Um störf starfsfólks í gestamóttöku gildir sérkjarasamningur, hér er að finna helstu upplýsingar en sérkjarasamninginn er að finna í heild sinni í kjarasamningi VR og SA.
-
Í eftirfarandi launatöflum er hægt að nálgast lágmarkslaun starfsfólks í gestamóttöku. Um er að ræða lágmarkslaun og er innifalið í þeim launum greiðslur vegna nauðsynlegra samskipta á vaktaskiptum, undirbúnings og frágangs. Miðað er við að sá tími sé allt að 15 mínútur á hverri vakt.
-
Dagvinna
Gegn hinu fasta mánaðarkaupi skal starfsfólk vinna 38 klst. og 45 mínútur (39 ½ klst. og fyrir vinnutímastyttingu) á viku hverri eða hlutfallslega styttri tíma ef einhver þeirra frídaga, sem taldir eru í gr. 2.3.1. og 2.3.2. í aðalkjarasamningi, er í vikunni. Ef ekki eru tekin neysluhlé er um að ræða 35 klst. og 51 mín. vikar vinnustundir, var fyrir vinnutímastyttingu 36 klst. og 35 mín.Dagvinnutímabilið er skilgreint frá kl. 8:00–17:00 mánudaga til föstudaga, en heimilt er að hefja dagvinnu fyrr ef vinnuveitandi og starfsfólk kemur sér saman um það. Þó skal dagvinna hvers starfsmanns ávallt unnin með samfelldri vinnuskipan á degi hverjum og aldrei hefjast fyrr en kl. 7:00.
Yfirvinna
Yfirvinna hefst að lokinni dagvinnu, þ.e. eftir 7 klst. og 45 mín. (7 klst. og 10 mín. virkar vinnustundir) á tímabilinu kl. 7:00–17:00, mánudaga - föstudaga.
Ef unnið er í matar- og kaffitíma á dagvinnutímabili, greiðist það með yfirvinnukaupi. -
Vaktavinna Heimilt er að láta vinna á vöktum alla daga vikunnar. Sé eingöngu unnið á vöktum 5 daga vikunnar innan tímamarkanna kl. 17:00–8:00, skal vinnuvikan aðeins vera 37 klst. og 15 mínútur, var fyrir vinnutímastyttingu 38 klst.
Óheimilt er að skipuleggja vakt lengri en 12 klst. og skemmri en fjórar klst. Hver vakt skal unnin í samfelldri heild.
Skipuleggja á vaktir að jafnaði fyrir fjórar vikur í senn og á vaktaskráin að hanga uppi þar sem starfsfólk hefur aðgang að henni viku áður en vinna eftir henni hefst. Vinnuskipulag hvers starfskrafts skal ákveðin í ráðningarsamningi og verður ekki breytt nema að undangenginni uppsögn eða með samkomulagi.Álag á dagvinnukaup greiðist á þann hluta 38,75 stunda (38:45 klst. var fyrir vinnutímastyttingu 39:30 stundir) vinnu að meðaltali á viku sem fellur utan tímabilsins kl. 8:00–17:00 mánudaga til föstudaga á eftirfarandi hátt:
33% álag á tímabilinu kl. 17:00–24:00 mánudaga til föstudaga.
45% álag á tímabilinu kl. 00:00–8:00 alla daga svo og um helgar.Álag á almennum frídögum þ.e. vinna á skírdag, annan í páskum, sumardaginn fyrsta, 1. maí, uppstigningardag, annan í hvítasunnu og annan jóladag greiðist með 45% álagi (enda fær starfsmaður vetrarfrí).
Álag á stórhátíðardögum þ.e. vinna á nýársdag, föstudaginn langa, páskadag, hvítasunnudag, 17. júní, frídag verslunarmanna, aðfangadag eftir kl. 12:00, jóladag og gamlársdag eftir kl. 12:00 greiðist með 90% álagi (enda fær starfsmaður vetrarfrí).
Yfirvinnukaup er greitt fyrir alla vinnu umfram 38,75 stunda (38:45 klst. sem var fyrir vinnutímastyttingu 39:30 stundir) að meðaltali í vaktavinnu á viku og reiknast 1,0385% af mánaðarlaun. Fyrir vinnu á tímabilinu kl. 17:00–8:00 er greidd yfirvinna umfram 37,25 klst. (37:15 klst. en var fyrir vinnutímastyttingu 38 klst.)
Neysluhlé skulu vera sem svarar 5 mín. fyrir hvern unninn klukkutíma og skiptast eftir samkomulagi á vinnustaðnum. Þegar neysluhléin eru skipulögð eiga þau að vera a.m.k. 15 mínútur samfellt. Ef unnið er í neysluhléi greiðist það með með yfirvinnukaupi eða styttir vinnutíma samsvarandi.
Næturvaktir mega vera skipulagðar 7 daga í röð með 7 daga vaktafríi á milli með samkomulagi á milli aðila. Þetta er eina frávikið frá gr. 2.4. í aðalkjarasamningi.
-
Þeir sem vinna vaktavinnu og eru með vinnuskyldu á skilgreindum frídögum og stórhátíðardögum skv. kjarasamningi sem falla á mánudag til föstudags vinna sér inn 12 vetrarfrídaga á ári (96 vinnuskyldustundir m.v. fullt starf ).
Frá 1. janúar 2020 verður ávinnsla vetrarfrídaga 94,2 vinnuskyldustundir m.v. fullt starf vegna vinnutímastyttingarinnar.
Rétturinn byggist á því að verið er að jafna vinnuár vaktavinnufólks við dagvinnufólk sem skilar vinnuviku sinni á dagvinnutímabili frá mánudegi til föstudags.
Þannig fær starfsmaður sem vinnur alla virka daga frí á skilgreindum frídögum og stórhátíðardögum skv. kjarasamningi en fær samt greidda dagvinnu fyrir þá daga þó þeir séu ekki unnir. Starfsmaður sem vinnur vaktavinnu er með vinnuskyldu á þessum frídögum og fær því ekki frí, en á móti safnar hann vetrarfríi sem frídag til töku síðar, sem hann hefði annars fengið, ef hann hefði ekki verið í vaktavinnu.
Ávinnsla vetrarfrídaga miðast við vinnu október til október hvert ár en þeir skulu teknir út á tímabilinu frá 1. október til 1. maí ár hvert. Rétt er að benda á að ávinnsla vetrarfrídaga er ekki einn dagur fyrir hvern unninn mánuð. En það er algengur misskilningur vegna þess að frídagarnir eru 12 og fjöldi mánaða í ári einnig. Hið rétta er að vetrarfrídagar ávinnast miðað við fjölda helgidaga í hverjum vinnumánuði, sem gerir 12 daga alls á ári. Þannig getur starfsmaður sem einungis vinnur þrjá mánuði t.d. apríl, maí og júní áunnið sér 7 vetrarfrídaga miðað við árið 2021 en annar starfsmaður sem vinnur í þrjá mánuði t.d. í september, október og nóvember ávinnur sér enga frídaga.
Sé vinnustaðnum lokað á fyrrgreindum dögum eða frí veitt dregst samsvarandi dagafjöldi frá vetrarfrídögunum nema hjá starfsmanni sem á inni áunnið vaktafrí.
Ef vetrarfrídagarnir hafa ekki verið nýttir við starfslok skal gera þá upp með hefðbundnum launum ásamt orlofi.
-
Orlof gestamóttökustarfsmanna er það sama og í almenna kjarasamningnum þ.e. að lágmarki 24 orlofsdagar miðað við heilt orlofsár. Sjá allar nánari upplýsingar hér. Þar sem margir starfa í vaktavinnu t.d. eins og 2-2-3 vinnufyrirkomulagi þá er hægt að auðvelda útreikninginn á utanumhaldi á nýttum orlofsdögum með að telja bara „sína“ vinnudaga. Þannig jafngildir 16,8 vaktir 24 daga orlof. Því þegar talað er um 24 daga orlof er verið að tala um virka daga.
24 daga orlofsréttur er sambærilegur og 16,8 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
25 daga orlofsréttur er sambærilegur og 17,5 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
27 daga orlofsréttur er sambærilegur og 18,9 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
28 daga orlofsréttur er sambærilegur og 19,6 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.
30 daga orlofsréttur er sambærilegur og 21 vaktir miðað við 2-2-3 vaktafyrirkomulag.