Gjaldþrot fyrirtækja

Gjaldþrot geta fylgt í kjölfar lokunar fyrirtækja en gjaldþrot þýðir í raun að fyrirtækið getur ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar.

Starfsfólki sem á launakröfu á hendur gjaldþrota fyrirtæki er bent á eftirfarandi:

  • Við gjaldþrot er skipaður skiptastjóri sem lýsir eftir kröfum í þrotabúið í Lögbirtingarblaðinu.
  • Launþegi hefur tvo mánuði til að lýsa kröfu í þrotabúið frá auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu og sér VR um það fyrir sína félagsmenn að lýsa kröfu fyrir útistandandi laun og áunnin réttindi þegar þeir hafa skilað inn gögnum vegna málsins.
  • Launakröfur eru forgangskröfur í þrotabú sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrstar ef einhverjar eignir eru fyrir hendi í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hins vegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa, upp að hámarki kr. 633.000 fyrir laun sem eru gjaldfallin eftir 1. júlí 2018. Tryggðar eru launakröfur síðustu þriggja mánaða í starfi auk allt að þremur mánuðum í uppsagnarfresti. Eldri kröfur falla því utan ábyrgðar og fást ekki greiddar. Hámarksábyrgð á greiðslu áunninna orlofslauna er kr. 1.014.000. Vangoldin lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuði fyrir úrskurðardag eru greidd en eldri kröfur eru ekki greiddar.
  • VR aðstoðar félagsmenn sína við innheimtu á launakröfum í gjaldþrota fyrirtæki ef félagsmenn óska þess og er það félagsmönnum að kostnaðarlausu. Í þessu felst að VR reiknar kröfuna og leggur í viðkomandi þrotabú. Ef greitt er til annars lífeyrissjóðs en Lífeyrissjóðs verslunarmanna s.s. eins og séreignarlífeyrissparnað á öðrum stað, þá verða þeir félagsmenn að koma uppl. þangað sjálfir (ef óskað er eftir því er hægt að fá afrit af gerði kröfu hjá VR þegar hún er tilbúin).
  • Afar mikilvægt er að halda til haga sem flestum gögnum úr ráðningarsambandinu því það auðveldar vinnslu á launakröfu. Auk þess eru launaseðlar áreiðanlegustu sönnunargögnin ef til ágreinings kemur um umfang og eðli launakröfunnar. Nauðsynlegt er að öll gögn berist félaginu sem fyrst.

Eftirtalin gögn þurfa að berast kjaramálasviði VR við fyrsta tækifæri:

  • Ráðningarsamningur ef hann er til
  • Launaseðlar sl. 6 - 12 mánaða
  • Upplýsingar um stöðu orlofs.
  • Uppl. um vinnutilhögun starfsmanns s.s. vinnutíma og starfstitil.

VR vill benda félagsmönnum á að þegar fyrirtæki verður gjaldþrota er mikilvægt að þeir skrái sig og sæki um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun óski þeir eftir þeim greiðslum.
Sjá hér vef Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysisbætur eru greiddar frá úrskurðardegi gjaldþrots skv. reglum sjóðsins hafi félagsmaður skráð sig frá þeim tíma þar. Atvinnuleysisbætur eru greiddar frá úrskurði og fyrir laun á óunnum uppsagnarfresti. Þessar bætur eru síðan dregnar af þeirri fjárhæð sem þeir fá greidda frá þrotabúi og/eða Ábyrgðasjóði launa.

Tíminn sem þetta ferli tekur eru ca 6-8 mánuðir frá auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu. Í upphafi er 2ja mánaða innköllunarfrestur. Að því loknu vinnur skiptastjóri úr innkomnum kröfum og má reikna með 2 til 3 mánuðum en þessi tími gæti verið lengri eða styttri. Að lokum ef skiptastjóri gerir engar athugasemdir við launakröfurnar er þeim komið til Ábyrgðarsjóðs launa sem aftur má reikna með 2 til 3 mánuðum í úrvinnslu áður en greiðslur eiga sér stað.

Ef félagsmaður kýs að viðhalda félagsaðild hjá VR af atvinnuleysisbótum þarf að passa sérstaklega að merkja það í umsókninni um atvinnuleysisbætur að félagsgjöld séu dregin af greiðslum og skilað til VR.

Ef þú hefur frekari spurningar um réttarstöðu þína hafðu samband við kjaramálasvið VR í síma 510 1700 eða sendu fyrirspurn til vr@vr.is.