Atvinnulýðræði

Hér má finna myndbönd af fyrirlestrum sem voru haldnir á ráðstefnu VR um atvinnulýðræði „Tökum lýðræðið með í vinnuna!“ Fyrirlestrarnir eru með enskum texta. 

Smelltu hér til að horfa á ráðstefnuna í fullri lengd.

  • Atvinnulýðræði þýðir að starfsfólk getur haft áhrif á ákvarðanir stjórnar fyrirtækisins, allt frá ákvörðunum um stefnumótun til framtíðar til ákvarðana sem snerta dagleg störf starfsfólks. VR og önnur félög í LÍV vilja tryggja raunverulega aðkomu starfsfólks að stjórnun fyrirtækisins sem þeir vinna hjá, til dæmis með setu í stjórn fyrirtækisins.

  • Stjórnarseta starfsfólks – sem á ensku er kallað Board-level employee representation eða BLER – felur í sér rétt starfsfólks til að kjósa einn eða fleiri fulltrúa með atkvæðisrétt í stjórn fyrirtækisins. Þessi réttur er til staðar í meirihluta aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins, þar með talið á Norðurlöndum að Íslandi undanskildu. Réttindi og skyldur fulltrúa starfsfólks í stjórn eru í flestum tilfellum þær sömu og fulltrúa eigenda, þótt þeir taki síður þátt í umræðum eða ákvörðunum sem varða t.d. vinnustöðvun. Rétturinn til stjórnarsetu starfsfólks miðar í flestum tilfellum við tiltekna stærð fyrirtækja eða fjölda sem þar starfa.

  • Hér á landi eru hvorki lög né kjarasamningar sem gefa starfsfólki almennt rétt til að kjósa fulltrúa sína í stjórn fyrirtækisins. Tilraunir til að koma á atvinnulýðræði á Íslandi eiga sér engu að síður langa sögu. Fyrsta þingsályktunartillagan um atvinnulýðræði var lögð fram á Alþingi árið 1965 og hafa síðan verið lagðar fram fleiri tillögur og frumvörp sem miða að því að auka lýðræði í atvinnulífinu, án þess að það hafi skilað tilætluðum árangri. Verkalýðshreyfingin hefur nú tekið málið upp að nýju og hefur VR til að mynda stofnað sérstaka framtíðarnefnd innan stjórnar félagsins sem hefur atvinnulýðræði á sinni könnu.

  • Á Norðurlöndum, þar sem stjórnarseta starfsfólks á sér áratugalanga sögu, er almenn sátt um þetta fyrirkomulag, stéttarfélög telja það til réttinda starfsfólks á vinnumarkaði. Stjórnarseta starfsfólks skilar ávinningi bæði til starfsfólks fyrirtækja og fyrirtækjanna sjálfra enda hljóta langtímahagsmunir beggja að fara saman. Starfsfólk fjárfestir í fyrirtækinu með vinnuframlagi sínu og sérþekkingu sem styrkir samkeppnishæfni þess. Stjórnarseta starfsfólks auðveldar upplýsingaflæði milli stjórnar og starfsfólks sem skilar sér í betra samstarfi innan fyrirtækisins og meiri skilningi beggja aðila.
    Rannsóknir hafa sýnt jákvæð áhrif stjórnarsetu starfsfólks á rekstur og starfsemi fyrirtækja og á framleiðni starfsfólksins sjálfs. Stjórnarseta starfsfólks felur einnig í sér ákveðið eftirlit með störfum stjórnar og áhættusækni eigenda.

Ragnar Þór Ingólfsson - formaður VR

Kynning á atvinnulýðræði almennt en það felur í sér allar ráðstafanir til að auka áhrif starfsfólks sem varða vinnustaðinn, allt frá stefnumótun til ákvarðana sem tengjast daglegum störfum. Atvinnulýðræði er dreifing á valdi eftir ákveðnum ferlum og strúktúr og þátttöku allra.

 

Ásmundur Einar Daðason - félagsmálaráðherra

Í ávarpi sínu veltir ráðherra vöngum yfir ávinningi aukins lýðræðis á vinnustöðum. Að bæta vinnustaðamenningu; mun aukið atvinnulýðræði leiða til gagnkvæms ávinnings fyrir vinnustaði og starfsfólk? Reynslan hefur sýnt að það eykur starfsánægju að aukið gagnsæi sé á vinnustaðnum og að sveigjanlegt vinnuumhverfi hefur gjörbreytt vinnustaðamenningu til góðs.

Inger Marie Hagen - sérfræðingur hjá Fafo.

Í erindi sínu fjallar Inger Marie um áhrif stjórnasetu starfsfólks í fyrirtækjum. Hún fjallar um rannsóknir sínar og niðurstöður um hvert hlutverk fulltrúa í stjórnum fyrirtækja sé og hvort þeir hafi raunveruleg áhrif?

Casper Berg Lavmand Larsen - doktorsnemi í viðskiptafræði við CBS í Kaupmannahöfn


Casper fjallar um atvinnulýðræði í Danmörku og niðurstöður rannsókna hans á því hvort að það hafi aukið lýðræði að launafólk taki þátt í stjórnum fyrirtækja.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir - dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Hver er ávinningur af atvinnulýðræði á íslenskum vinnumarkaði?
Árelía kynnir hér niðurstöður rannsóknar sinnar á ávinningi atvinnulýðræðis á Íslenskum vinnumarkaði.

Þorsteinn Víglundsson - forstjóri Hornsteins ehf. og fyrrverandi ráðherra vinnumarkaðsmála

Þorsteinn fjallar í erindi sínu um atvinnulýðræði frá sjónarhóli fyrirtækjanna og um mikilvægi góðs samstarfs starfsfólks, stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum.