Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul

Almennar fréttir - 29.04.2010

Frá aðalfundi VR 2010

Á annað hundrað manns sátu aðalfundinn. Formaður VR, Kristinn Örn Jóhannesson, kynnti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2009 - 2010, fór yfir helstu niðurstöður reikninga og stiklaði á stóru í starfseminni. Erfiðleikar á vinnumarkaði settu mark sitt á starfsemi félagsins á árinu og var áhersla lögð á að bregðast við breyttum aðstæðum, m.a. með því að auka þjónustu við félagsmenn sem misstu atvinnuna. Félagið hefur hafið vinnu við endurskoðun laga félagsins og stefnumótun þess til framtíðar sem fjallað verður nánar um á framhaldsaðalfundi í september næstkomandi. Afkoma félagsins er góð þrátt fyrir þrengingar, sagði formaður VR í erindi sínu.

Góð afkoma

Helga Árnadóttir, forstöðumaður rekstrar- og fjármálasviðs, kynnti reikninga félagsins. Afkoma ársins 2009 var 341 milljón króna samanborið við 415 milljóna króna tap árið á undan. Hagnaður umfram áætlanir er rúmlega 250 milljónir króna. Tekjur drógust saman um 6% sem er að langmestu leyti tilkomið vegna minni iðgjalda en atvinnulausum félagsmönnum fjölgaði um 1.450 á árinu. Fjármunatekjur jukust umtalsvert, voru 396 milljónir króna og má rekja það til vaxtatekna og gengismunar af verðbréfaeign. Árið á undan var þessi liður neikvæður um 562 milljónir.

Rekstrargjöld jukust um tæplega 5% á milli ára sem rekja má að mestu til aukinna bóta- og styrkgreiðslna.  Ásókn í sjóði félagsins var mikil árið 2009, einkum á fyrri hluta árs. Bætur og styrkir jukust um rúmlega 11% eða 104 milljónir króna, mesta aukningin var í dagpeningagreiðslum úr Sjúkrasjóði, einkum vegna geðrænna vandamála og stoðkerfisvandamála. Þá var áhersla lögð á að bregðast við verulegri fjölgun atvinnulausra félagsmanna og voru 20 milljónir lagðar í verkefni  því tengdu á árinu.

Efnahagsreikningur VR fyrir árið 2009 endurspeglar varfærna fjárfestingastefnu félagsins en nafnávöxtun eigna var 6,13%. Að nafnvirði er verðbréfaeign VR nú sú sama og í upphafi árs 2008.

Samþykktar tillögur

Lögð var fram tillaga um 410 milljóna króna framlag í VR varasjóð og var hún samþykkt á fundinum. Lagt verður inn í sjóðinn á þriðjudag og verður hann uppfærður þá. Jafnframt var samþykkt óbreytt félagsgjald, 0,7% af launum. Tillaga sem gerði ráð fyrir 10% hækkun launa stjórnarmanna var felld en samþykkt var að halda launum stjórnarmanna óbreyttum á milli ára.

Á fundinum var samþykkt tillaga um að fresta umræðu um lagabreytingar en stjórn félagsins hefur ákveðið að taka lög VR til heildstæðrar endurskoðunar. Boðað verður til framhaldsaðalfundar í september.  Á þeim fundi  verða jafnframt teknar fyrir tillögur um breytingar á reglugerð Sjúkrasjóðs VR sem frestað var á fundinum í gærkvöldi.  

Stjórn og trúnaðarráð

Á fundinum var lýst kjöri stjórnar en þrír nýir stjórnarmenn tóku sæti í aðalstjórn í gær í kjölfar kosninga í félaginu í mars. Þá dró einn stjórnarmanna sig í hlé og tók fyrsti varamaður sæti hans. Að aðalfundinum loknum skipti stjórn með sér verkum og er Ásta Rut Jónasdóttir áfram varaformaður  og Jóhanna S. Rúnarsdóttir ritari. Að öðru leyti var skipun í ráð og nefndir frestað til fyrsta reglulega stjórnarfundar.

Á aðalfundinum var jafnframt lýst kjöri trúnaðarráðs.