VR blaðið

Skráning á rafrænt VR blað
01.12.2017

4. tbl. VR blaðsins 2017

Réttindamálin eru í brennidepli í þessu 4. tölublaði VR blaðsins árið 2017. Fjallað er um fjórðu iðnbyltinguna og þær áskoranir og tækifæri sem felast í henni. Farið er yfir nokkur streituráð fyrir veturinn og minnt á réttindi félagsmanna í desember. Í blaðinu er viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, um fyrsta ár hans í formannsstólnum og hvað sé framundan í kjaramálunum. Skrifstofur VR á Akranesi voru heimsóttar og  rætt við fjóra félagsmenn á svæðinu. Þá var nýr trúnaðarmaður VR hjá Costco tekinn tali en starfsfólk Costco kaus á dögunum tvo trúnaðarmenn fyrir verslunina.

Skoða blaðið Sækja í pdf
29.09.2017

3 tbl. VR blaðsins 2017

Starfsmenntamálin eru í brennidepli í þessu  3. tölublaði VR blaðsins 2017.  Fjallað er um raunfærnimat og hvernig aukin fræðsla skilar ávinningi fyrir fólk á vinnumarkaði. Farið er yfir hvað þjónusta er og hvað starfsfólki í verslunum finnst einkenna góða þjónustu. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fer yfir stöðuna í kjaramálum og skrifar einnig leiðara blaðsins. Fjallað er um þrælahald á Íslandi og mikilvægi vinnustaðaeftirlits. Skrifstofur VR á Suðurlandi voru heimsóttar, trúnaðarmaður á Suðurlandi tekinn tali og rætt við fjóra félagsmenn á svæðinu. 

Skoða blaðið Sækja í pdf
19.06.2017

2 tbl. VR blaðsins 2017

Í 2. tölublaði VR blaðsins árið 2017 eru vinningshafar í Fyrirtæki ársins kynntir. Í blaðinu er að finna viðtöl við stjórnendur fyrirtækjanna sem hlutu titilinn Fyrirtæki ársins 2017 og myndir af vinnustöðunum. Í blaðinu er einnig að finna viðtal við nýjan formann VR, Ragnar Þór Ingólfsson, en Ragnar Þór sat í átta ár í stjórn félagsins áður en hann var kjörinn formaður á aðalfundi VR 28. mars síðastliðinn. Einnig er umfjöllun um deild VR í Vestmannaeyjum þar sem meðal annars er rætt við félagsmenn á svæðinu og trúnaðarmaður VR í Bónus tekinn tali. Þá skrifar Gils Einarsson, nýkjörinn formaður Suðurlandsdeildar VR, um sameiningu VMS við VR og nýja tíma fyrir félagsmenn á svæðinu. 

Skoða blaðið Sækja í pdf
03.03.2017

1 tbl. VR blaðsins 2017

Í þessu fyrsta tölublaði ársins er áhersla lögð á kynningu á frambjóðendum til formanns og stjórnar félagsins kjörtímabilið 2017 – 2019 en kosið er til forystunnar dagana 7. til 14. mars 2017. Frambjóðendur kynna áherslur sínar og sjálfa sig í blaðinu. Þá er fjallað um stöðuna í kjarasamningum en ákveðið var að segja samningum á almennum vinnumarkaði ekki upp þrátt fyrir að forsendunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að ein af þremur forsendum samninganna væri brostin. Í blaðinu er einnig fjallað um hugmyndir að nýju samningalíkani en ríkissáttasemjari fór yfir málið á fundi með trúnaðarráði í lok janúar. Könnun VR á Fyrirtæki ársins og launakjörum er einnig til umfjöllunar en könnunin stendur til og með 12. mars. Rætt er við umsjónarmann orlofseigna hjá VR en nú er nýhafið mikið átak í fjölgun orlofshúsa hjá félaginu. Þá er einnig kíkt í heimsókn á skrifstofu VR á Egilsstöðum og rætt við félagsmenn fyrir austan, fjallað um stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði o.m.fl. 

Skoða blaðið Sækja í pdf
06.12.2016

4. tbl. VR blaðsins 2016

Í 4. tölublaði VR blaðsins 2016 kennir ýmissa grasa. Fjallað er um Klukk appið og viðtal tekið við Snorra Má Skúlason hjá ASÍ, en appið hjálpar launafólki að halda utan um unnar vinnustundir. Fjallað er um réttindi félagsmanna í desember, desemberuppbót, laun á frídögum og hvíldartíma. Farið verður yfir hádegisfyrirlestra komandi vors en meðal fyrirlesara verður Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli. Þá er viðtal við formann VR, Ólafíu B. Rafnsdóttur, þar sem hún lítur yfir farinn veg en Ólafía hefur gegnt embætti formanns VR í að verða fjögur ár. Starfsmenntamálin eru einnig til umfjöllunar í þessu fjórða tölublaði VR blaðsins en viðtöl voru tekin við þau Sófus Árna Hafsteinsson, verslunarstjóra ELKO í Lindum, og Ásdísi Jörundsdóttur, rekstrarstjóra hjá Skór.is og Air.is. 

Skoða blaðið Sækja í pdf
15.09.2016

3. tbl. VR blaðsins 2016

Niðurstöður í launakönnun VR eru helsta umfjöllunarefni í 3. tbl. VR blaðsins árið 2016. Í blaðinu er ítarleg umfjöllun um könnunina, birtar töflur yfir laun og breytingar á milli ára.
Í blaðinu er einnig fjallað um launamun kynjanna sem stendur í stað á milli ára. Í launakönnun í ár var spurt um fordóma og fjölbreytni á vinnustað og þátttöku félagsmanna í ákvarðanatöku á vinnustað þeirra og er fjallað um niðurstöðurnar.
Blaðinu fylgir einnig félagsskírteini en það er staðfesting á aðild félagsmanna að VR auk þess að veita ýmis konar afslætti. Í blaðinu er einnig áhugaverð umfjöllun um stöðu ungs fólks á vinnumarkaði og fjallað um raunfærnimat. Þá er að finna í blaðinu upplýsingar fyrir þá sem eru að skipta um starf og farið yfir hvernig á að lesa launaseðilinn. Í leiðara ræðir formaður VR um launamun kynjanna en launakönnunin sýnir að lítið hefur þokast í þeim málaflokki síðustu ár. 

Skoða blaðið Sækja í pdf
13.05.2016

2. tbl. VR blaðsins 2016

Í 2. tölublaði VR blaðsins árið 2016 eru niðurstöður í könnuninni Fyrirtæki ársins skoðaðar. Í þessari stærstu vinnumarkaðskönnun á Íslandi hlutu fyrirtækin Johan Rönning, Expectus og Vinnuföt titilinn fyrirtæki ársins 2016 í þremur stærðarflokkum. Þrjú fyrirtæki hlutu titilinn hástökkvari ársins, eitt í hverjum stærðarflokki; Klettur- sala og þjónusta, Fastus og Karl K. Karlsson. Í blaðinu eru birtir listar yfir stöðu fyrirtækjanna, umfjöllun um sigurvegara og aðrar niðurstöður. Í blaðinu er einnig nóg af annars konar efni, fjallað er um orlof og orlofsrétt, fjölbreytileika á vinnustað og birtar myndir frá 1. maí, en VR var með skemmtilega fjölskylduhlaup á Klambratúni sem upphitun fyrir kröfugönguna. Þá er ný stjórn VR kynnt í blaðinu og sagt frá aðalfundi sem haldinn var 29. mars sl.

 

 

Skoða blaðið Sækja í pdf
04.03.2016

1. tbl. VR blaðsins 2016

Í 1. tölublaði VR blaðsins 2016 er ítarleg umfjöllun um frambjóðendur til stjórnar VR kjörtímabilið 2016-2018 en kosning meðal félagsmanna hefst að morgni 9. mars nk. og stendur til hádegis þann 15. mars. Í blaðinu eru leiðbeiningar um hvernig á að kjósa. Þá er nýjum kjarasamningum gerð skil en kjarasamningar við Samtök atvinnulífsins og Félag atvinnurekanda voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í nýlegri atkvæðagreiðslu. Birt er grein um batann á vinnumarkaði og hvernig hann hefur skilað sér og fjallað er um orlofsmál og starfsmenntamál svo fátt eitt sé nefnt. 

Skoða blaðið Sækja í pdf