VR varasjóður

VR varasjóður sameinar í einn sjóð réttindi sem áður voru í mismunandi sjóðum og gefur félagsmönnum möguleikann á því að nýta sjóðinn af meiri sveigjanleika en áður hefur verið.
Í sjóðinn renna fjármunir úr Sjúkrasjóði VR og orlofssjóði sem áður voru nýttir til styrkja af ýmsu tagi.

Allir félagsmenn sem greiða félagsgjald til VR safna réttindum í sjóðinn. Lagt er inn í hann árlega eftir aðalfund og uppfærist inneign í kjölfarið. Aðalfundur félagsins er haldinn á vorin. Ef félagsmaður hættir í félaginu getur hann áfram nýtt réttindainneign sína í sjóðnum í tiltekinn tíma. Tveimur árum eftir að síðustu iðgjöld bárust byrjar inneign að skerðast, sjá nánar 4. gr. í reglum um sjóðinn.

Greiðslur úr VR varasjóði

Endurgreiðsla úr VR varasjóði fer eftir réttindainneign hvers og eins félagsmanns.

Greiðslur úr sjóðnum eru almennt staðgreiðsluskyldar og er staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun. Staðgreiðsla skatta er tekin af styrkupphæð úr VR varasjóði, skv. skattþrepi 1.

Þrjár undantekningar eru frá því og eru þær tilteknar hér að neðan:

 • Líkamsrækt og endurhæfing (sjúkraþjálfun, nudd, nálastungur og kírópraktor) að hámarki kr. 60.000 á ári (m.v. árið 2021)
 • Greiðsla á gistikostnaði í orlofi að hámarki kr. 55.000 á ári. Þetta á einungis við um greiðslu fyrir gistingu, s.s. orlofshús, hótel eða gistiheimili.
 • Starfstengt nám, styrkir úr sjóðnum vegna starfsnáms.

Hverja greiðslukvittun má aðeins nota einu sinni en hún má vera allt að 2ja ára þegar sótt er um endurgreiðslu.

Í hvað get ég nýtt sjóðinn?

 • Æfingagjöld t.d. í golfklúbba, hjá íþróttafélögum, tímar hjá einkaþjálfara, líkamsræktarnámskeið, skokk- og gönguhópar, kort í sund og líkamsræktarstöðvar (skattfrjálst að hámarki 60.000 á ári).
 • Endurhæfingarkostnaður s.s. meðferðir hjá sjúkraþjálfara, nuddara og kírópraktor ásamt nálastungumeðferð (skattfrjálst að hámarki 60.000 á ári).
 • Greiðsla á gistikostnaði í orlofi að hámarki kr. 55.000 á ári. Þetta á einungis við um greiðslu fyrir gistingu, s.s. orlofshús, hótel eða gistiheimili.
 • Greiðsla vegna starfstengdra námskeiða- og skólagjalda (skattfrjáls, sjá nánari upplýsingar fyrir neðan).
 • Kaup á hjálpartækjum tengt líkamsrækt s.s. hjól, golfkylfur, hlaupaskór, íþróttafatnaður o.fl.
 • Kaup á hjálpartækjum s.s. gleraugum, linsum, heyrnartækjum, innleggjum í skó og fl.
 • Tannlæknaþjónusta.
 • Læknisþjónusta, þar með talið lyfjakostnaður, röntgenmyndatökur, sýnatökur, laseraðgerðir og fleira.
 • Sálfræðikostnaður og viðtöl hjá geðlæknum.
 • Tekjuskerðing vegna fæðingarorlofs, atvinnuleysis eða heilsubrests.
 • Eftir að 60 ára aldri hefur verið náð.
 • Orlofsþjónusta s.s. flug, bílaleigubílar, pakkaferðir.
 • Kaupa á líf-, slysa- og sjúkdómatryggingum.

Mikilvægt að hafa í huga

Greiðslur úr sjóðnum sem nýttar eru til starfsnáms eru undanþegnar staðgreiðslu. Athugið að ef úttekt úr varasjóði og starfsmenntasjóði samanlagt vegna starfsnáms nemur hærri upphæð en sem nemur kvittun fyrir náminu, er mismunurinn staðgreiðsluskyldur.

Í þeim tilfellum þar sem styrkir eru ekki skattskyldir þarf að færa kostnað til frádráttar á móti styrk á skattframtali. Hér getur þú nálgast leiðbeiningar og nánari upplýsingar. Inn á Mínum síðum getur þú nálgast launamiða yfir þær greiðslur sem þú hefur fengið greiddar frá VR, undir „Fyrir skattframtal“.

Þá viljum við vekja athygli á því að atvinnuleitendum ber að gefa upp styrki frá stéttarfélögum til Vinnumálastofnunar. Einnig bendum við lífeyrisþegum á að greiðslur ber að tilkynna til Tryggingastofnunar.