Frídagar og stórhátíðir

Á frídögum og stórhátíðum er ekki vinnuskylda en starfsfólk á að halda sínum föstu og reglubundnum launum fyrir daginn. Ef unnið er á skilgreindum frídegi eða stórhátíðardegi ber atvinnurekanda að greiða aukalega fyrir þá til viðbótar við föst og reglubundin laun, eftir því sem við á, stórhátíðarkaup eða álag.

Nánari upplýsingar fyrir þau sem starfa í gestamóttöku má sjá hér.

Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar, þ.e. skírdagur, annar í páskum, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu og annar í jólum, auk sumardagsins fyrsta og 1. maí.

Stórhátíðardagar eru nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, frídagur verslunarmanna, jóladagur og eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag.

Sjá hér nánar um laun ef unnið er á almennum frídögum eða á stórhátíðardögum.

Helgarfrí

Helgarfrí í verslun samkvæmt samningi VR og SA
Í bókun með samnningi VR og SA frá 2004 segir að aðilar muni beina því til félagsmanna sinna að skipuleggja vinnutíma afgreiðslufólks verslana, sem vinnur alla virka daga, þannig að það eigi frí a.m.k. 6 helgar af hverjum 18 frá föstudagskvöldi fram á mánudagsmorgun.

Helgarfrí í verslun samkvæmt samningi VR og FA
Verslanir skulu leitast við að skipuleggja vinnutíma starfsfólks sem vinnur alla virka daga, þannig að það eigi frí a.m.k. 8 helgar af 16 frá föstudagskvöldi til mánudagsmorguns.

Vikulegur frídagur

Samkvæmt vinnutímasamningi ASÍ og aðila vinnumarkaðarins eiga starfsmenn rétt á einum frídegi á hverju sjö daga tímabili og skal sá frídagur vera að öllu jöfnu á sunnudögum. Ef frídagur lendir hins vegar á virkum degi skerðir það ekki rétt launþegans til fastra daglauna og vaktaálags.

Frestun á vikulegum frídegi
Fyrirtæki má þó með samkomulagi við starfsmenn sína fresta vikulegum frídegi þar sem sérstakar ástæður gera slík frávik nauðsynleg. Sé sérstök þörf á að skipuleggja vinnu þannig að staðaldri að vikulegum frídegi sé frestað skal um það gerður kjarasamningur.