Trúnaðarmenn

Trúnaðarmaður er tengiliður starfsfólks við VR og atvinnurekandann. Hlutverk hans er að vera til staðar fyrir samstarfsfólk, auðvelda samskipti við atvinnurekanda, miðla upplýsingum og hafa eftirlit með því að kjarasamningar séu haldnir á vinnustaðnum og lög ekki brotin á starfsfólki.

Hlutverk trúnaðarmanns er að þekkja leiðir til úrlausnar ágreiningsmála, kynna breytingar og nýjungar í vinnurétti og kjarasamningum, og hvetja félagsfólk til að leita sér upplýsinga. Allt félagsfólk á greiðan aðgang að upplýsingum um réttindi sín á vr.is og hjá þjónustuveri VR. Með virkri þátttöku getur trúnaðarmaðurinn haft umtalsverð áhrif á þróun félagsins og starfsemi.

Trúnaðarmaður nýtur verndar

Trúnaðarmanni má ekki segja upp vegna starfa hans sem trúnaðarmanns og hann gengur fyrir um vinnu þurfi atvinnurekandi að fækka starfsfólki.

Trúnaðarmaður eykur eigin þekkingu og færni

Trúnaðarmenn mega sækja ýmis námskeið VR á vinnutíma til að bæta við þekkingu sína og hæfni. Dagvinnulaun skerðast ekki meðan trúnaðarmaður situr námskeið á vegum VR. Það fer eftir kjarasamningum hversu marga daga starfskraftur á rétt á launuðu leyfi vegna námskeiða, en að lágmarki er rétturinn vika á ári.

Trúnaðarmaður er kjörinn fulltrúi

Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við VR, en trúnaðarmaðurinn fær staðfestingu á kjöri og umboð sitt frá félaginu. Allir vinnustaðir með fimm eða fleiri VR félaga mega kjósa trúnaðarmann og ef þeir eru fleiri en 50 má kjósa tvo.

Hafðu samband við þjónustuver VR í síma 510 1700 eða sendu tölvupóst á trunadarmenn@vr.is ef þú vilt koma á kosningu á þínum vinnustað.
Sjá nánari upplýsingar um kosningu trúnaðarmanna hér.

Hverjir geta orðið trúnaðarmenn?

Allt starfsfólk, sem er félagsfólk í VR, getur boðið sig fram í kosningu til trúnaðarmanns VR. Þrátt fyrir það er þó nauðsynlegt að hafa í huga skilgreiningu á hlutverki trúnaðarmannsins í landslögum. Í 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur segir að hlutverk trúnaðarmanns sé að „gæta þess, að gerðir vinnusamningar séu haldnir af atvinnurekanda og fulltrúum hans.“

Fulltrúar atvinnurekenda eru stjórnendur á vinnustað. Þeir eru trúnaðarmenn atvinnurekenda sem hafa skipað þá til að stjórna fyrir sína hönd. Það er því mikilvægt að hafa það í huga að á hverjum vinnustað eru annars vegar trúnaðarmenn starfsfólks og hins vegar trúnaðarmenn atvinnurekanda og mjög óheppilegt er því ef stjórnandi, sem er trúnaðarmaður atvinnurekandans sé svo í kjöri sem trúnaðarmaður stéttarfélagsins og almenns starfsfólks. Heppilegast er því ávallt að þau sem kosið er á milli, eða stungið upp á, komi aðeins úr röðum almenns starfsfólks en ekki frá „fulltrúum atvinnurekanda“.

Reglur VR um ferða- og dvalarkostnað trúnaðarráðs og trúnaðarmanna VR vegna funda og fræðslu

Trúnaðarráðs- og trúnaðarmenn sem sækja fundi og eða fræðslu á vegum VR og eru ekki búsettir á Reykjavíkursvæðinu, skulu fá greiddan ferða- og dvalarkostnað samkvæmt eftirfarandi reglum:

1. Panta skal flug í gegnum skrifstofu VR á því svæði sem viðkomandi býr, Egilsstöðum eða Vestmannaeyjum.

2. Þar sem ekki eru flugsamgöngur skulu greiðslur vera 60% af kílómetragjaldi (+vegatollar).

3. Í þeim tilvikum sem ekki er hægt að ferðast fram og til baka samdægurs, skal félagið sjá fyrir gistingu. Tilkynna ber félaginu með 4 daga fyrirvara ef gistingar er þörf.

Í þeim tilvikum sem ofanritaðar reglur ná ekki til, skal samið sérstaklega fyrirfram um greiðslur við skrifstofu VR.

Reglur þessar gilda frá og með febrúar 2017.

Fjallað er um trúnaðarmenn annarsvegar í lögum...

um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938
um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980
um hópuppsagnir nr. 63/2000
um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum
... og hins vegar í kjarasamningum.