Spurt og svarað um orlof

Hér er að finna helstu spurningar sem félagsfólk VR hefur varðandi orlof.

Það er von okkar að þú finnir svar við þinni spurningu hér. Ef þú færð ekki svar við því sem þú ert að leita eftir þá bendum við þér á að hafa samband við kjaramálasvið VR í síma 510 1700 eða í tölvupósti á kjaramal@vr.is

Orlof

 • Lágmarksorlof er skv. lögum 24 virkir dagar á heilu orlofstímabili sem gera 10,17% orlofslaun af öllu kaupi.

  • Eftir 5 ára starf í sömu starfsgrein skal orlofið vera 25 dagar og eru orlofslaun þá 10,64%.
  • Eftir 5 ára starf í sama fyrirtæki er orlofið 27 dagar og skulu þá orlofslaun vera 11,59%.
  • Eftir 10 ára starf hjá sama fyrirtæki er orlofið 30 dagar og skulu þá orlofslaun vera 13,04%.

  Ef þú varst komin/n með meira en 24 daga orlofsrétt hjá fyrirtæki og skiptir um vinnu færðu aftur þá daga eftir þrjú ár hjá nýju fyrirtæki. Skv. kjarasamningi verður þú að sýna fram á að þú hafir verið með þann orlofsrétt áunninn hjá fyrri atvinnurekanda til að öðlast hann hjá nýjum atvinnurekanda.

 • Orlof er alltaf tekið í samráði við stjórnanda. Orlofið skal vera skipulagt a.m.k. mánuði áður en það á að hefjast. Atvinnurekandi á að reyna að verða við óskum starfskraftsins að svo miklu leyti sem unnt er vegna starfseminnar og skal hann veita það í einu lagi á tímabilinu 2. maí til 15. september skv. orlofslögum.

  Ef starfsfólk fær ekki að taka orlof á tímabilinu frá 2. maí til 15. september, á það að fá 25% lengingu á þann hluta orlofs sem veitt er utan ofangreinds tíma eða greiðslu sem því nemur.

 • Heimilt er með samkomulagi milli starfskrafts og atvinnurekanda að fella niður eða lækka orlofs- og eða desemberuppbót og veita samsvarandi frí í staðinn sem tekur mið af launum hvers og eins. Fríið á að vera veitt í heilum eða hálfum dögum.

  Dæmi: Mánaðarlaun eru 550.000 kr. fyrir fullt starf í dagvinnu. Dagkaupið er því 25.381 kr. (550.000 kr. / 21,67). Desemberuppbót ársins 2023 eru 103.000 kr., sjá nánar hér. Því geta aðilar samið um að starfskrafturinn fái 4 frídaga á launum (25.381 kr. x 4) auk þess sem eftirstöðvar eru þá greiddar þ.e. 1.476 kr.

 • Með samkomulagi við atvinnurekanda er hægt að taka áunnið og uppsafnað orlof á uppsagnarfresti. Slíkt verður þó einungis gert með gagnkvæmu samkomulagi atvinnurekanda og starfskrafts þar sem meginreglan er sú að orlof og uppsagnarfrestur getur ekki farið saman.

  Það að orlof og uppsagnarfrestur fara ekki saman þýðir að uppsagnarfrestur lengist sem því orlofi nemur sem tekið er á uppsagnarfrestinum.

 • Ávinnsla orlofsréttar miðast við orlofsárið. Orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Starfskraftur sem nær 5 ára starfsaldri eftir 1. maí er kominn inn á nýtt orlofsár og ávinnur sér því 25. daginn til töku næsta sumar, þ.e. á næsta orlofstökutímabili. Ef starfskrafturinn nær 5 ára starfsaldri fyrir 1. maí ávinnur hann sér orlofsdaginn til töku sumarið það ár.

  Ef orlofslaun eru reiknuð í hverjum mánuði hækka þau strax næsta mánuð eftir að starfstíma er náð. Dæmi: Starfskraftur hefur verið með 10,17% orlofslaun og nær 5 ára starfsaldri hjá fyrirtæki 18. nóvember. Þá eru reiknuð 11,59% orlofslaun strax í desember.

  Samtök atvinnulífsins og VR gerðu með sér samkomulag árið 1996 sem enn er í fullu gildi. Það samkomulag tryggir starfskrafti sem náð hefur 10 ára starfsaldri við upphaf orlofsárs 30 daga orlof frá þeim tíma. Þegar samningurinn var undirritaður var 10 ára starfsaldur 27 dagar en 10 ára starfsaldur er í dag 30 orlofsdagar. (ath. Með að vísa í samkomulagið)

 • Orlofslaun fyrnast ekki milli ára. Starfskraftur hefur hins vegar ekki heimild til að flytja orlofsdaga milli ára nema í samráði við sinn stjórnanda, sem þá greiðir ótekna orlofsdaga út frá fyrra orlofsári ef hann heimilar ekki að dagarnir séu færðir á nýtt orlofsár.

  Ef aðilar semja um að flytja daga yfir á nýtt orlofsár ráðleggjum við að það samkomulag sé gert skriflega.

 • Samkomulag við atvinnurekanda ræður hvenær orlof skal tekið. Atvinnurekandi skal leitast við að taka tillit til óska starfskrafts um orlofstöku. Atvinnurekandi hefur jafnframt endanlegt ákvörðunarvald um orlofstöku. Hann verður að tilkynna starfskrafti um tilhögun orlofstöku a.m.k. mánuði áður en orlof hefst.

 • Dagkaup reiknast þannig að deilt er í mánaðarlaun með 21,67, meðalfjölda virkra vinnudaga í mánuði. Alls eru virkir dagar á ári 260 og er þeim deilt í fjölda mánaða, 260/12 = 21,67.

 • Starfskraftur í hlutastarfi á sama rétt og sá sem er í fullu starfi, en ávinnsla orlofslauna fer eftir starfshlutfalli/launum á ávinnslutímabili.

 • Umsamið fæðingarorlof telst til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki orlofslauna.

  Lögbundið fæðingarorlof telst til starfstíma þegar áunnin réttindi eru reiknuð. Sjá nánar spurt og svarað á vef Fæðingarorlofssjóðs.

  Um fæðingar- og foreldraorlof fer skv. lögum nr. 95/2000 um sama efni.

  Þegar starfsfólk hefur starfað hjá sama atvinnurekanda í eitt ár áður en það fer í fæðingarorlof á það rétt á því að fá greidda orlofsuppbót og desemberuppbót í lögbundna fæðingarorlofinu.

 • Starfsfólk sem samkvæmt ósk atvinnurekanda fær ekki sumarfrí á þeim tíma sem lög gera ráð fyrir að sumarfrí sé almennt tekið, þ.e. á tímabilinu frá 2. maí til 15. september ár hvert, skal fá 25% lengingu á þann hluta orlofs sem veitt er utan ofangreinds tíma eða greiðslu sem því nemur.

  Ekki kemur lenging á orlof sem veitt er utan orlofstökutímabils að ósk starfskrafts.

 • Þegar starfskraftur hættir í einu fyrirtæki og hefur störf í öðru þá á hann rétt á því að taka orlof hjá nýja atvinnurekandanum eftir því sem við á þ.e. 24 eða 25 daga á hefðbundnu orlofstímabili. Nýi atvinnurekandinn verður að heimila og semja við starfskraftinn um orlof og eru orlofslaun starfskraftsins mögulega að hluta greidd eftir ávinnslu frá nýja atvinnurekandanum en að öðru leyti við uppgjör á áunnu og uppsöfnuðu orlofi hjá fyrrum atvinnurekanda.

  Ef starfskraftur hefur áunnið sér lengri orlofsrétt hjá fyrri atvinnurekanda fær hann réttinn að nýju eftir þriggja ára starf hjá nýjum atvinnurekanda enda hafi rétturinn verið sannreyndur við ráðningu.

 • Orlof skal reikna á öll laun hvaða nafni sem þau nefnast. Þegar starfskraftur fær auka greiðslur eins og t.d. bónus þá skal greiða orlof einnig á þær greiðslur.

  Orlof reiknast þó ekki á orlofs- og desemberuppbætur né þær greiðslur sem eru beinlínis ætlaðar til að greiða útlagðan kostnað starfskrafts, eins og akstursgjald og dagpeninga.

 • Starfsfólk safnar orlofi fyrir þann tíma sem það fær veikindadaga greidda frá atvinnurekanda. Orlof er greitt á öll laun og áttu því alltaf rétt á orlofi fyrir þau laun sem þú færð, hvort sem launin eru vegna vinnu, veikinda eða vegna launa á uppsagnarfresti.

  Ef veikindi eru ekki greidd af atvinnurekanda heldur t.d. sjúkrasjóði, safnast ekki orlof fyrir þann tíma þar sem orlof safnast einungis fyrir þann tíma sem laun frá atvinnurekandi eru greidd fyrir.

 • Starfskraftur á rétt á að fá orlofið bætt jafnlengi og starfskrafturinn getur ekki notið frísins vegna veikinda eða slyss ef veikindin eða áverkar vegna slyssins standa samfellt yfir lengur en í 3 sólarhringa og tilkynningaskyldu er fullnægt.

  Starfskraftur þarf að tilkynna atvinnurekanda strax á fyrsta degi að hann geti ekki notið frísins og láta vita frá hvaða lækni hann muni koma með læknisvottorð.

 • Þegar starfskraftur, sem ekki er ráðinn sem staðgengill stjórnanda, leysir stjórnanda sinn af í störfum t.d. vegna orlofs eða veikinda og sú afleysing stendur yfir í eina viku eða lengur, skal undirmaður eiga rétt til umbunar fyrir slíka afleysingu með hliðsjón af þeirri ábyrgð og því starfsálagi sem hann verður fyrir. Aðilar skulu semja um slíka umbun áður en til afleysingar kemur.

 • Orlofstökutímabil er skv. orlofslögum frá 2. maí til 15. september ár hvert. Því geta atvinnurekendur ekki komið því þannig fyrir að starfsfólki sé skikkað í frí utan hins hefðbundins orlofstímabils. Öðru máli gegnir ef starfsfólk er vinnur vaktavinnu og hefur áunnið sér vetrarfrí. Vetrarfrí er einungis veitt utan hins hefðbundins orlofstímabils þ.e. 1. október til 1. maí á hverju ári.

 • Samkvæmt orlofslögum skal orlof ákveðið með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara, nema báðir aðilar séu samþykkir öðru. Ef búið er að samþykkja orlof getur atvinnurekandi ekki tekið samþykkið einhliða til baka.

 • Orlof skv. 1. gr. laga um orlof nr. 30/1987 skal reiknað ofan á öll laun. Að lágmarki er um að ræða uppsöfnun 2 dagar fyrir hvern unninn mánuð eða 10,17% orlof. Orlof fer eftir starfsaldri eða starfstíma í starfsgrein en hægt er að semja sérstaklega um aukið orlof.

  Hægt er að reikna og greiða orlof á tvo vegu:

  Orlofslaun/orlofsgreiðslur eru greiddar starfskrafti þegar hann fer í orlof. Ávinnsla orlofstíma ætti að koma fram á launaseðli.

  Mögulegt er að samningur hafi verið gerður um vörslu orlofslauna við tiltekinn banka. Þá er orlof reiknað við hver mánaðamót og lögð inn á sérstakan orlofsreikning. Útreikningur orlofslauna kemur þá ávallt fram á launaseðli og sést þar hvað orlofið er mikið og svo hversu mikið er dregið frá launum og lagt í banka. Uppsöfnun orlofslauna inn á orlofsreikningi kemur þá einnig fram á launaseðli. Orlofslaun eru svo greidd inn á reikning starfskraftsins frá bankanum fyrir 15. maí ár hvert og dekkar sú upphæð frítöku starfskraftsins.

  Þegar orlof er lagt í banka þá gilda sömu reglur um orlofstöku þ.e. aðilar verða að semja um hvenær orlofið er tekið. Þegar starfskraftur er í launalausu leyfi en nýtir fyrir þann tíma orlofslaun sem greidd voru í banka þá telst sá tími til starfstímans.

  Þegar orlofslaun eru greidd út með launum þá bendum við félagsfólk okkar á það að fara fram á að orlofslaunin séu greidd í banka.

  Starfskraftur í hlutastarfi á sama rétt en ávinnsla orlofslauna fer eftir starfshlutfalli/launum á ávinnslutímabili.

 • Þegar starfskraftur hættir störfum hjá atvinnurekanda ber að greiða út áunnið orlof, skv. 8. gr. laga um orlof nr. 30/1987.

  Hér að ofan kemur fram að ávinnsla orlofs eru tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð, á það við þegar starfskraftur fær orlofslaunin greidd í banka eða tekur á einu orlofsári sem ávallt er frá 1. maí til 30. apríl ár hvert í 24 daga orlof. Ef starfskraftur hefur einungis unnið í 6 mánuði hjá atvinnurekanda skal reikna áunnið orlof í orlofsstundir (sjá hér að neðan upplýsingar um hvernig orlofsstundir eru reiknaðar) og margfalda með tímakaupi í dagvinnu við starfslok ef laun hafa breyst á þessum tíma. Ef laun eru þau sömu þessa 6 mánuði skal margfalda summu greiddra launa með 10,17% orlof (sé miðað við lágmarksorlofsrétt).

  Dæmi:

  Starfskraftur er með 500.000 kr. mánaðarlaun. Ef reiknað er með 2 dögum fyrir hvern unnin mánuð á starfskraftur eftir 6 mánuði 12 daga í orlof margfaldað með 23.073 kr. sem er kaup pr. dag (500.000 kr. deilt með 21,67 sem er deilitala til að finna dagvinnukaup). Dagvinnukaupið er svo margfaldað með 12 = 276.876 kr. Summa launa 500.000 kr. Í 6 mánuði er 3.000.000 kr. Sú upphæð margfölduð með 10,17% orlof er 305.100 kr. Þarna sjáið þið að ef starfskraftur fer ekki í neitt orlof þá fær starfskraftur of lág orlofslaun ef einungis er miðað við uppsafnaða orlofsdaga.

 • Aðili hefur í laun fyrir afgreiðslustörf í maímánuði, 450.000 kr. vegna dagvinnu og 50.000 kr. vegna yfirvinnu fyrir hvern unninn mánuð. Samtals hefur hann í laun 500.000 kr. Orlof vegna þessa mánaðar er 10,17% af 500.000 kr. eða 50.850 kr.

  Orlofinu er breytt í orlofsstundir með því að deila í það með gildandi dagvinnutímakaupi, sem er 2.679,53 kr. (450.000 kr./167,94). Þannig eru orlofsstundir vegna maímánaðar samtals 18,97 stundir (500.000 kr. x 10,17% / 2.679,53 kr.).

  Yfir orlofsárið gæti þessi aðili t.d. hafa áunnið sér samtals 206,58 orlofsstundir (10,89 mán. x 18,97st.). Þegar hann fer í orlof um sumarið hafa laun hans hækkað og er tímakaup hans orðið 2.900 kr. (mánaðarlaun hafa hækkað um 18.000 kr. þ.e. frá 1. apríl skv. samningi og reiknast þá 368.000 kr./167,94). Orlofslaun starfskraftsins verða því 593.340 kr. (204,6 orlofsstund x 2.900 kr. pr. klst.).