Margir leiðsögumenn kjósa að starfa sem verktakar. Aðrir hafa engra kosta völ en þá er um að ræða svokallað þvingaða verktöku af hálfu atvinnurekanda/verkkaupa og leiðsögumenn fá ekki vinnu nema þeir taki hana að sér sem verktaki.
Ástæðan hjá mörgum atvinnurekendum/ferðaskipuleggjendum, sem þá eru skilgreindir sem verkkaupar, er sú að þannig halda þeir niðri kostnaði og skuldbinda sig ekki gagnvart starfsfólki.
Í janúar 2025 var haldið námskeið fyrir verktaka. Smellið hér til að sjá allar glærurnar með efninu sem farið var yfir á námskeiðinu.
-
Ábyrgð og áhætta fyrir leiðsögumann sem starfar sem verktaki getur verið mikil. Hér eru nokkur atriði sem verktaki þarf að þekkja og taka með í reikninginn:
- Er ekki tryggður af Ábyrgðasjóði launa
- Launakrafa nýtur ekki forgangs í þrotabúi
- Nýtur ekki veikindaréttar
- Nýtur ekki rétts til uppsagnarfrests
- Nýtur ekki orlofsréttar
- Getur þurft að fá aðstoð innheimtuaðila
- Getur orðið skaðabótaskyldur vegna vinnunnar
- Þarf að tryggja sig sjálfur
-
Verktaki þarf að tryggja sig sjálfur gagnvart eigin tjóni, tjóni við framkvæmd vinnu sem og tjóni/slysi hjá ferðamanni því hann getur borið ábyrgð í tjóni sem verður í ferð. Tryggingafélög gera tilboð í slíkar tryggingar og fer upphæð eftir áhættu og umfangi.
Margir verkkaupar fullyrða að verktaki sé tryggður því hann falli undir ábyrgðartyggingu verkkaupans. Í öllum slíkum tilfellum skal óska eftir staðfestingu þessa frá tryggingafélagi verkkaupa - því þú tryggir ekki eftir á.
Verði tjón á ökutæki vegna áreksturs þá virkjast ábyrgðartrygging bílsins. Leiðsögumaður þarf því ekki að tryggja sig vegna þess.
Rétt er að árétta að fara þarf yfir öll öryggisatriði með ferðafólki, t.d. að á Íslandi sé löbundið að farþegar noti öryggisbeltin í bílunum. Það er ekki lögbundið í öllum löndum.
-
Í samningaviðræðum Leiðsagnar við Samtök atvinnulífsins 2024 var samið um bókun er snertir gerviverktöku. Þar segir að verktakasamningum skuli ekki beita í stað ráðningar starfsmanna nema í þeim tilvikum þar sem starfið falli í meginatriðum að skilgreiningu Skattsins á vektakastarfsemi.
Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að fylgjast með því að félagsmenn þeirra hafi samningsákvæði þessi í heiðri og að vinnustaðaeftirlit taki einnig til eftirlits með gerviverktöku. Bókunin er hér í kjarasamningi Leiðsagnar (bls. 32).
Hvað snertir hugtakið gerviverktaka getur Skatturinn skorið úr um það í skattalegu tilliti hvort um launamann eða verktaka sé að ræða. Mörkin eru ekki alltaf skýr og því brýnt að kynna sér þetta vel. Sjá nánar á vef Skattsins.
-
Ótímabundið, tímabundið, ferða- og verkefnaráðið
Leiðsögumenn starfa ýmist í hefðbundnu vinnusambandi við atvinnurekanda í ótímabundinni eða leiðsögumenn. Í kjarasamningi Leiðsagnar (gr. 3.2.) er samið um réttarstöðu ferða- og verkefnaráðinna leiðsögumanna sem vert er að kynna sér
-
Í skattalegu tilliti eru þeir sem starfa sem verktakar bæði í hlutverki atvinnurekanda og starfsmanns.
Verktaki þarf því að standa skil á öllum launatengdum gjöldum og kostnaði sem atvinnureksturinn krefst. Verktaki þarf líka að þekkja hvað hann verður að taka með í reikninginn þegar hann semur um verktakagreiðslur svo kjör hans verði ekki verri en starfsmanns sem starfar samkvæmt kjarasamningi. Sum gjöld verður að greiða skv. lögum en önnur eru valkvæð. Að auki þarf verktaki að þekkja vel allan rekstrarkostnað við starfsemina, sem fer eftir umfangi rekstrarins.
Verktakar skulu (ættu í öllum tilfellum að) gera skriflegt samkomulag við verkkaupa. Á vef Vakans, vakinn.is er hægt að nálgast dæmi um verktakasamning sem aðilar geta nýtt sér. (Sjá kaflann Eyðublöð og leiðbeiningar vegna ráðningar starfsmanna.)
Umsýslu vegna verktakastarfsins, s.s. skil á öllum gögnum og reikningum, þarf verktaki að íhuga hvort hann sinni í eigin tíma og á eigin kostnað eða hvort hann geri ráð fyrir kostnaði vegna þessa í tilboði sínu til verkkaupa. Kaupi verktaki bókhaldsþjónustu er það kostnaður sem gera þarf ráð fyrir, sem og vegna endurskoðunar o.þ.h.Hafa þarf í huga annan kostnað sem af verktakastarfseminni hlýst, s.s. kaup á síma, tölvu og öðru sem reksturinn krefst.
Verktakar geta rekið sig á eigin kennitölu eða verið ehf lögaðilar.
Beinn kostnaður
Eftirtalið er dregið af launum starfsmanns og atvinnurekandi þarf að skila á viðeigandi staði. Verktaki þarf sjálfur að sjá um þetta:
- 1% gjald til stéttarfélags.
- 4% greitt í lífeyrissjóð.
- 2-4% vegna séreignarsparnaðar.
Tekjuskattur:
Verktaki þarf til viðbótar að greiða mótgjöld og önnur lögbundin gjöld í:
- 1,25% sjúkrasjóð.
- 0,25% endurmenntunarsjóð.
- 0,10% starfsendurhæfingarsjóð.
- 11,5% iðgjald til lífeyrissjóðs.
- 2% iðgjald til séreignarlífeyrissjóðs.
- 6,35% tryggingagjald.
Verktaki þarf að reikna inn í útselda vinnu sína a.m.k. lágmarksorlof, eins og segir í lögum fyrir launafólk:
- Lágmarksorlofsréttur er 10,17%.
- Orlof er 11,59% eftir 10 ára starfsreynslu eða 5 ár hjá sama fyrirtæki.
- Orlof er 13,04% eftir 15 ára starfsreynslu eða 10 ár hjá sama fyrirtæki, skv. kjarasamningi.
Verktaki þarf að taka taka með í reikninginn eftirtalið, sem samið hefur verið um fyrir launafólk. Þessi prósentutala gæti verið lægri ef grunnur launa er hærri:
- 103 kr. á tímann vegna desember- og orlofsuppbótar árið 2025.
- 4% vegna lögbundinna frídaga.
Óbeinn kostnaður
Óbeinn kostnaður getur verið breytilegur á milli aðila þar sem umfang rekstursins er mjög mismunandi en það helsta sem taka þarf með í reikninginn er eftirfarandi:
- 2,8% veikindaréttur – til að vera a.m.k. svipað settur með veikindi eins og reiknað er hjá launafólki í kjarasamningi (upplýsingar frá Hagstofu).
- Almenn ábyrgðatrygging vegna tjóns á öðrum sem þarf að deila niður á daga eða ferð. Upphæð fer eftir tryggingafjárhæð.
- Áhætta vegna eigin slysa.
- Skrifstofuaðstaða.
- Bókhald.
- Áhöld og tæki.
- Rekstur bifreiðar.
- 1.000 kr. slysatrygging launafólks á mán.
- Dagpeningar vegna útlagðs kostnaðar.
- Annar kostnaður.
-
Verktaka ber að reikna sér laun og að skrá sig á launagreiðendaskrá. Sérstakar reglur gilda um þau lágmarkslaun sem honum ber að reikna sér skv. Skattinum. Reglurnar eru gefnar út á hverju ári. Sjá nánar hér á vef Skattsins.
Lágmarksupphæð ársins 2025 er 632.000 kr. í flokki B9 og á við ef aðili hefur ekki verið verktaki áður og fyrir fyrsta árið. Eftir það er miðað við 866.000 kr.í flokki B5.
Upplýsingarnar hér voru fengnar frá Skattinum en sé eitthvað óljóst er bent á að hafa beint samband við Skattinn.
Flokkur B er fyrir almenna starfsemi verslunar og þjónustu og ef tegund starfs er ekki tilgreind í öðrum flokkum. Ferðaþjónusta fer öllu undir viðmiðunarflokk B.
Einstaklingur sem hefur ekki áður fengið verktakagreiðslur af neinu tagi fer í flokk B9. Hann færist í flokk B5 eftir 12 mánuði í starfi. Ef hann er tímabundið ráðinn, hættir og byrjar aftur, fer hann í flokk B5 við næstu skráningu.
Sömu viðmiðunarfjárhæðir gilda fyrir lögaðila nema þar er byrjað strax í viðmiðunarflokki B5. Síðan getur verið miðað við flokka B4, B3, B2 eða B1 eftir umfangi og fjölda starfsmanna á launum eða aðkeyptri þjónustu verktaka.
Virðisaukaskattur
- Fari árstekjur yfir 2.000.000 kr. á ári (2025) eru störf leiðsögumanna sem vinna sem verktakar virðisaukaskattskyld. Verktaki þarf þá að reikna virðisaukaskatt á tekjur umfram tvær milljónir:
- Ferðaleiðsögn ber 11% virðisaukaskatt
Leitað var til Skattsins varðandi hlutfall virðisaukaskatts fyrir leiðsögn og akstur, þ.e. fyriri ökuleiðsögumenn, og fékkst eftirfarandi svar:
Selji aðili fólksflutninga og þjónustu leiðsögumanns á sama tíma fellur hvor þjónustan fyrir sig í 11% skatthlutfall og þarf því ekki sundurliðun á reikningi.
Selji aðili á hinn bóginn samtímis akstursþjónustu, þ.e. þjónusta bifreiðastjóra án eigin bifreiðar sem fellur í 24% skatthlutfall virðisaukaskatts, og leiðsöguþjónustu, sem fellur í 11% skatthlutfall virðisaukaskatts, ber honum að sundurliða hvora þjónustuna fyrir sig á reikningi vilji hann halda leiðsöguþjónustunni í 11% skatthlutfalli. Komi engin sundurliðun fram á reikningnum ber aðilanum að leggja 24% virðisaukaskatt á alla þjónustuna.
Sjá nánar í gr. 2.4. í upplýsingabæklingi frá Skattinum um virðisaukaskatt í ferðaþjónustu. Nánar um almennar leiðbeiningar vegna virðisaukaskatts í upplýsingabækling Skattsins.
-
Reiknivél verður aðgengileg hér síðar. Með henni getur verktaki á auðveldan hátti stillt upp reiknuðu endurgjaldi á þann hátt að útseld vinna hans verði með þannig að ekki sé um lægri kjör að ræða en lágmarks umsamin laun leiðsögumanna.