Orlofslaun

Samkvæmt gildandi lögum ber að reikna orlofslaun í orlofsstundum hvern mánuð fyrir sig. Orlofsstundirnar eru síðan lagðar saman fyrir allt árið og margfaldaðar með gildandi tímakaupi þegar orlof er tekið.

Þetta þýðir að orlofslaun eru launatryggð (sjá einnig lög nr. 30 frá 1987 um orlof).

Dæmi:

Orlofsstundir eru fundnar með því að finna orlofsprósentuna (10,17%/24 dagar, 10,64% /25 dagar, 11,11% /26 dagar, 11,59% /27 dagar, 12,07% /28 dagar, 12,55% /29 dagar eða 13,04% /30 dagar) af heildarlaunum og deila í þá útkomu með dagvinnutímakaupi. Dagvinnutímakaup er fundið með því að deila 160 klst. fyrir skrifstofufólk og 170 klst. fyrir verslunarfólk upp í föst mánaðarlaun. Í dæminu hér að neðan er reiknað út orlof fyrir afgreiðslumann.

  • Dagvinna kr. 260.000
  • Yfirvinna kr. 45.000
  • Samtals kr. 305.000

Dagvinnutímakaup er:

Föst mánaðarlaun 260.000 / 170 (deilitala) = 1.529,41 kr á klukkustund í dagvinnu.

Orlofsstundir eru:

Heildarlaun 305.000 x 10,17% = 31.018 / 1.529,41 tímakaup í dagvinnu = 20,28 orlofsstundir.

Þegar viðkomandi starfsmaður fer í orlof, hefur tímakaup hans hækkað í kr. 1.617,64, t.d. vegna launabreytinga. Þá reiknast orlofsstundir hans yfir árið á kr. 1.617,64 en ekki á kr. 1.529,41 hver orlofsstund.

Af orlofslaunum ber að greiða skatta og öll önnur gjöld, því hér er um venjulega launagreiðslu að ræða.

Orlofsréttur

  • Orlofsárið er frá 1. maí - 30. apríl og orlofstímabilið er frá 2. maí - 15. september. Til orlofsdaga teljast aðeins virkir dagar. Greiða skal út orlof við starfslok. Orlof tekið í samráði við atvinnurekanda.
  • Allir eiga rétt á 24 daga orlofi jafnvel þó þeir eigi ekki rétt til orlofslauna allan þann tíma hjá atvinnurekanda.