Lög og reglugerðir

Hér eru birt lög VR ásamt reglugerðum um sjóði VR, lögum og reglugerðum um vinnumarkaðinn. Einnig má finna reglugerðir um þá starfsmenntasjóði sem VR er aðili að. 

Lög VR

1. gr. Heiti, starfssvæði

Félagið heitir VR og er stéttarfélag verslunar-, þjónustu- og skrifstofufólks. Félagssvæði þess nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Kjósahrepps, Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar, Suðurnesjabæjar, sveitarfélagsins Voga, Vestmannaeyja, Árnessýslu, Rangárvallarsýslu, Vestur-Skaftafellssýslu, Húnaþings vestra, Akraness, Hvalfjarðarsveitar, Langanesbyggðar, Vopnafjarðarhrepps, Múlaþings, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Fjarðabyggðar, Breiðdalshrepps og Djúpavogshrepps. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Tilgangur

Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag verslunar-, þjónustu- og skrifstofufólks á félagssvæðinu með því að vinna að framgangi allra þeirra mála, er verða mega til aukinna réttinda, menningar og bættra kjara launafólks í landinu.
Félagið gerir kjarasamninga fyrir félagsmenn sína og kemur fram fyrir þeirra hönd gagnvart stjórnvöldum og öðrum, að því er varðar hagsmuni félagsmanna.

3. gr. Félagsaðild

Félagið er opið öllu verslunar-, þjónustu- og skrifstofufólki.
Félagar geta þeir orðið sem starfa á starfssviði félagsins sem launamenn eða eru sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði.

Félagsmenn sem missa starf sitt á vinnumarkaði geta áfram verið félagsmenn, gegn greiðslu félagsgjalds af greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem sjóðurinn hefur milligöngu um að skila til VR. Hafi þeir ekki verið félagar í VR við upphaf atvinnuleysisbótagreiðslna skulu þeir hafa greitt félagsgjald til VR að lágmarki í 36 mánuði á síðustu 5 árum fyrir umsókn atvinnuleysisbóta.

Félagsmenn sem hætta störfum á vinnumarkaði vegna örorku geta verið áfram félagsmenn þó án þess að njóta kjörgengis í félaginu, gegn greiðslu félagsgjalds til VR hjá þeim lífeyrissjóðum sem bjóða milligöngu um að skila félagsgjöldum til stéttarfélaga. Skulu þeir hafa verið félagsmenn í VR óslitið í 5 ár áður en til örorku kom og skal greiðsla félagsgjalda með þessum hætti hefjast eigi síðar en innan 12 mánaða frá fyrstu greiðslu örorkulífeyris.

Eldri félagsmenn sem fá greiddan ellilífeyri og sem verið hafa í félaginu a.m.k. 5 ár samfellt fyrir töku eftirlauna teljast áfram félagsmenn í VR en njóta ekki kjörgengis.

Þeir sem hverfa frá störfum um stundarsakir vegna náms eða veikinda geta nýtt sér áunninn rétt við inngöngu að nýju skv. nánari reglum félagins.

Fullgildur félagsmaður getur sá orðið sem:
Náð hefur 16 ára að aldri.
Er skuldlaus við félagið eða önnur stéttarfélög.
Er greiðandi og hefur greitt lágmarksfélagsgjald á undangengnum 12 mánuðum sbr. 9. gr., þó með þeim undantekningum sem kveðið er á um í lögum þessum og staðfest hefur aðild sína að félaginu skv. nánari ákvæðum laga þessara.
Unglingar geta orðið félagsmenn þó þeir hafi ekki náð 16 ára aldri en njóta þó ekki kjörgengis í félaginu.

Sjálfstætt starfandi á vinnumarkaði geta orðið félagsmenn með takmörkuðum réttindum skv. reglum einstakra sjóða auk þess sem þeir njóta ekki kjörgengis í félaginu. Sjálfstætt starfandi og/eða eigendur fyrirtækja eiga ekki rétt á að greiða atkvæði um kjarasamninga eða verkföll.

Sjálfstætt starfandi telst sá sem ber að áætla sér reiknað endurgjald samkvæmt ákvörðun skattayfirvalda, auk þeirra sem skráðir eru sem launamenn hjá eigin fyrirtæki, enda hafa þeir þannig ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Þar sem sjálfstætt starfandi, og/eða fjölskyldumeðlimur rekstraraðila, teljast hafa ráðandi stöðu skulu iðgjöld þeirra ávallt vera greidd og í skilum ef sækja á þjónustu til VR eða réttindi í sjóðum félagsins.

4. gr. Innganga í félagið

Umsækjendur um félagsaðild skulu óska aðildar að félaginu með inntökubeiðnum eða með skilum á gjöldum til félagsins. Aðild nýrra félagsmanna að félaginu skal staðfest af skrifstofu félagsins árlega og skal félagið senda viðkomandi tilkynningu um staðfestingu á inngöngu í félagið. Geri hann ekki athugasemdir um aðild innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar telst hann orðinn félagsmaður. Ekki er þörf sérstakrar staðfestingar ef viðkomandi hefur áður greitt til félagsins.

Um iðgjöld þeirra sem ekki kjósa að gerast félagsmenn, gilda ákvæði kjarasamninga félagsins á hverjum tíma. Sé vafi um rétt til aðildar skal stjórn úrskurða um málið. Unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðar trúnaðarráðs. Nýjum félögum og sjálfstætt starfandi sem óska aðildar að félaginu er skylt að veita upplýsingar um starfssvið, áætlaðar tekjur og gögn frá opinberum aðilum til staðfestingar á tekjum sé þess óskað.

5. gr. Réttindi og skyldur

Réttindi félagsmanna eru:

Málfrelsi, tillögu- og atkvæðaréttur á fundum félagsins. Atkvæðisréttur um kjarasamninga félagsins er bundinn þeim sem starfa samkvæmt þeim kjarasamningi sem kosið er um hverju sinni.
Allir fullgildir félagar hafa kjörgengi til trúnaðarstarfa innan félagsins, þó með þeim undantekningum sem getið er um í 3.gr.
Réttur til styrkja og greiðslna úr sjóðum félagsins í samræmi við reglur þeirra.
Réttur til að vinna þau störf sem kjarasamningar taka til.
Réttur til afnota af sameiginlegum eignum eftir nánari reglugerðum og reglum félagsins s.s. orlofshúsum, tjaldvögnum o.fl.
Réttur til aðstoðar félagsins við vanefndir atvinnurekanda á starfskjörum.
Skyldur félagsmanna eru:

Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og halda í einu og öllu samninga sem félagið hefur gert.
Að greiða félagsgjald

6. gr. Úrsögn

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send skrifstofu félagsins. Enginn getur þó sagt sig úr félaginu, eftir að kröfugerð í vinnudeilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og þar til samningar hafa náðst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmeðlima innan Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og Alþýðusambands Íslands, er lagt hafa niður vinnu vegna vinnudeilu.
Fella skal burt af félagaskrá hvern þann félagsmann, er hverfur sem launamaður frá verslunar-, þjónustu- og skrifstofustörfum eða tekur að stunda atvinnu, er fellur undir starfssvið annarra stéttarfélaga.

7. gr. Brottvikning

Stjórn félagsins getur vikið úr félaginu hverjum þeim, sem að hennar áliti brýtur lög félagsins, samninga þess við vinnuveitendur eða vinnur gegn hagsmunum þess. Ákvörðun stjórnar er heimilt að vísa til úrskurðar trúnaðarráðs. Til samþykkis slíkrar brottvikningar þarf 2/3 greiddra atkvæða, hvort sem er á trúnaðarráðsfundi eða stjórnarfundi. Brottvikningu skal ekki beitt nema sakir séu miklar eða brot sem áminnt hefur verið fyrir, verið ítrekað. Áður en til brottvikningar kemur skal félagsmanni gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við stjórn.

8. gr. Heiðursfélagar - gullmerki

Stjórn félagsins er heimilt að velja heiðursfélaga og sæma menn gullmerki félagsins. Heiðursfélagar eru undanskildir félagsgjaldi.

9. gr. Félagsgjöld

Aðalfundur ákveður félagsgjaldið hverju sinni. Þó er heimilt að innheimta félagsgjaldið sem hundraðshluta af launum af sama grunni og iðgjald til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og kveða á um lágmarksfélagsgjald.

10. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skipa 15 aðalmenn og 3 til vara. Formaður skal kosinn til tveggja ára í senn, meðstjórnendur skulu kosnir 7 í einu til tveggja ára og ganga árlega 7 úr stjórninni á víxl. Varamenn skuli kosnir til eins árs í senn. Hverfi stjórnarmaður frá verslunar-, þjónustu- og skrifstofustörfum, eða tekur að stunda atvinnu, sem fellur undir starfssvið annarra stéttarfélaga, skal kjósa mann í hans stað við fyrsta stjórnarkjör á eftir. Stjórn félagsins skal setja sér starfsreglur. Stjórnin kýs sér varaformann og ritara og skiptir að öðru leyti með sér störfum.

11. gr. Hæfi stjórnarmanna

Stjórnarmenn skv. 10 gr. og ef við á, stjórnarmenn sjóða skv. 3. mgr. 26. gr. skulu starfa á starfssviði VR, skulu vera fjár síns ráðandi og mega ekki á sl. 5 árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað. Stjórnarmenn mega ekki eiga meira en 5% hlut í fyrirtæki sem er í atvinnurekstri á starfssviði félagsins og mega ekki vera starfandi sem framkvæmdastjórar fyrirtækis, stofnunar eða félags þar sem réttarstaða framkvæmdastjóra rekstrar telst sú sama og sem hann væri sjálfur atvinnurekandi. Stjórnarmenn sem missa hæfi skv. framansögðu á kjörtímabili sínu víkja sjálfkrafa og tafarlaust úr stjórn og taka varamenn þeirra sæti í þeirra stað þar til hæfisskilyrðum er fullnægt að nýju. Frambjóðendur til stjórnar VR skulu og uppfylla ofangreind skilyrði við lok framboðsfrests sbr. gr. 20.3.
Sé ágreiningur um hæfi skal kjörstjórn úrskurða um það.
Við meðferð einstakra mála skal stjórnarmaður víkja sæti ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins.
Missi stjórnarmaður kjörgengi sitt á kjörtímabili skal hann tafarlaust víkja úr stjórn VR. Sama regla gildir um aðra kjörna fulltrúa í stjórnum og ráðum félagsins.

12. gr. Störf stjórnar

Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda.

Stjórn skal vinna að stefnumótun fyrir félagið og vinna að framgangi þeirra mála sem félagið hefur sett sér að vinna að.

Stjórn skal sjá um að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi og í samræmi við lög félagsins.

Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er snúa að fjármálum. Hún skal sjá svo um að fjármál séu jafnan í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna.

Stjórn fylgist með störfum deilda eða starfsgreina sem starfræktar eru eða kunna að verða.

Stjórn hefur að öðru leyti vakandi áhuga fyrir því, er félaginu má verða til heilla.

Stjórn skal ráða framkvæmdastjóra og fela honum daglegan rekstur skrifstofu félagsins. Stjórn er ekki heimilt að ráða, stjórnarfólk eða formann félagsins sem framkvæmdastjóra þess. Framkvæmdastjóri ræður starfsmenn og semur um kjör þeirra. Launanefnd gerir tillögu að launum og starfskjörum formanns og framkvæmdastjóra sem síðan þarf samþykki stjórnar VR.

Stjórnarmenn skulu rækja skyldur sínar af heilindum, hafa möguleika á að verja þeim tíma til stjórnarstarfa sem slík seta krefst og taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig. 

13. gr. Stjórnarfundir

Stjórnin heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og skal það, er á fundunum gerist skráð í sérstaka gerðarbók. Fundur er lögmætur þegar meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Formaður sér um að boða til funda og stjórnar þeim. Formaður sér um að gerðarbók sé rituð og hún varðveitt með öruggum hætti.

Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

Halda skal fund ef a.m.k. 4 stjórnarmenn krefjast þess. Afl atkvæða ræður úrslitum um afgreiðslu mála.

14. gr. Trúnaðarráð

Í félaginu skal starfa trúnaðarráð sem skal vera stjórn félagsins ráðgefandi varðandi ýmis stærri málefni sem upp koma í starfsemi félagsins s.s. við gerð kjarasamninga og meiriháttar framkvæmda á vegum félagsins. Auk þess skal trúnaðarráð gera annað það sem nánar er kveðið á um í lögum þessum.

Í trúnaðarráði sitja auk stjórnar og varastjórnar, stjórnir deilda sem verða til við sameiningu annarra verslunarmannafélaga af landsbyggðinni og 82 fulltrúar kosnir í allsherjaratkvæðagreiðslu til tveggja ára í senn. Formaður félagsins er jafnframt formaður trúnaðarráðs og boðar hann til fundar a.m.k. 4 sinnum á ári og eftir því sem þurfa þykir.

15. gr. Deildir

Stjórn félagsins er heimilt að starfrækja deildir innan félagsins eftir starfsgreinum/atvinnugreinum þess og landssvæðum. Hlutverk deildar er meðal annars að vinna að sameiginlegum hagsmunum starfsmanna í starfsgreinum/atvinnugreinum og landssvæðum, stuðla að fræðslu þeirra og fjalla um kjaramál fyrir starfsgreinarnar/ atvinnugreinarinnar og landssvæðin. Stjórn deildar er kosin á deildarfundi. Stjórn deildar er skipuð að lágmarki 3 mönnum, sem skipta með sér verkum, varamenn skulu vera jafnmargir. Kjörtímabil stjórnar er 2 ár. Stjórn deildarinnar getur fengið fjármuni, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar félagsins, til ráðstöfunar til fræðslu- og menningarmála innan starfsgreinarinnar. Deild skal setja sér starfsreglur sem stjórn félagsins staðfestir.

16. gr. Trúnaðarmenn

Formaður, fyrir hönd stjórnar félagsins, staðfestir val á trúnaðarmönnum á vinnustöðum og fullgildir skipun þeirra með erindisbréfi, sem þeir starfa eftir.

Trúnaðarmenn skulu hafa eftirlit með að lögum félagins, samþykktum og samningum sé hlýtt.

Trúnaðarmenn eru tengiliðir starfsmanna á viðkomandi vinnustað við stjórn og starfsmenn félagins. Að öðru leyti fer um starfsemi, réttindi og skyldur trúnaðarmanna að lögum og kjarasamningi félagsins.

17. gr. Samninganefnd

Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Samninganefnd kemur fram fyrir hönd félagsins við gerð kjarasamninga. Stjórn félagsins er jafnframt samninganefnd þess. Stjórn er heimilt að kalla fleiri félagsmenn til setu í samninganefnd eftir því sem þurfa þykir. Við gerð sérkjarasamninga, vinnustaða- eða fyrirtækjasamninga er samninganefnd heimilt að skipa minni samninganefnd.

Kröfugerð við gerð aðalkjarasamninga skal borin upp í trúnaðarráði til samþykktar áður en hún er lögð fram við samningagerð.

18. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla

Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa:
1.Um kosningu stjórnar og trúnaðarráðs.
2.Um vinnustöðvun. Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til.
3.Um miðlunartillögu ríkissáttasemjara eftir því sem við á.
4.Þegar trúnaðarráð eða lögmætur félagsfundur samþykkir að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu í félaginu.

Við allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa almenna leynilega atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna samkvæmt reglum ASÍ nema sérstakar aðstæður hamli.

19. gr. Kjörstjórn

Kjörstjórn skal skipuð þremur mönnum við kosningar í félaginu. Tveimur tilnefndum af stjórn félagsins og einum tilnefndum af Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna eða Alþýðusambandi Íslands. Tilnefna skal jafnmarga til vara. Kjörstjórn sér alfarið um framkvæmd kosninga samkvæmt reglugerð ASÍ.

20. gr. Kosning formanns, stjórnar og trúnaðarráðs

20.1. Um kosningu formanns og stjórnar

Formaður skal kosinn í einstaklingskosningu annað hvert ár. Árlega skulu 7 stjórnarmenn kosnir til tveggja ára og 3 varamenn til eins árs í einstaklingsbundinni kosningu.

Komi fram fleiri framboð en sæti sem í boði eru skal viðhafa rafræna kosningu meðal fullgildra félagsmanna.

Berist ekki nægilega mörg framboð skal stjórn félagsins gera tillögu um stjórnarmenn sem bera skal upp í trúnaðarráði til samþykktar. Ef fleiri tillögur koma fram á fundi trúnaðarráðs skal kosið á milli þeirra á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum.

20.2. Um kosningu í trúnaðarráð

Árlega skal kjósa 41 fulltrúa í listakosningu til setu í trúnaðarráði til tveggja ára í senn. Missi trúnaðarráðsmaður hæfi til setu í ráðinu sbr. 3 mgr. 11. gr. á fyrsta ári kjörs hans, skal í næstu kosningu til trúnaðarráðs fjöldi fulltrúa á framboðslista vera aukinn umfram 41 sem nemur þeim fjölda sem misst hefur hæfi. Þeir sem bætast þannig við framboðslistann skulu þó aðeins vera í kjöri til eins árs.

Komi fram fleiri en einn listi skal viðhafa rafræna kosningu meðal fullgildra félagsmanna. Þá skal kosið á milli lista og sá listi sem fær flest atkvæði telst rétt kjörinn. Stjórn og trúnaðarráði er skylt að stilla upp lista til trúnaðarráðs. Sama einstaklingi er óheimilt að skipa sæti samtímis á lista til trúnaðarráðs og í einstaklingskosningu til formanns eða stjórnar félagsins. Auglýsa skal í dagblöðum og á heimasíðu félagsins eftir félagsmönnum sem vilja taka sæti á listanum.

Uppstillingarnefnd skipuð formanni og fjórum einstaklingum kosnum af trúnaðarráði skal skipuð fyrir 15. janúar annað hvert ár. Nefndin skal velja frambjóðendur á listann úr hópi þeirra sem gefið hafa kost á sér og kannar kjörgengi þeirra.

Berist ekki nægilega mörg framboð skal uppstillingarnefnd gera tillögu um fulltrúa til setu á listanum sem bera skal upp í trúnaðarráði til samþykktar.

Hafi fleiri gefið kost á sér en sætin sem skipa á skal listinn borinn upp í trúnaðarráði til samþykktar. Sá sem gefið hefur kost á sér en ekki fengið sæti á listanum getur krafist þess að kosið verði um frambjóðendur á fundi trúnaðarráðs.

20.3. Um framkvæmd kosninga

Kjörstjórn úrskurðar um lögmæti framboða.

Kjörstjórn sér um og tekur ákvarðanir um framkvæmd kosninga. Ákvarðanir kjörstjórnar eru endanlegar.

Kjörstjórn skal auglýsa eftir framboðum í dagblöðum og á vefsíðu félagsins. Framboðsfrestur skal vera að minnsta kosti ein vika.

Framboðum skal skila á skrifstofu félagsins og skulu fylgja þeim upplýsingar um nafn og kennitölu frambjóðenda. Skrifleg meðmæli 15 félagsmanna þarf vegna framboðs til stjórnar. Skrifleg meðmæli 50 félagsmanna þarf vegna framboðs til formanns.

Við framboð lista til trúnaðarráðs skal liggja fyrir skriflegt samþykki allra þeirra sem á listanum eru.

Til að listi sem borinn er fram gegn lista trúnaðarráðs sé löglega fram borinn þarf skrifleg meðmæli 1% félagsmanna.

Kjörstjórn er heimilt að gefa sólarhringsfrest til að lagfæra annmarka á framboðum. Kjörstjórn úrskurðar um hæfi og kjörgengi allra frambjóðenda og auglýsir að því loknu upphaf atkvæðagreiðslu sbr. reglugerð ASÍ um leynilega allsherjaratkvæðagreiðslu. Úrskurðir kjörstjórnar eru endanlegir.

Kosning skal fara fram innan 6 vikna frá því að framboðsfrestur rennur út.

Kosningum til trúnaðarstarfa í félaginu skal lokið eigi síðar en 15 mars ár hvert.

Frambjóðendur í einstaklingskosningu geta dregið framboð sitt til baka allt að viku fyrir upphaf kjördags. Frambjóðendur í listakosningu geta ekki dregið framboð sitt til baka eftir að framboðsfresti lýkur.

Skrifstofa félagsins sér um kynningu á frambjóðendum í miðlum félagsins eins og þeir eru á hverjum tíma. Halda skal kynningarfundi meðal félagsmanna krefjist einn eða fleiri frambjóðenda þess. Um framkvæmd og undirbúning kosninga fer að öðru leyti eftir reglugerð ASÍ um leynilegar atkvæðagreiðslur.

20.4. Um kjörseðla og röðun á lista

Við kosningu til stjórnar:
Raða skal frambjóðendum á kjörseðilinn í handahófskenndri röð og kjósendur merkja við minnst 1 en mest 7. Til að viðhalda jafnri kynjaskiptingu í stjórn VR skal sá frambjóðandi sem flest atkvæði fær skipa 1. sæti í stjórn. Næsta sæti skipar sá sem flest atkvæði fékk en er af hinu kyninu o.s.frv. og skal sú kynjaflétta halda áfram til röðunar varamanna. Þeir 7 sem flest atkvæði fá samkvæmt framansögðu teljast rétt kjörnir aðalmenn í stjórn VR til 2ja ára. Næstu 3 teljast rétt kjörnir varamenn í stjórn VR til 1 árs.

Við kosningu til trúnaðarráðs:
Séu fleiri listar en listi stjórnar og trúnaðarráðs skal merkja listana með bókstaf hvern fyrir sig í þeirri röð sem þeir berast. Nöfnum á hverjum lista skal raðað í stafrófsröð. Sé á fundi trúnaðarráðs kosið milli einstaklinga sem skipa skulu listann sbr. 5.mgr. 20.gr. 2, skal nöfnum raðað á kjörseðil í stafrófsröð.

21. gr. Kjör á þing LÍV og ársfund ASÍ

Um kosningu fulltrúa á þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, og ársfund Alþýðusambands Íslands er heimilt að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu og skal hún fara fram eftir reglugerð ASÍ þar um. Komi til allsherjaratkvæðagreiðslu um lista fulltrúa þarf samþykki allra þeirra sem á listanum eru að liggja fyrir. Til að listi sem borinn er fram gegn lista stjórnar og trúnaðarráðs VR sé löglega fram borinn þarf hann skrifleg meðmæli 1% félagsmanna. Taka skal mið af 18. grein um kosningar eftir því sem við á.

22. gr. Jafnræði

Við val á félagsmönnum til trúnaðarstarfa fyrir félagið skal gætt jafnræðis milli kynja og milli starfsgreina.

23. gr. Aðalfundir

Aðalfund félagsins skal halda fyrir lok apríl ár hvert og eigi síðar en 14 dögum eftir að kosningar til stjórnar hafa farið fram. Skal hann boðaður með auglýsingu í útvarpi, dagblöðum og vefmiðlum VR eða á annan sannanlegan hátt með 10 daga fyrirvara. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórn er heimilt að halda aðalfund með rafrænum hætti að hluta eða öllu leyti og skal tryggja að gætt sé jafnræðis meðal fundarmanna hvort sem þeir sækja fundinn á staðnum eða rafrænt. Rafræn þátttaka félagsmanna á slíkum rafrænum aðalfundum skal ávallt vera staðfest með viðurkenndum rafrænum auðkennum. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.

24. gr. Dagskrá aðalfundar

Dagskrá aðalfundar skal vera þannig:

1.Kosinn fundarstjóri.
2.Kosinn ritari.
3.Skýrsla stjórnarinnar um störf félagsins undanfarið starfsár.
4.Reikningar félagsins fyrir liðið starfsár lagðir fram til samþykktar.
5.Lagabreytingar og reglugerðarbreytingar, ef tillögur liggja fyrir.
6.Lýst kjöri stjórnar og trúnaðarráðs.
7.Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarstofu og tveggja félagslega kjörinna skoðunarmanna.
8.Ákvörðun félagsgjalds.
9.Ákvörðun um laun stjórnarmanna.
10.Önnur mál.

25. gr. Félagsfundir

Félagið heldur fundi svo oft sem þurfa þykir. Þó skal stjórninni skylt að boða til fundar, þegar eigi færri en 1% félagsmanna krefjast þess skriflega og skal fundurinn haldinn innan 7 daga frá því að stjórninni barst krafan í hendur. Fundur telst lögmætur, sé hann boðaður með auglýsingum í útvarpi, dagblöðum og vefmiðlum VR eða á annan sannanlegan hátt með minnst tveggja daga fyrirvara. Mál, sem ekki hafa verið greind í auglýstri dagskrá félagsfundar er ekki hægt að taka til endanlegrar úrlausnar á fundinum en gera má ályktun til leiðbeiningar fyrir stjórn félagsins.

Heimilt er stjórn að boða fund með skemmri fyrirvara vegna sérstakra ástæðna, svo sem samningagerðar eða annars samkvæmt mati stjórnarinnar. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á fundum nema þar sem lög þessi ákveða annað. Gjörðabók skal haldin og í hana ritað ágrip af því sem fram fer á fundum félagsins. Stjórn er heimilt að halda félagsfundi með rafrænum hætti að hluta eða öllu leyti og skal tryggja að gætt sé jafnræðis meðal fundarmanna hvort sem þeir sækja fundinn á staðnum eða rafrænt. Rafræn þátttaka félagsmanna á slíkum rafrænum félagsfundum skal ávallt vera staðfest með viðurkenndum rafrænum auðkennum.

Lögmætir félagsfundir hafa æðsta vald í öllum málefnum félagsins milli aðalfunda innan þeirra takmarka, sem lögin setja og hér að ofan greinir.

26. gr. Sjóðir

Félagið rekur:

Félagssjóð, Sjúkrasjóð, Orlofssjóð, Varasjóð og Vinnudeilusjóð.

Í reglugerð sjóðanna skal tilgreina hlutverk, tekjur, hvernig greiðslum úr sjóðnum er háttað og annað það er viðkemur rekstri sjóðanna.

Stjórn VR er stjórn sjóðanna en heimilt er að skipa sérstaka stjórn um hvern sjóð fyrir sig.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir með eftirfarandi hætti:


a) í ríkisskuldabréfum, í skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs,
b) með kaupum á markaðsskráðum verðbréfum,
c) á banka- eða sparisjóðsreikningum,
d) í fasteignum tengdum starfsemi og markmiðum sjóðanna,
e) á annan þann hátt er stjórn og trúnaðarráð meta tryggan.

27. gr. Reikningar

Stjórn félagsins leggur fram reikninga sem skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og áritaðir af honum og skoðunarmönnum félagsins. Skulu þeir liggja þannig frammi á skrifstofu félagsins og heimasíðu félagsins, félagsmönnum til sýnis sjö dögum fyrir aðalfund.

28. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum verður eigi breytt nema á lögmætum aðalfundi. Heimilt er þó á aðalfundi eða framhaldsaðalfundi að vísa lagabreytingum til allsherjaratkvæðagreiðslu.

Í fundarboði skal þess getið að lagabreytingar séu á dagskrá.

Lagabreytingatillögur stjórnar skulu kynntar í trúnaðarráði.

Tillögum um lagabreytingar skal skilað til félagsstjórnar eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund. Á aðalfundi er eingöngu heimilt að gera breytingartillögur við þær lagabreytingar sem lagðar hafa verið fyrir félagsstjórn með þessum hætti. Aðrar breytingatillögur verða ekki teknar fyrir.

Allar lagabreytingatillögur skulu liggja frammi á skrifstofu og heimasíðu félagsins í 7 daga fyrir aðalfund.

Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum koma þá fyrst til framkvæmda er miðstjórn Alþýðusambands Íslands og stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna hafa staðfest þær.

29. gr. Slit félagsins

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það og þessari ákvörðun verður ekki breytt með tilvitnun til ákvæðis 28. gr.

(Lög VR, samþykkt á aðalfundi VR 28. febrúar 1955 með áorðnum breytingum 19. febrúar 1958, 23. febrúar 1959, 10. febrúar 1965, 17. janúar 1967, 25. janúar 1969, 2. júní 1975, 11. febrúar 1976, 21. mars 1978, 18. mars 1991, 25. mars 2002, 14. mars 2005, 24. apríl 2006, 31. mars 2008, 2. apríl 2009, 11. janúar 2011, 27. apríl 2011, 10. apríl 2012, 26. mars 2014 og 25. mars 2015, 28. mars 2017, 19. mars 2018, 27. mars 2019, 9. júní 2020, 24. mars 2021, 29. mars 2023).