VR Stafræna hæfnihjólið
Stafræna hæfnihjólið er sjálfsmatspróf sem tekur einstakling um 12-15 mínútur að þreyta. Stuðst er við danska gagnagrunninn hjá Center for digital dannelse við úrlausnir og eru niðurstöður þátttakanda vistaðar þar án persónugreinanlegra gagna. Prófið byggir á módeli um stafræna hæfni sem gefið er út af Evrópusambandinu.
Að sjálfsmatsprófi loknu fær þátttakandi tölvupóst með niðurstöðum sínum sem birtast í svokölluðu geislariti sem sýnir hæfni viðkomandi á 16 mismunandi sviðum stafrænnar hæfni sem skilgreinist í fjóra meginþætti. Auk niðurstaðna um stafræna hæfni fær þátttakandinn ráðleggingar um á hvaða sviðum hann megi bæta sig og tillögur um hvernig það skal gert.
Meginþættir stafrænnar hæfni skiptast niður í öryggi, upplýsingar, samskipti og framkvæmd.
Hvernig stend ég samanborið við aðra í minni starfsgrein?
Meginmarkmið VR með Stafræna hæfnihjólinu er að gefa félagsmönnum kost á að kortleggja eigin stafrænu hæfni með það í huga að veita þeim mögulega sýn inn í þá þætti sem flokkast almennt undir stafræna hæfni.
Með þá vitneskju sjá félagsmenn á hvaða sviði þeir standa sig vel og á hvaða sviði þeir mættu bæta sig til þess að standast samanburð miðað við aðra í sömu starfsgrein.
Hvað er stafræn hæfni?
Stafræn hæfni snýst fyrst og fremst um að geta beitt viðeigandi þekkingu og færni, en einnig að vera reiðubúin/n að endurskoða viðhorf sín og vera tilbúin/n að prófa nýja tækni.
Notkun á stafrænni tækni nær til ýmissa viðfangsefna og er notuð í ýmsum tilgangi bæði í vinnu sem og í einkalífi, t.d. vegna náms, til að sækja um vinnu, versla á netinu, afla heilsufarsupplýsinga, taka þátt í samfélaginu o.s.frv.
Efling stafrænnar hæfni stuðlar fyrst og fremst að því að styrkja mannauð og auka atvinnu- og samkeppnishæfni hvers og eins.