguna og í nýrri fjármálaáætlun er ekki að finna neinar aðgerðir til að koma til móts við hækkandi greiðslubyrði lána né að ráðast að verðbólgunni strax. Atvinnurekendur og opinberir aðilar, svo sem sveitarfélög og ríkisstofnanir, hafa hvergi gefið eftir í verð- og gjaldskrárhækkunum og fákeppni á sviði dagvöru, eldsneytis, trygginga og annarra nauðsynja leiðir til gróða fjármagnsaflanna á kostnað almennings.

Ástandið á húsnæðismarkaði er mjög alvarlegt. Leiga hefur snarhækkað, lántakendur verðtryggðra lána hafa enn á ný horft upp á lán sín vaxa og lántakendur óverðtryggðra lána þurft að greiða hærri vexti um hver mánaðamót. Á næstu mánuðum mun fjöldi fólks þurfa að fjármagna húsnæði sitt að nýju þegar tímabili fastra vaxta lýkur. Ef ekkert verður að gert er hætt við að afleiðingar geti orðið í líkingu við það sem átti sér stað í efnahagshruninu árið 2008. Ávinningur síðustu kjarasamninga er nánast uppurinn og setur, að óbreyttu, verkalýðshreyfinguna í þá stöðu að þurfa að krefjast gríðarlegra launahækkana til að mæta þeim miklu byrðum sem launafólki er gert að bera vegna ástandsins sem það stofnaði ekki til.

Þing ASÍ krefst þess að atvinnurekendur og stjórnvöld taki höndum saman við verkalýðshreyfinguna við komandi kjarasamninga til að finna leiðir út úr þessum ógöngum til hagsbóta fyrir launafólk og almenning. Þing ASÍ hafnar alfarið þeirri nálgun að láta launafólk, leigjendur og skuldara ein bera byrðarnar.

Stjórnvöld þurfa að sýna að þeim sé alvara í að taka á húsnæðisvanda þjóðarinnar. Seðlabankinn verður að bera ábyrgð á mistökum sínum og nota fleiri varúðartæki en stýrivexti eina til að lækka verðbólguna. Taka þarf verðlagstakmarkanir alvarlega til skoðunar og nýta skattkerfið til að velta byrðunum af baki þeirra sem ellegar munu sligast undan þeim og yfir á þá sem geta borið þær. Hér má nefna auðlindagjöld á útgerðina og bankaskatt. Aðgerðaleysi er ekki valkostur við þessar aðstæður.“