Ofbeldi og áreitni

17. nóvember er alþjóðlegur dagur gegn ofbeldi og áreitni í verslun. Maskína lagði könnun fyrir tæplega 30.000 VR félaga þar sem þeir voru spurðir um upplifun þeirra af áreitni og ofbeldi í starfi. Könnunin var lögð fyrir í september og október 2023. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér fyrir neðan.

VR hefur opnað ábendingahnapp á forsíðu vr.is þar sem félagsfólk getur sent nafnlausar ábendingar til félagsins leiki grunur á að brot séu framin á starfsfólki á vinnustað. Sjá nánar hér. Fullum trúnaði er heitið. 

Hér til hliðar má meðal annars finna grein frá formanni VR, Ragnari Þór Ingólfssyni ásamt grein frá Magnúsi Norðdahl, sérfræðingi hjá ASÍ.

Niðurstöður í könnun um ofbeldi og áreitni í starfi – lykiltölur

Maskína lagði 15 spurninga könnun fyrir tæplega 30.000 VR félaga um upplifun þeirra af áreitni og ofbeldi í starfi í september og október 2023. Svarhlutfall var rúmlega 16%. Könnunin var send út á íslensku, ensku og pólsku.

Skilgreiningin á ofbeldi og áreitni sem könnunin notaði er fengin frá Alþjóðlegu vinnumálastofnuninni (ILO) og er nokkuð breið: hún nær yfir hvers kyns hegðun sem er í óþökk þess sem verður fyrir henni og hefur þann tilgang eða þau áhrif að valda sálrænum, líkamlegum, fjárhagslegum eða kynferðislegum skaða. Samkvæmt þessu getur áreitni eða ofbeldi í starfi falist í öllu frá dónalegri framkomu viðskiptavina og yfir í alvarlegt líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. 

Gerendur geta verið stjórnendur, samstarfsfélagar eða 3. aðilar (t.d. viðskiptavinir eða skjólstæðingar).

 • 54% VR félaga hafa upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi einhvern tímann á starfsferlinum.
  • 67% kvenna á aldrinum 25-34 ára.
  • 60% hjá erlendum félögum.
 • 18% VR félaga hafa upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi á síðustu 12 mánuðum.
  • 9% VR félaga hafa upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi fjórum sinnum eða oftar á síðustu 12 mánuðum
 • 52% VR félaga sem hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi tilkynntu atvikið og af þeim var helmingur óanægður með viðbrögð vinnustaðarins.
  • Hjá þeim VR félögum sem sögðust ekki vita hvert þau ættu að leita yrðu þau fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi voru 80% óanægð með viðbrögð vinnustaðarins.
 • 23% VR félaga hafa fengið ósanngjarna gagnrýni á störf sín á síðastliðnum 12 mánuðum.
 • 18% hafa orðið fyrir særandi eða niðurlægjandi hegðun fyrir framan aðra.
 • 8% hafa orðið fyrir ógnandi hegðun eða hótunum
 • 6% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni.
 • 2% hafa orðið fyrir annars konar áreitni eða ofbeldi.
 • 1% hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi.

Forvarnir skipta máli

Niðurstöður í könnun VR um ofbeldi og áreitni í starfi benda til þess að forvarnarstarf og undirbúningur fyrirtækja skipti miklu máli þegar kemur að því að koma í veg fyrir ofbeldi og áreitni annars vegar og að bregðast rétt við tilkynntum atvikum hins vegar.

Taflan  að neðan sýnir hvernig forvarnarstarf hefur áhrif á svörun fólks, þegar spurt er hvort það hafi orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi einhvern tímann á starfsferlinum:

Hefur þú einhvern tímann á starfsferli þínum orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi? Já  Nei
VR félagar - allir 54% 46%
Áhættumat til staðar 44% 56%
Áhættumat ekki til staðar 67% 33%
Viðbragðsáætlun til staðar 48% 52%
Viðbragðsáætlun ekki til staðar 64% 36%
Vita hvert skal leita 49% 51%
Vita ekki hvert skal leita 70% 30%

Starfsfólk á vinnustöðum þar sem engin áætlun um viðbrögð við áreitni eða ofbeldi í starfi er til staðar, ekkert áhættumat í tengslum við áreitni eða ofbeldi liggur fyrir, eða þar sem starfsfólk segist ekki vita hvert það ætti að leita yrði það fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi, er miklu líklegra til þess að verða fyrir áreitni eða ofbeldi, miklu líklegra til þess að verða vitni að áreitni eða ofbeldi gagnvart samstarfsfélaga og miklu líklegra til þess að vera óanægt með viðbrögð vinnustaðarins.

 • 48% starfsfólks sem segir að það sé til áætlun um viðbrögð við áreitni/ofbeldi í starfi hefur upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi einhvern tímann á starfsferlinum m.v. 64% þeirra sem segja að slík áætlun sé ekki til staðar.
 • 44% starfsfólks sem segir að það sé til áhættumat/forvarnarstefna í tengslum við áreitni/ofbeldi á sínum vinnustað hefur upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi einhvern tímann á starfsferlinum m.v. 67% þeirra sem segja að slíkt áhættumat sé ekki til staðar.
 • 49% starfsfólks sem segist vita hvert það ætti að leita innan vinnustaðarins, yrði það fyrir áreitni/ofbeldi í starfi, hefur upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi eihvern tímann á starfsferlinum m.v. 70% þeirra sem segjast ekki vita hvert þau ættu að leita.

Svipuð áhrif má sjá í spurningu um hvort fólk hafi orðið vitni að ofbeldi eða áreitni gagnvart samstarfsfélaga á síðastliðnum 12 mánuðum – á þeim stöðum þar sem forvarnarstarf er ekki í lagi tvöfaldast hlutfallið.

Gerendur

Í könnuninni var spurt um gerendur - þ.e. hvort starfsfólk sem hafði upplifað áreitni eða ofbeldi í starfi hafi orðið fyrir því af hendi stjórnenda, vinnufélaga eða þriðja aðila (t.d. viðskiptavina, skjólstæðinga, eða utanaðkomandi aðila á vinnustað). Niðurstöðurnar í þeirri spurningu eru sem segir (af þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi):

 • 56% hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi af hálfu stjórnenda.
 • 45% hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi af hálfu vinnufélaga.
 • 24% hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi af hálfu viðskiptavina eða skjólstæðinga.
  • 43% starfsfólks í verslun hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi af hálfu viðskiptavina.
 • 4% hafa orðið fyrir áreitni eða í starfi af hálfu annarra utanaðkomandi aðila á vinnustað (s.s. birgja, sendla, eða verktaka).