Gjaldþrot fyrirtækis

Starfsmenn sem verða fyrir því að fyrirtæki sem þeir starfa hjá verður gjaldþrota eiga venjulega bótakröfu á fyrirtækið vegna riftunar á starfssamningi. Yfirleitt er um að ræða bætur í uppsagnarfresti viðkomandi starfsmanns.

Ábyrgðarsjóður launa áskilur sér hins vegar rétt til þess að hafna greiðslum til launþega vegna bóta í uppsagnarfresti úr gjaldþrotabúum nema ítarlegum tilmælum sjóðsstjórnar sé fylgt.

Verði fyrirtæki gjaldþrota getur félagsmaður VR leitað til skrifstofu félagsins sem gerir kröfu fyrir hann í þrotabúi fyrirtækisins. Ef skiptastjóri þrotabúsins samþykkir kröfuna og fyrirtækið, sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, á ekki fyrir greiðslu launa getur félagið fyrir hans hönd óskað eftir greiðslu úr Ábyrgðarsjóði launa. Launakröfur sem eru eldri en 18 mánaða frá gjaldþroti (frestdegi) njóta ekki forgangs í þrotabúið og þar af leiðandi ekki heldur ábyrgðar Ábyrgðarsjóðs launa.

Ábyrgðarsjóður launa

Ábyrgðarsjóður launa hefur ákveðnar starfsreglur sem gott er að hafa í huga og eru þær helstar sem hér segir:

  • Eingöngu þeir launþegar sem skráðir eru atvinnulausir á vinnumiðlun viðkomandi sveitarfélags hafa rétt til bóta úr Ábyrgðarsjóði launa vegna riftunar eða uppsagnar vinnusamnings þegar bú atvinnurekanda er tekið til gjaldþrotaskipta.
  • Sækja verður um vinnu eða skrá sig atvinnulausan innan tveggja vikna frá því að rof verður á vinnusamningi, að öðrum kosti skerðast bætur í uppsagnarfresti til viðkomandi launþega. Einhliða yfirlýsing atvinnurekenda um að launþegi hafi sótt um vinnu á uppsagnartímabilinu er ekki tekin til greina. Bætur verða einungis greiddar fyrir það tímabil sem umsækjandi hefur sannanlega verið skráður umsækjandi um vinnu.

Með þessum reglum er Ábyrgðarsjóður launa að fara fram á ákveðinn feril hvers launþega sem sækir um bætur til sjóðsins. Ef ekki er farið í einu og öllu eftir þessum tilmælum stjórnar sjóðsins áskilur sjóðurinn sér allan rétt til að hafna greiðslum.