Með umsókn skal fylgja
- Greiddur reikningur sem er á nafni VR félaga þar sem fram kemur nám/námskeiðslýsing og nafn fræðsluaðila.
- Með námi/námskeiði/ráðstefnu sem sótt er erlendis þarf einnig að fylgja lýsing á námi og tengill á námskeiðslýsingu af vefsíðu fræðsluaðila ásamt útskýringu á því hvernig fræðslan tengist starfi umsækjanda.
- Reikningur má ekki vera eldri en 12 mánaða.
- Ekki er hægt að sækja um styrk oftar en einu sinni vegna sama reiknings.
Mikilvægt er að skila inn öllum umbeðnum gögnum svo afgreiðsla umsóknar tefjist ekki.
Skilgreining og skilyrði námskeiðs
Viðmið sjóðsins varðandi skilgreiningu á hugtakinu námskeið eru eftirfarandi: Afmarkaður hluti náms sem fylgir fyrirfram ákveðinni áætlun eða skilgreiningu og lýkur yfirleitt með vottun á frammistöðu eða annars konar staðfestingu. Ráðgjöf eða handleiðsla uppfyllir ekki skilyrði námskeiðs af hálfu sjóðsins.
Þau skilyrði sem námskeið þarf að uppfylla til að kallast námskeið af hálfu sjóðsins eru:
- Skilgreint upphaf, endir og leiðbeinandi,
- upplýsingar um námskeið þurfa að vera aðgengilegar,
- námskeiðið þarf að vera aðgengilegt opinberlega.
Hvað er styrkhæft?
- Starfstengd námskeið
- Starfstengd netnámskeið eða áskrift að vefsíðu/efnisveitu
- Almennt nám til eininga (t.d. framhaldsskóli, háskóli)
- Tungumálanámskeið
- Sjálfstyrkingarnámskeið (sem er ekki hluti af meðferðarúrræði)
- Ráðstefnur sem tengjast starfi umsækjanda
- Stjórnendaþjálfun/starfstengd markþjálfun.
-
VR félaga og fyrirtæki gefst kostur á að sækja um sameiginlegan styrk til sjóðsins ef nám VR félaga kostar 200.000 kr. eða meira. Þá er bæði réttur einstaklings og réttur fyrirtækis nýttur við afgreiðslu umsóknar til að hámarka mögulega styrkveitingu frá sjóðnum.
Úthlutunarreglur
Veittur er styrkur fyrir 90% af námi / starfstengdu námskeiðsgjaldi/ ráðstefnugjaldi að hámarki 130.000 kr. á ári.
Ef hvorki hefur verið sótt um starfstengdan styrk né ferðastyrk í starfsmenntasjóðinn í þrjú ár í röð er hægt að sækja um styrk fyrir 90% af námskeiðsgjaldi að hámarki 390.000 kr. fyrir einu samfelldu námi. Aðeins er hægt að sækja um styrkinn í einu lagi. Greiðslur til sjóðsins þurfa að hafa borist að lágmarki í 30 mánuði af síðustu 36 mánuðum fyrir dagsetningu umsóknar.
Öll réttindi falla niður þegar félagsgjöld hafa ekki borist samfellt í sex mánuði.
Mikilvægt að hafa í huga
Greiðslur úr sjóðnum sem nýttar eru til starfsnáms eru undanþegnar staðgreiðslu. Í þeim tilfellum þar sem styrkir eru ekki skattskyldir þarf að færa kostnað til frádráttar á móti styrk á skattframtali. Hér getur þú nálgast leiðbeiningar og nánari upplýsingar.
Þá viljum við vekja athygli á því að atvinnuleitendum ber að gefa upp styrki frá stéttarfélögum til Vinnumálastofnunar. Einnig bendum við lífeyrisþegum á að greiðslur ber að tilkynna til Tryggingastofnunar.
Þegar nemendafélagsgjöld framhaldsskóla eru greidd ásamt skólagjaldi þá þarf sundurliðun á kostnaði að fylgja með umsókn í sjóðinn. Nemendafélagsgjöld eru ekki styrkhæf og því dregin frá heildarupphæð.