Veikindaréttur

Ef starfskraftur veikist og getur ekki sótt vinnu skal hann tilkynna það yfirboðara sínum. Atvinnurekandi ákveður hvort læknisvottorðs skal krafist og greiðir hann þá fyrir það. Félagsfólk VR ávinnur sér veikindarétt sem hér segir:

  • Á fyrsta ári, tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð.
  • Eftir 1 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda, tveir mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Eftir 5 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda, fjórir mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Eftir 10 ár í starfi hjá sama atvinnurekanda, sex mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.

Flutningur áunnins veikindaréttar

Starfskraftur sem hefur áunnið sér réttindi til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta atvinnurekanda og skiptir um atvinnurekanda á rétt til launagreiðslna um eigi skemur en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum.

Áunnin réttindi

Þegar starfskraftur er endurráðinn innan eins árs haldast öll áunnin réttindi strax á fyrsta degi. Ef endurráðning á sér stað eftir meira en eitt ár en innan þriggja ára taka áunnin réttindi gildi eftir eins mánaðar starf. Starfskraftur sem unnið hefur eitt ár eða lengur samfellt hjá atvinnurekanda skal njóta sömu réttinda á ný eftir þriggja mánaða starf verði endurráðning eftir meira en þriggja ára starfshlé en þó innan fimm ára. 

Vinnuslys og atvinnusjúkdómar

Í vinnuslysa- eða atvinnusjúkdómstilfellum sem orsakast við vinnuna eða af henni, eða flutnings til og frá vinnustað greiðir atvinnurekandi laun fyrir dagvinnu í allt að 3 mánuði til viðbótar áunnum veikindarétti.

Við vinnuslys greiðir atvinnurekandi flutning þess slasaða til heimilis eða sjúkrahúss og endurgreiðir honum eðlilegan útlagðan sjúkrakostnað í hverju tilfelli, annan en þann sem almannatryggingar greiða.

Öll tilfelli um vinnuslys og atvinnusjúkdóma ber atvinnurekanda að tilkynna til Vinnueftirlitsins, án tafar ásamt því að tilkynna slys til Sjúkratrygginga Íslands vegna greiðslna úr almannatryggingakerfinu. Auk þess þarf að tilkynna um vinnuslys til tryggingafélags atvinnurekanda.

Veikindi barna

Fyrstu sex mánuði í starfi hjá atvinnurekanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Eftir 6 mánaða starf verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Foreldri heldur dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi eða eftirvinnuálagi (40%) þar sem það á við. Sama á við um börn undir 16 ára aldri þegar veikindi eru það alvarleg að þau leiði til sjúkrahússvistar í að minnsta kosti einn dag.

Ef barnið á lengur í veikindum en réttur launafólks er skv. kjarasamningi, þannig að tekjutap hljótist af, getur félagsfólk VR sótt um sjúkradagpeninga úr Sjúkrasjóði VR vegna barna sinna undir 18 ára aldri í allt að 210 daga (eða 7 mánuði) á hverju 12 mánaða tímabili. Upphæðin nemur 80% af meðallaunum síðustu sex mánuði.

Veikindi og slys í orlofi

Veikist starfskraftur í orlofi innanlands, í landi innan EES svæðisins, Sviss, Bandaríkjunum eða Kanada það alvarlega að hann geti ekki notið orlofsins skal hann á fyrsta degi tilkynna það atvinnurekanda t.d. með símskeyti, rafpósti eða á annan sannanlegan hátt nema force major aðstæður hindri en þá um leið og því ástandi léttir. Fullnægi starfskrafturinn tilkynningarskyldunni, standi veikindin lengur en í 3 sólarhringa og tilkynni hann atvinnurekanda innan þess frests hvaða læknir annist hann eða muni gefa út læknisvottorð, á hann rétt á uppbótarorlofi jafnlangan tíma og veikindin sannanlega vöruðu.

Undir framangreindum ástæðum skal starfskraftur ávallt færa sönnur á veikindi sín með læknisvottorði. Atvinnurekandi á rétt á að láta lækni vitja starfskrafts er veikst hefur í orlofi. Uppbótarorlof skal eftir því sem kostur er veitt á þeim tíma sem starfskraftur óskar á tímabilinu 2. maí til 15. september, nema sérstaklega standi á. Sömu reglur og að ofangreinir gilda um slys í orlofi.